02.11.1948
Neðri deild: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (3248)

18. mál, byggingarmálefni Reykjavíkur

Flm. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Árið 1944 voru sett l. um byggingarmálefni Reykjavíkur. Í þeim var svo ákveðið, að ef húsbygging væri hafin í Reykjavík, án þess að byggingarleyfi væri fyrir hendi, þá skyldi byggingarfulltrúi, er hann fengi vitneskju um það, kæra það mál til sakadómara, sakadómari skyldi síðan rannsaka málið og að lokinni rannsókn kveða upp úrskurð um það, hvort byggingin skyldi stöðvuð og niður rifið það, sem búið væri að byggja. Eftir að sakadómari væri búinn að kveða upp sinn úrskurð, skyldi málið ganga til lögreglustjóra og hann framkvæma úrskurð sakadómara. Reynslan hefur sýnt, að þetta fyrirkomulag er óþarflega margbrotið og að hér eru óþarflega margir liðir og óþarflega flókin málsmeðferð. Frv. þetta felur í sér þá breyt., að einum þessum lið sé sleppt, þ. e. sakadómara, í meðferð þessara mála, og kært verði út af ólöglegum byggingum beint til lögreglustjóra og hann kveði upp úrskurð í þessum málum. Nú hefur lögreglustjóri ekki dómaravald í málum almennt. En hér er hins vegar um að ræða mjög einföld mál. Og þegar þess er gætt, að nú er gerð sú krafa til lögreglustjórans í Reykjavík, sem ekki var um skeið, að hann sé lögfræðingur og fullnægi almennum dómaraskilyrðum, þá virðist ekkert því til fyrirstöðu að fá honum þetta úrskurðarvald. En aðaltilgangur þessa frv. er að fá einfaldari og skjótari málsmeðferð í þessum málum.

Ég vil leggja til, að þessu máli verði vísað til allshn. að lokinni þessari umr.