05.11.1948
Sameinað þing: 14. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2169 í B-deild Alþingistíðinda. (3225)

Minning látinns manns

forseti (JPálm):

Í dag barst hingað sú fregn að bændahöfðinginn Ágúst Helgason í Birtingaholti væri látinn, 86 ára að aldri. Hann átti sæti á Alþingi á einu. þingi, 1926, og vil ég minnast hans með nokkrum orðum.

Ágúst Helgason fæddist í Birtingaholti 17. okt. 1862, sonur Helga Magnússonar bónda þar og konu hans, Guðrúnar Guðmundsdóttur bónda í Birtingaholti Magnússonar. Hann lærði söðlasmíði á æskuárum og síðar bókband. Hann reisti bú á Gelti í Grímsnesi árið 1888 og bjó þar næstu fjögur ár, en árið 1892 tók hann við búi í Birtingaholti og bjó þar alla tíð síðan. Snemma voru honum falin margháttuð trúnaðarstörf fyrir sveit sína og hérað. Hreppstjóri var hann um langt skeið og sýslunefndarmaður, formaður Sláturfélags Suðurlands frá stofnun þess 1907, formaður Búnaðarfélags Hrunamanna og formaður stjórnar Kaupfélags Árnesinga. Hann var skipaður í yfirfasteignamatsnefnd landsins 1919. Hann gerðist snemma áhugasamur um bætta búnaðarháttu og framfarir í verzlunarmálum bænda og var þar brautryðjandi á mörgum sviðum. Hann átti þátt í stofnun fyrsta rjómabús landsins, var einn af forgöngumönnum um stofnun Sláturfélags Suðurlands, Smjörbúasambands og Búnaðarsambands Suðurlands, Kaupfélags Árnesinga og Fiskiræktar- og veiðifélags Árnesinga. Hann var og fyrirmyndarbóndi og hlaut heiðurslaun úr styrktarsjóði Kristjáns konungs hins níunda árið 1906.

Ágúst Helgason var maður stilltur og hóglátur, en vann ötullega og farsællega að þeim mörgu málum, sem hann gekkst fyrir eða var falið að standa fyrir, og var laginn að koma fram málum sínum án harðrar málafylgju, enda naut hann jafnan mikils trausts stéttarbræðra sinna og alls almennings.

Ágústs Helgasonar mun lengi verða minnzt sem eins helzta forustumanns sunnlenzkra bænda á sviði félags- og samvinnumála.

Ég vil biðja hv. þm. að votta minningu þessa merkismanns virðingu sína með því að rísa úr sætum. — [ Þingmenn risu úr sætum.]