28.04.1949
Neðri deild: 94. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2153 í B-deild Alþingistíðinda. (3179)

Málshöfðunarleyfi gegn þingmanni

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég er þegar búinn að tala minn ræðutíma, enda þarf ég ekki að ræða meira um efnishlið málsins. En það eru tvö atriði í ræðu hv. þm. G-K. nú síðast, sem mig langar til að andmæla. Fyrst það, að ég hafi nýlega starfað í n. og viljað fá stórfé fyrir, en það hafi ekki verið greitt, af því að aðrir nm. hafi ekki viljað taka neitt fyrir nefndarstörfin. Ég lýsi yfir, að þetta eru alger ósannindi hjá hv. þm., og það eru ekki fyrstu ósannindin, sem hann fer með í sambandi þið þetta mál. Hafi hann þessa heimild frá form. þessarar n., sem er hv. þm. Barð., þá undrar mig mjög, að hann skuli segja jafnrangt frá því máli, sem hér um ræðir, og hann virðist hafa gert, ef hv. þm. G-K. hefur þetta eftir honum. Annar hvor segir ósatt, og ég trúi frekar, að það sé hv. þm. G-K., heldur en hv. þm. Barð. Sannleikurinn er sá, að við sátum 5 menn í þessari n. í haust fyrir ríkisstj. til þess að undirbúa dýrtíðarráðstafanir, sem þá var verið að gera. Við unnum þar allmikið verk, og nokkru eftir að verkinu var lokið, kvaddi hv. þm. Barð. okkur saman til þess að ræða um það, hvort við gerðum einhverja reikninga fyrir nefndarstörfin, og gerði ég engar sérstakar till. um laun til n. frekar en aðrir þm. Þetta getur hv. þm. V-Húnv. borið vitni um og mundi vafalaust gera það, ef ég óskaði þess. Þetta eru því bein ósannindi hjá hv. þm. — Þá vil ég fara um hitt atriðið örfáum orðum. Hv. þm. las upp svívirðingagrein um Alþfl. úr blaðinu Þjóðvörn og reyndi að gera mig ábyrgan fyrir þessari árás, sem vissulega mun falla um sjálft sig, þar sem ég gegni trúnaðarstöðu í Alþfl.hv. þm. gjarnan ætla, að menn geri leik að því að ráðast á sjálfa sig, en aðrir menn, sem skynsamari eru, fær hann ekki til að trúa slíku. Hvað því viðvíkur, að ég beri ábyrgð á þessari grein, þá er það sama fjarstæðan og annað, sem hv. þm. hefur sagt, þegar hann hefur verið að reyna að svara ræðum mínum. Öll þessi ummæli eru byggð á skökkum forsendum, þar sem ég er ekki í ritnefnd blaðsins Þjóðvarnar, eins og ég hef oft við hann sagt, þó að hann kjósi enn þá að endurtaka það, m. a. af þessu ómerkilega tilefni. Um þessi tvö atriði vil ég segja það, að þau lýsa framkomu hjá hv. þm., sem ég hef ekki orðið var við áður. Það í framkomu hans og tali, sem ég hef hingað til gert að umtalsefni, er hans alkunna steigurlæti og stráksskapur, sem hefur hér orðið þess valdandi, að hann hefur orðið sér og þinginu til skammar í þessu máli. En með þessari síðustu ræðu sinni hefur hann sýnt á sér nýja hlið, hann hefur sýnt, að hann er líka simpill.