18.12.1948
Neðri deild: 45. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (321)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Skúli Guðmundsson:

„Kátt er um jólin, koma þau senn. Trúi ég, að upp líti Gilsbakkamenn“, segir í gamalli þulu. Nú er tæp vika til jóla, og hér liggur fyrir frv. frá ríkisstj. um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna, sem talið er, að verði að fá afgreiðslu fyrir jól. Það er reyndar ekki nýtt, að hér séu þýðingarmikil mál á ferð rétt fyrir jólin. Í hittiðfyrra, í tíð fyrrv. stj., litu Gilsbakkamenn líka upp rétt fyrir jólin. Þá var hér til meðferðar frv. til l. um ríkisábyrgð vegna bátaútvegsins o.fl., er samþ. var og afgr. sem lög frá Alþ. 22. des. 1946. Var það frv. að því leyti frábrugðið þessu, að þar var ekki gert ráð fyrir tekjuöflun til þess að mæta gjöldunum. Raunar var ákvæði um svokallaðan síldarskatt, sem í reyndinni urðu engar tekjur. Fyrir jól í fyrra var svipað mál á ferðinni, þ.e. frv. til l. um dýrtíðarráðstafanir, sem var afgr. 20. des. 1947. Í því var hækkuð ríkisábyrgð á bátafiski, ákvæði um eignaraukaskatt og söluskatt. Þar voru gerðar tilraunir til þess að afla tekna á móti útgjöldum, en ég vil segja, að það sé sameiginlegt um öll þessi mál, sem afgr. hafa verið fyrir jól þrjú ár í röð, að í þeim felist engin varanleg lækning á atvinnu- og fjármálalífi okkar. Frv. hafa verið um það í raun og veru að halda tórunni í sjúklingnum áfram, en um annað eiginlega ekki. Sjúkdómurinn er til eftir sem áður. Eins og ég gat um áður, er þó nú reynt að afla tekna móti gjöldum ríkisins, sem ekki var gert í tíð fyrrv. stj., og tekjuöflunin í fyrra mun tæplega hafa verið nægileg móti gjöldunum. Og einmitt fyrir það, að þetta hefur verið vanrækt að undanförnu, þá er svo komið, að ríkið hefur safnað stórskuldum, við landsbankann og víðar, nú síðustu ár, og hefur áður verið að þessu vikið. Vitanlega má þetta ekki þannig til ganga. Á meðan farin er sú leið að borga útflutningsuppbætur og lækka vöruverð innanlands með fjárgreiðslum úr ríkissjóði, verður að afla nægilegra tekna á móti þessum gjöldum og einnig öðrum að sjálfsögðu. Hitt leiðir til tortímingar, að láta ríkið safna skuldum, sem nema tugum milljóna á ári hverju, hvort sem það er í bönkum eða annars staðar. Það er óverjandi með öllu. Nú skal ég ekki deila um það, hvort í þessu frv. muni vera gert ráð fyrir nægum tekjum móti gjöldum. Um það er erfitt að segja og ekki hægt að reikna það út fyrir fram. En eitt vil ég geta! um í þessu sambandi, og það er, að hér er m.a. gert ráð fyrir að leggja aðflutningsgjöld á einstakar vörur, sem mikil eftirspurn er eftir, en ekki er hægt að telja með því allra lífsnauðsynlegasta af því, sem inn er flutt, og er það út af fyrir sig eðlilegt, að frekar sé á það lagt en brýnustu nauðsynjar, en má þó ekki verða til þess, að innflutningur á þessum vörum verði látinn sitja í fyrirrúmi fyrir öðrum, sem nauðsynlegar eru fyrir landsfólkið. Á tímum gjaldeyrisskorts má ekki miða vöruinnflutninginn til landsins við það, hvaða vörutegundir gefa mestar tekjur í ríkissjóð vegna þess, að þær eru hæst tollaðar. Þeirri stefnu má ekki fylgja í viðskiptamálum. Ef skortur er á gjaldeyri, er nauðsynlegt að láta sitja fyrir að kaupa og flytja inn í landið þær vörur, sem nauðsynlegastar eru fyrir landsfólkið, og álít ég betra, ef ekki verður hjá því komizt að afla viðbótartekna handa ríkinu, að hækka eitthvað tolla á þeim vörum, þó að illt sé, en flytja inn í staðinn fyrir nauðsynlegar vörur aðrar óþarfari bara fyrir það, að þær eru hærra tollaðar. Mér finnst ástæða til þess að benda á þetta, vegna þess að hér hafa komið fram raddir um það, að taka ætti almennt tillit til þess, þegar ákveðið er, hvaða vörur á helzt að flytja til landsins, hvernig ákvæðið er um tolla á innfluttum varningi.

