17.05.1949
Efri deild: 113. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2172 í B-deild Alþingistíðinda. (3235)

Starfslok deilda

forseti (BSt):

Þetta verður að öllum líkindum síðasti fundur þessarar hv. deildar á þessu þingi, og vil ég því biðja um umboð hv. þdm. til að undirrita tvær síðustu fundargerðir. Ég skoða það samþ., ef enginn hreyfir andmælum gegn því. — Ég vil einnig nota þetta tækifæri til að þakka öllum dm. á þessu langa þingi ágæta samvinnu við mig sem forseta. Það gleður mig sérstaklega, að þótt deilur hafi orðið allharðar og sum orð verið látin falla, sem orka tvímælis, hvort þingleg séu, þá hefur slíkt ekki farið fram á fundum þessarar hv. d., heldur hafa hv. þm. sýnt hér mjög mikla prúðmennsku. — Ég óska svo öllum þeim, sem heima eiga utan Rvíkur, góðrar heimferðar og heimkomu og öllum hv. þdm. góðrar og farsællar framtíðar og sérstaklega nú gleðilegs og góðs sumars.