18.12.1948
Neðri deild: 45. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (315)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Katrín Thoroddsen:

Herra forseti. Á þskj. 263 leyfi ég mér að bera fram smábrtt. við frv. það, sem hér liggur fyrir. Við 2. umr. þessa frv. flutti ég brtt. í sambandi við d-lið 29. gr., en sá liður mælir svo fyrir, að viðbótargjöld fyrir innflutningsleyfi fyrir rafmagnstækjum til heimilisnota, öðrum en eldavélum og þvottavélum, séu 100% af leyfisfjárhæð, en af leyfum fyrir þvottavélum 50%. — Þessi brtt. náði ekki samþykki hv. d., en þótt svo færi, vil ég ekki láta það óreynt að sjá, hvort hv. þm. eru ekki fáanlegir til að lækka þessa okurálagningu nokkuð, helzt afnema hana alveg, og leyfi ég mér því að flytja svo hljóðandi brtt. við d-lið 29. gr.: „Liðurinn orðist svo: Af innflutningsleyfum fyrir rafmagnstækjum til heimilisnota, öðrum en þvottavélum og eldavélum, 5% af leyfisupphæðinni“.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða langt mál fyrir þessari brtt., en læt nægja að vísa til ræðu minnar við 2. umr. í gær. Ég vil aðeins árétta, að það er bæði mjög óeðlileg og ósanngjörn leið til fjáröflunar að skattleggja með okri innflutningsleyfi fyrir þeim vörum, sem hvorki heimili né einstaklingar geta án verið, og það um leið og rafmagnsnotkun er mjög að færast í vöxt. Og þó að vitað sé, að megintilgangur ríkisstj., þeirrar fyrstu, sem Alþfl. hefur skapað, sé að kreppa svo að alþýðu manna, að hún hafi ekkert, skal ég ekki að óreyndu trúa, að þeir fulltrúar þjóðarinnar, sem hér eiga sæti, séu sama sinnis, og treysti því, að brtt. þessi verði samþ. af hv. deild.