25.04.1949
Neðri deild: 92. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1904 í B-deild Alþingistíðinda. (3121)

186. mál, eyðing refa og minka

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls hér í þessari hv. d. benti ég á verulegan galla, sem mér fannst vera á frv., sem er í 10. gr. þess, að ætlazt til þess, að sú ábending yrði tekin til greina hjá hv. landbn., sem flytur frv. Ég sé, að n. hefur ekki sinnt þessu að neinu leyti, og sé ég mér þá ekki annað fært, en að koma með brtt. við þessa gr. frv. við 3. umr. En það, sem ég benti á og gat nú um, er um eitrun fyrir refi, og tel ég þar stefnt svo djarft, að til stórhættu gæti orðið, ef framkvæmt væri það ákvæði frv. eins og það er óbreytt. Það hafa heyrzt raddir um það úr ýmsum áttum, að hundar hafi orðið fyrir refaeitri, sem hafi orðið þeim að bana, þar sem eitrað hefur verið svo gáleysislega eins og víða hefur verið gert um landið. Og ekkert form er fyrir því, hvernig eitrið er lagt út fyrir refina. Og ef það á að vera lagaskylda að eitra í heimalöndum, þó að það séu víðlend heimalönd, þá getur verið spurningin þessi: Hvað eru víðlend heimalönd? Og ef ætti að fara að eitra þar, mundi nú vera hætt við, að fleiri yrðu fyrir eitrinu, ekki aðeins hundar, heldur jafnvel féð sjálft, þar sem eitrið gæti runnið ofan í kindurnar með drykkjarvatninu. Það er því stórhættulegt að hafa þetta í löggjöfinni og má ekki eiga sér stað. Ég lýsi því yfir hér með, að ég neyðist til að koma með brtt. við þessa gr. til 3. umr., ef ekki verður öðruvísi ráðið fram úr þessu máli.