16.05.1949
Efri deild: 110. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1898 í B-deild Alþingistíðinda. (3101)

193. mál, skipun læknishéraða o. fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þegar borgarstjóri, Gunnar Thoroddsen, kom til mín og bað mig að greiða fyrir málinu, sagði hann mér, að fullt samkomulag allra aðila væri um það. Þetta sama sagði hæstv. menntmrh. mér. Ég sagði þeim þá strax, að ég væri á móti málinu, en mundi þó greiða fyrir afgreiðslu þess, en láta það afskiptalaust að öðru leyti. Ég vil þó benda á, hve málið er illa undirbúið, en hver það hefur gert, veit ég ekki. Ég hef þó fullvissu fyrir, að hvorki landlæknir né Sigurður Sigurðsson berklayfirlæknir hafa gert það, en um borgarstjóra veit ég ekki. Undirbúningurinn er þannig, að 1. gr. frv., sem sagt er að eigi við 1. gr. l. nr. 35 1940, á augsýnilega við 2. gr. sömu l., og eftir 1. gr. frv. gæti Rvík ekki haft neinn heilbrigðisfulltrúa. Slíkur er undirbúningur frv., og þannig fer það í gegnum 3 umr, í Nd., af því að hv. þm. Nd. er tjáð, að fullt samkomulag sé um málið milli allra aðila, og því athugar hún það ekki. En svo sendir stjórn Læknafélags Íslands heilbr.- og félmn. þessarar hv. deildar svo hljóðandi bréf, er ég nú ætla að lesa upp — með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn Læknafél. Íslands leyfir sér hér með að mótmæla, einkum fyrir hönd embættislækna landsins, mjög eindregið frv. því um breyt. á l. nr. 35 12. febr. 1940, um heilbrigðisnefndir og heilbrigðissamþykktir, og l. nr. 44 23. júní 1932, um skipun læknishéraða, sem nú mun vera komið til hv. Ed. Alþingis, og vísar að öðru leyti til bréfaskrifta þeirra, sem farið hafa milli hennar og hv. heilbr.- og félmn. Nd. Alþingis.“

Þetta er þá allt samkomulagið, að læknastétt landsins mótmælir: Og vegna hvers mótmælir hún? Jú, vegna þess, að gert er ráð fyrir í frv., að ráðh. skipi borgarlækni í Rvík eftir till. bæjarstjórnar, en ekki eftir ráðum læknanna í landinu. Ég er alveg á bandi læknanna í þessu málum og teldi mun réttara að hafa þá hér sem eins konar millilið. Þá vil ég og benda á það, að þegar síðast voru gerðar breyt. á l., var samþ. að fella saman gildandi lagafyrirmæli um skipun læknishéraða. Þetta hefur aldrei verið framkvæmt, og verður því af þeim sökum að vitna í mörg l., sem óþarfi hefði verið, ef lagastafnum hefði verið hlýtt. Þá vil ég einnig benda á, að ég tel hæpið, að úr gildi séu felld l. nr. 21 13. júní 1937, eins og 5. gr. þessa frv. kveður á um. Ég tel þetta vafasamt vegna þess, að þá yrði fellt niður allt, sem í l. stendur um starf héraðslæknis í Reykjavík, en þar segir m.a.: „Hann aðstoðar við millilandasóttvarnir og veitir forstöðu sóttvarnarhúsi ríkisins án sérstaks endurgjalds.“ Að vísu tjáðu mér bæði landlæknir og Sigurður Sigurðsson berklayfirlæknir, að þetta ætti að vera starf hans áfram. En mér er spurn, hvort hægt er að fella úr l. ákvæði um starf einhvers manns öðruvísi en það sé ábending frá Alþ. um, að þetta eigi hann ekki að gera, þótt ákvæði séu um það sett í reglugerð, sem enga stoð á í l. Ég náði að vísu ekki í lögfræðing, en hygg, að slíkt feli alltaf í sér þannig ábendingu.

Þetta allt gerir það að verkum, að ég mun sitja hjá við atkvgr., þótt ég hins vegar telji mjög vafasamt, að málið eigi að ná fram að ganga í þeim búningi, sem það nú er í. Þar að auki er að þeim lækni, sem líklegt er, að verði borgarlæknir, mjög margt að finna, t.d. hefur hann gert sig sekan um að nota til eitrunar fyrir rottur eitur, sem annars staðar er bannað að nota, og farið mjög óvarlega með, svo skepnur, eins og kálfar, hafa komizt í það og drepizt af. En sem sagt þá ætla ég ekki að gera annað í sambandi við þetta mál en að segja þessi orð hér og sitja svo hjá við atkvgr.