17.05.1949
Efri deild: 112. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1915 í B-deild Alþingistíðinda. (3140)

186. mál, eyðing refa og minka

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá Nd. og hefur þar tekið miklum breyt. frá upprunalegri mynd sinni. Fannst okkur nm. það vera orðið hálfgerður vanskapningur eftir síðustu umr. þar, eins og það liggur fyrir á þskj. 660. Varð það til þess, að við lögðum vinnu í það, og hefur frv. aftur tekið miklum breyt. hjá n. Eins og það kom frá Nd., er ætlazt til, að eyðing refa verði í svipuðu horfi og verið hefur. En þó er farið inn á þá nýju braut, að kostnaður skiptist að jöfnu milli hreppssjóða, sýslusjóðs og ríkissjóðs. Mun þetta byggt á því, hversu refum hefur fjölgað. Leggja þeir, er vinna þá, mikið í kostnað og gera þetta eigi aðeins fyrir sjálfa sig, heldur einnig aðra hreppa, sem liggja að sama afrétti. Þess vegna þótti rétt í Nd. að skipta kostnaðinum í þrennt, láta ríkið taka þátt í honum að 1/3, sýsluna að 1/3 og hreppa að 1/3. Þessi ákvæði höfum við látið standa. Eyðing refa standi undir fjallskilastjórn, þar sem fleiri sveitir eiga afréttarlönd saman, undir umsjón sýslumanns, og landbrn. hefur þar haft yfirumsjón. Þessu er haldið og engu breytt að ráði, nema tekið er í eina gr., 10. gr., að eitrað skuli fyrir ref „minnst þriðja hvert ár í afréttum og heimalöndum, sem notuð eru sem afrétt, þó eigi nær bæjum en 5 km“. Þetta ákvæði, um 5 km, leggjum við til, að fellt verði niður. Þar, sem refar ganga um daglega, fara þeir nær bæjum en þetta. Má og vinna mörg dýr með því að eitra fyrir þau á götuslóðum, og kemur það ekki að sök. En ætlazt er til, að um eitrunina verði sett reglugerð, sem kveður á um, hvaða eitur sé notað.

Eins og frv. kom frá Nd., er öðruvísi kveðið á um minkana. Gert er ráð fyrir, að sýslumaður sjái um þetta og fyrirskipi allsherjar útrýmingu minkanna og ríkið kosti hana að öllu leyti. Okkur þótti þetta óviðeigandi. Við viljum breyta þessu og leggjum til, að eins verði farið að í þessu efni og varðandi tófurnar. Sé sá maður kallaður bogmaður, sem annast minkaleitina, en grenjaskyttunafnið skotmaður látið haldast varðandi tófurnar. Eru minkarnir veiddir í boga. Við gerum ráð fyrir, að kostnaðurinn af útrýmingu minka skiptist á milli hreppanna, sýslunnar og ríkissjóðs, eins og hagar til um refi, en skiptist þó dálítið öðruvísi, þannig: „Kostnað við eyðingu minka skal endurgreiða að 2/3, 5/6 frá ríki og 1/6 úr sýslusjóði.“ Við höfum og yfirfært þær reglur, er skapazt hafa um fyrirkomulag eyðingar á tófunum, á minkana og höfðum eigi betri reynslu fyrir okkur. Þó að sagt sé, að útrýma megi bæði minkum og refum með sérstakri veiðiaðferð, þ.e. með hundum, sem þefa dýrin uppi, þá er sú aðferð óreynd enn. En væri hún reynd og reyndist vel, þá mundu hreppsnefndir taka hana upp að sjálfsögðu. En við gerum hér ráð fyrir, að maður, er fer á grenin, hafi byssu.

Þetta er rauði þráðurinn, og sé ég enga ástæðu til að fara að gera grein fyrir einstökum brtt., eins og liðið er á þingtímann. Frv. hefur tekið þessum breyt. frá Nd. varðandi minkana: Þá skyldi kostnaðurinn allur greiddur úr ríkissjóði, en nú af hreppssjóðum, sýslusjóði og ríkissjóði í sameiningu. Hins vegar er refaeyðingarfyrirkomulagið hið sama og verið hefur, nema refaeitruninni er komið þarna inn. En að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fara út í þetta. Brtt. n. liggja hjá hv, dm, og geta þeir kynnt sér þær og séð, í hverju þær eru fólgnar, með því að bera þær saman við frv. Nd., en þaðan kom það að áliti okkar í óhæfum búningi. Okkur fannst fráleitt og ókleift fyrir sýslumenn að standa í þessu, nema þeir fengju aðra sér til aðstoðar. Gerum við ráð fyrir, að það verði hreppsnefndir. — Skal ég svo ekki lengja tímann að ástæðulausu.