Það eru margir kvillar í þjóðlífi voru, m.a. á sviði atvinnumála, fjármála og viðskiptamála. En þó er það svo, að þjóðin hefur sem betur fer nóg að bíta og brenna. Útlit er fyrir, að verðmæti útflutnings á þessu ári verði um 400 millj. kr. Að vísu er það svo, að allmikill gjaldeyrir eyðist við að afla þessara tekna, þar sem mikið þarf af erlendum vörum til framleiðslunnar. Auk þess, sem hér er talið, er mikil framleiðsla á vörum til neyzlu innanlands, þannig að þjóðartekjurnar eru miklar. Ég held því, að megi fullyrða, að hér sé nóg handa öllum, ef sanngjarnlega væri skipt, en á því er misbrestur, og þar hefur reynzt erfitt að fá leiðréttingu, því að það eru sterk öfl, sem vinna móti því, að tekjuskiptingin í þjóðfélaginu komist í réttlátt horf, og það eru m.a. sumir menn, sem þó telja sig málsvara hinna efnaminni í þjóðfélaginu, sem oft beita sér móti ráðstöfunum, sem ganga í þá átt. Nærtækt dæmi er um þetta. Í því nál., sem minnihl. fjhn., hv. 2. þm. Reykv., hefur lagt hér fram, er talað um það, að gjöldin eigi að leggja á „breiðu bökin“, en ekki almenning. Það er mikið rétt í þessu, og get ég tekið undir það með hv. þm. Hann hefur hér í dag meðal annars talað um álögur á auðmennina. En í gær, um það leyti sem nál. hans var útbýtt hér með þessum ágætu aths. um breiðu bökin annars vegar og almenning hins vegar, var verið að afgr. hér frv. frá þessari d. um skattfrelsi handa langauðugasta fyrirtæki þessa lands, og afgreiðsla þess máls fór þannig hér í d., að það voru tveir þm. úr flokki þessa þm., úr Sameiningarflokki alþýðu, Sósfl., sem réðu því með atkvæðum sinum, að þetta auðugasta fyrirtæki landsins, Eimskipafélag Íslands, yrði áfram skattfrjálst. Mér reiknast svo til, að ef þetta fyrirtæki væri látið greiða skatta sem aðrir, þá yrði eignarskatturinn einn 800–900 þús. kr. á ári. Nú, auðvitað ætti það svo að borga fleiri hundruð þúsund krónur í tekjuskatt, og þegar eignarskatturinn er nálega milljón á ári, þá er þetta enginn smápeningur, sem gefinn er mesta auðfélagi landsins. Og svo koma þm. þess flokks, sem talar um að leggja á breiðu bökin, og samþykkja skattfrelsi þessa félags. Ja, ég verð að segja, að það er lítið gagn í því fyrir almenning; þótt þeir tali sig hása um það, að gróðamönnunum sé hlíft, þegar þessir sömu menn skjóta með atkvæði sínu auðugasta fyrirtæki landsins undan öllum sköttum til ríkissjóðs. Þannig er þetta gróðafyrirtæki komið undir verndarvæng Sósfl. eða hv. þm. hans. En misskipting teknanna og ýmiss konar ranglæti í okkar þjóðlífi má rekja til þess ófremdarástands, sem nú ríkir í verzlunarmálum okkar. Nokkuð hefur verið minnzt á þau frv., sem hér hafa komið fram til úrbóta á þeim málum, en þau liggja óafgreidd vegna þess, að hæstv. viðskmrh. hefur upplýst, að hann hefði í smíðum frv. um þetta efni, og taldi því fjhn. rétt að fresta afgreiðslu þessara frv. Annars er orðinn óhæfilegur dráttur á lagfæringu þessara mála, þar sem sýnt er, að þau verða ekki afgreidd fyrir þinghlé, og tel ég óhjákvæmilegt, að það verði gert þegar eftir áramótin. Eins og nú er, er almenningur hindraður í að skipta við þá, sem hann vill. Afskipti hins opinbera í þessu sambandi eru óþörf og óþolandi. Hver maður á að ráða því, hvar hann kaupir vöru sína, og það tel ég eitt þýðingarmesta verkefni þessa þings, að afgreiða þessi mál og koma þeim í rétt horf, og ég treysti því, að það verði gert. Því aðeins tel ég verjandi að hækka enn álögurnar á almenning, að viðeigandi lausn fáist á þessu máli.