09.04.1949
Neðri deild: 89. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1901 í B-deild Alþingistíðinda. (3117)

186. mál, eyðing refa og minka

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að halda langa ræðu um þetta mál, en ég vil aðeins benda á eitt atriði, sem ég tel þurfa að breyta. Það er í sambandi við 10. gr., þar sem gert er ráð fyrir að eitra á afréttum og víðlendum heimalöndum. Þessu tel ég þurfa að breyta þannig, að einungis verði heimilað að eitra á afréttum. Ég hef fengið kvartanir í sambandi við Dýraverndunarfélagið og sömuleiðis úr Skagafirði, að fólki þykir hart að sjá sína uppáhalds fjárhunda engjast sundur og saman af refaeitri, sem þeir hafa étið, í sambandi við þá refaeitrun, sem framkvæmd hefur verið að undanförnu, og það oft með lítilli fyrirhyggju um það, hvort slíkt eitur gæti orðið öðrum skepnum að fjörtjóni. Um þetta tel ég, að þurfi að setja nánari ákvæði og koma í veg fyrir, eftir því sem hægt er, að eitrun fyrir refi og minka verði öðrum skepnum að fjörtjóni.