09.04.1949
Neðri deild: 89. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1901 í B-deild Alþingistíðinda. (3116)

186. mál, eyðing refa og minka

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Snemma á þessu Alþingi var vísað til landbn. frv. til l. um útrýmingu minka og bann við minkaeldi. Frv. þetta var síðar sent Búnaðarfélagi Íslands, atvinnudeild háskólans og loðdýraræktarráðunaut ríkisins til umsagnar. Eftir að þessar umsagnir höfðu borizt n., tók hún til að undirbúa nýtt frv. um eyðingu refa og villiminka, og liggur það nú hér fyrir á þskj. 532. Frv. þetta er byggt á því, að rétt þykir að færa í eina heild lagaákvæði til varnar þeirri plágu, sem villtir minkar og refir hafa reynzt, og tilgangurinn sá að tryggja landsnytjar og búpening betur, en verið hefur gegn þessari plágu. Frv. er í samræmi við samþykktir síðasta þings í þessu máli, og sé ég ekki ástæðu til að rekja efni þess nánar, nema tilefni gefist, þar sem þm. hafa það við höndina og geta kynnt sér efni þess. Ég vil þó vekja athygli á IV. kafla, því að þar eru ákvæði um, að sýslunefndir og bæjarstjórnir hafi ákvörðunarrétt um, hvort þær vilji banna minkaeldi eða ekki í umdæmum sínum, enda skulu viðkomandi sýslu- eða bæjarsjóðir greiða eigendum skaðabætur, eftir mati dómkvaddra manna, ef til slíks kemur. — Í V. kafla frv. er farið fram á nýtt ákvæði um skiptingu kostnaðar af refa- og minkaveiðum og eyðingu þeirra á annan hátt. Eftir því ákvæði er gert ráð fyrir, að ríkissjóður greiði 1/3 kostnaðar, sýslusjóður 1/3 og svo viðkomandi hreppsfélag 1/3. Að öðru leyti setur landbrh., að fengnum till. loðdýraræktarráðunautar, reglugerð um útrýmingu villiminka, eftir því sem þurfa þykir.

Ég óska svo eftir, að málinu verði vísað til 2. umr. að þessari umr. lokinni, og vænti, að það fái góðar undirtektir hjá hv. deild.