09.11.1948
Efri deild: 10. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (32)

26. mál, happadrættislán ríkissjóðs

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég get verið stuttorður, þar sem bæði hæstv. fjmrh. og hv. þm. Barð. eru búnir að láta í ljós skoðun sína á þessu máli. En ég er dálítið hissa á hæstv. dómsmrh. Honum hefur oft farizt höndulegar með till. en í þetta skipti. Ég sé ekki, að till. hans lækni það á nokkurn hátt, sem hv. 1. þm. N-M. vildi fá ákveðið fram. Það er ekkert sagt með þessu. En ef það er skoðun þeirra, að enn komi ný gjöld af þessum vinningum, þá er það vægast sagt mjög óheppilegt, af því að í flestum umdæmum, þar sem lagt er á útsvar, einkum í sveitum, er erfitt að gera greinarmun á eignarskatti og tekjuskatti. Enda er í útsvarslögunum hreint út sagt, að leggja skuli á eftir efnum og ástæðum, og á þann hátt er svo leitazt við að jafna byrðina, en binda sig ekki mjög fast við skalann sjálfan. Ef það á að verða útkoman hér hjá ríkisstj., að gefin séu út brbl. og seldir happdrættismiðar samkv. þeim, þar sem enginn vafi er á því, hvernig beri að skilja, hvaða gjöld eða skatta eigi að greiða samkv. þeim, en svo, þegar menn eru búnir að kaupa þessi bréf, þá er á Alþ. verið að læða nýjum gjöldum inn, eftir á, halda menn þá, að það verði hægara fyrir ríkisstj. að koma út, núna á sama ári, skuldabréfum, eftir að búið er að tilkynna, að menn eigi að borga meira en stóð í l.? Þetta er algerlega ófært. Ég hef því miður ekki athugað happdrættislög Háskólans eins vel og skyldi, en ég hygg, að það mundi vera nægilegt til lögjafnaðar að fara eftir fyrirmælum, sem þar eru, um það, hvort þetta skuli ná til fleiri ára eða ekki. Ég get ekki fellt mig við þá skýringu hæstv. dómsmrh., að þetta eigi að ná til fleiri ára eða allt til 15 ára. Það vandast mikið málið, þegar jafnskýr og ágætur lögfræðingur kemur með þessar lagaskýringar. Það má vera, þó að maður hefði ekki tekið þetta allt of hátíðlega, sem hv. 1. þm. N-M. sagði, þá sé maður þarna búinn að fá erfiðara hlutverk að leysa, en annars hefði orðið.