25.04.1949
Neðri deild: 92. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1904 í B-deild Alþingistíðinda. (3122)

186. mál, eyðing refa og minka

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Út af fyrirspurn hv. 1. þm. Árn. (JörB), hvort það sé ætlun landbn., að með þessu frv. sé líka afgr. frv. hans og hv. þm. Borgf. (PO) um bann gegn minkaeldi, vil ég taka fram, að það er einmitt svo. Það er ætlun n., að það frv. fái um leið afgreiðslu, þótt það sé ekki tekið sérstaklega fram. Í rauninni held ég, að það sé alveg þýðingarlaust, að við förum hér mikið að þrátta um þessi mál. Það er engum vafa bundið, að bæði öll landbn. og flm. að hinu frv. hafa sameiginlega fullan vilja og áhuga fyrir því, að reynt sé að koma með sem heppilegust ráð til varnar því tjóni, sem af þessum dyrum stafar og þetta frv. fjallar um. Og sannleikurinn er sá, að mér fannst ekki miklar aths. koma fram hjá hv. 1. þm. Árn. við þá leið, sem landbn. hefur hér farið inn á með þessu frv. Aðallega fannst mér honum þykja of skammt gengið í því að banna ekki að fullu allt minkaeldi. Nú er þarna nokkru lengra gengið, en á sér stað með þeim l., sem nú gilda um þessi atriði. Samkv. loðdýraræktarl. þurfa allir, sem vilja rækta loðdýr, að fá leyfi sveitarstjórna eða bæjarstjórna. Nú er lagt til samkv. þessu frv. landbn., að það sé á valdi ekki beint sveitarstjórna í héruðum landsins, heldur sýslunefnda og bæjarstjórna að banna með öllu eldi á minkum, og við erum þeirrar skoðunar, að það sé heppilegasta leiðin úr þeim ágreiningi, sem um þessi mál hefur verið. Aðalatriðið í þessum efnum er ekki eldi þeirra dýra, sem lokuð eru inni í traustum búrum, heldur að útrýma hinum villta stofni, sem er orðinn til mikils tjóns í þessu landi. Refirnir hafa verið til tjóns um langt skeið, minkarnir hafa verið það um nokkurra ára skeið, og virðist það tjón fara mjög vaxandi, sem af þeim stafar.

Hv. 1. þm. Árn. sagðist vera viss um, að allar sýslunefndir mundu tafarlaust samþykkja það að banna minkaeldi, ef þetta næði fram að ganga, og við þá hlið málsins hafði hann ekki neitt að athuga, en óttaðist, að bæjarstjórnir, sem þetta kynni að heyra undir, kynnu vegna öðruvísi aðstöðu að lita öðrum augum á þetta mál, vegna þess að þær og þeir aðilar, sem þar eiga hlut að máli, ættu ekkert á hættu varðandi þau mistök, ef minkar kynnu að sleppa. Því er nú alls ekki þannig varið, því að bæjarfélögin eiga alveg eins mikið í hættu og sveitirnar, ef áfram heldur það tjón, sem af þessum dýrum hlýzt. Eins og kunnugt er, hefur það tjón, sem af þessum dýrum hefur hlotizt, orðið einna magnaðast þar, sem þau hafa lagzt á hænsni og aðra fugla, sem vissulega eru jafnalgengir innan bæjarfélaganna og í sveitunum. Að svo miklu leyti sem hætta stafar af þessum dýrum fyrir fiskistofninn, heyrir það líka undir bæjarfélögin. Annars skal ég ekki mikið út í þetta fara. Ég sé ekki ástæðu til að hefja um þetta miklar þráttanir, því að það er áreiðanlega vilji allra aðila að ráða þar á þær bætur, sem heppilegastar eru.

Varðandi þær aths., sem komu hér fram frá hv. þm. Ak. (SEH) um eitrunarákvæði þessa frv., skal ég taka fram, að í þessu frv. er heimild til eitrunar mjög takmörkuð frá því, sem er í eldri lögum, því að undanförnu hefur verið eitrað á ári hverju og a.m.k. annað hvert ár og í reglugerðum margra héraða lögð áherzla á að láta eitrunina verða sem rækilegasta. Í þessu frv. er því slegið föstu, að ekki skuli eitrað nema þriðja hvert ár. Ég veit sjálfur af eigin raun og annarra, að dýrmætir fjárhundar hafa komizt í eitur. En hér er ekki um gott að velja, ef menn vilja þá ekki á annað borð banna alla eitrun. Ég skal taka fram, að við skulum ræða þetta mál við hv. þm. Ak., áður en 3. umr. fer fram, ef okkur gæti komið saman um að setja þarna gleggri ákvæði varðandi þær takmarkanir, sem þarna skyldu vera, því að aðalatriðið er það, að hér sé eins varlega að farið og unnt er, svo að ekki sé eins mikil hætta á því, að nytjadýr yrðu fyrir því tjóni að komast í eitrið. Nú er það svo varðandi þetta frv. allt, að það byggist á því, að því fylgi reglugerð, þar sem nánari ákvæði eru tekin fram um framkvæmd l., og þetta atriði, um eitrunina, er einmitt eitt þeirra atriða, sem miklu nánari ákvæði þarf um og yrði þá að vera reglugerðarákvæði. — Ég vona, að hv. þm. Ak. láti sér þetta nægja, og verður þá að sýna sig með tímanum, hvort samkomulag getur orðið um frekari takmarkanir varðandi það atriði. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um málið.