16.12.1948
Efri deild: 36. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2163 í B-deild Alþingistíðinda. (3201)

Fjarvistir þingmanna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Eins og kunnugt er, liggur fyrir að afgr. ýmis mál í þessari hv. d. fyrir jólafrí, svo að ég býst við, að tími verði skammur til annarra starfa vegna fundarhalda í d. En vegna þess, hve mjög deildarfundir hafa verið illa sóttir að undanförnu, vildi ég spyrja hæstv. forseta, hvort hann sæi sér ekki fært að áminna suma hv. þm. um að mæta oftar í d. en þeir hafa gert hingað til. Í gær varð að hafa nafnakall um svo að segja hvert einasta mál, því að ekki sátu fundinn nógu margir menn. (Forseti: Ég vildi, að hv. þm. dokaði ögn við, til þess að sem flestir geti hlustað á mál hans.) - — - Það eru tveir hv. þm., sem varla hafa sézt hér í d. síðan þing var sett, þ. e. hv. þm. Str. og hv. 7. landsk. Ég vildi alvarlega beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta, hvort ekki væri viðeigandi að gera sérstakar ráðstafanir þar að lútandi, að menn sæki svo fundi, að halda megi áfram störfum hindrunarlaust. Forseti hefur stundum ávítt okkur, sem sitjum dag eftir dag og fund eftir fund, en mér fyndist hann hafa meiri ástæðu til þess að setja ofan í við hina, sem sjást því nær aldrei, og hafa viðurlög við. Fundurinn ætti að vera það mannmargur, að ekki þurfi að senda okkur sem mætum, út um alla þingsali til þess að leita að hinum, sem mæta ekki og vanrækja þannig störf sín, eins og hefur verið á þinginu undanfarið í haust.