18.12.1948
Neðri deild: 45. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (316)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Pétur Ottesen:

Það var hæstv. fjmrh., sem mig langaði til að segja nokkur orð við, vegna þess að hann lét orð falla um það, að aðalhávaðinn um þetta mál úr herbúðum útvegsmanna væri kominn hér frá útgerðarmönnum við Faxaflóa. Það var aðeins þetta, sem ég vildi ræða við fjmrh. En þetta, að bátaútvegsmenn úti um land væru ekki þessu sammála eða litu öðrum augum á þetta mál, er áreiðanlega sprottið af misskilningi hjá ráðh., en ekki af því, að hann vilji vitandi vits bera fram fullyrðingar í þessa átt. Það veit ég, að vera muni. Það eru að vísu menn búsettir hér við Faxaflóa, sem hafa komið hér fram fyrir hönd útgerðarmanna gagnvart ríkisstj. og Alþ., en bak við þetta standa útgerðarmenn um allt land. Á nýafstöðnum fundi íslenzkra útvegsmanna, þar sem mættir voru fulltrúar alls staðar af landinu, voru gerðar ályktanir, sem þessum mönnum var falið að koma á framfæri, þannig að útvegsmenn um allt land standa að þeim málflutningi, sem hafður hefur verið í frammi af hálfu þeirra hér.

Annars vil ég í sambandi við till. mínar benda á það, að hæstv. fjmrh. hefur látið í ljós mjög svipaðar skoðanir og fram koma í þessum till. mínum. Ég benti á það m.a. í sambandi við fjárlagaræðuna, sem hann flutti hér, að vel gæti komið til greina að greiða til bátaútvegsins eftir þeim leiðum, og er kunnugt, að ráðh. hefur innan ríkisstj. haldið fram svipaðri skoðun, þó að þetta hafi ekki borið þann árangur, að í tillöguformi liggi neitt fyrir frá ríkisstj. í þá átt. Ráðh. á þess nú ekki kost að greiða atkv. um þessa till. mína hér í kvöld, en ég vænti þess, að þessi till. verði samþ., og vil þá eiga fjmrh. að, þegar frv. kemur þannig breytt í hans d., þ.e. Ed., og veit ég, að ég á þá hauk í horni, þar sem hann er, hvað þetta snertir, og útgerðin, að því leyti sem þetta gæti orðið til úrlausnar fyrir hana.