18.12.1948
Neðri deild: 45. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Hallgrímur Benediktsson:

Herra forseti. Það virðist hafa fallið hv. þm. V-Húnv. fyrir brjóst, að málefni Eimskipafélagsins voru afgreidd hér á þann hátt, sem raun varð á. Mér kom þetta ekki að óvörum, en mér finnst honum ekki farast heiðarlega, þegar hann talar um breiðu bökin. Ég er því fylgjandi, að þeir, sem það geta, borgi lögmæta og sanngjarna skatta, en ég er ekki með skattalögunum eins og þau eru í dag, og eigi að tala um breiðu bökin í sambandi við Eimskipafélagið, þá er ástæða til að draga glögga markalínu. Eimskipafélagið hefur ætíð haft nána samvinnu við hverja ríkisstj. og þau fyrirtæki, sem hv. þm. V-Húnv. hefur unnið fyrir, Samband ísl. samvinnufélaga og Kaupfélag Vestur-Húnvetninga. Ég held, að þessi félög hafi ætíð mætt þar fyllsta skilningi, og ummæli hv. þm. V-Húnv. koma því úr hörðustu átt. Það er einfalt mál að rekja þau hlunnindi, sem komið hafa á móti skattafríðindunum, og samvinnufélögin hafa ekki hvað sízt notið góðs af þeim. Eimskipafélagið hefur ávallt haft þjóðarhag fyrir augum og haft nána samvinnu við ríkisstj. í tveimur styrjöldum. Ég ætla ekki að halda langa ræðu, en það kom illa við mig að heyra slík ummæli höfð um Eimskipafélagið af gömlum viðskiptavini. Hv. 2. þm. Reykv. talaði um, að sumir samverkamenn í stj. skriðu undir fald heildsalanna. Það skyldi þó ekki vera þannig, að hv. þm. V-Húnv. sé að „kókettera“ við flokk hv. 2. þm. Reykv.; svo að ég noti það orð. Verzlunin verður að vera grundvölluð þannig, að hún geti framkvæmt sitt starf eins og í öðrum menningarlöndum. Í öllum löndum er lögð á það höfuðáherzla að styðja viðskiptastéttina allt hvað verða má, og það er hægt að draga fram tölur, sem sýna að bæði kaupfélög og kaupmenn hafa leyst starf sitt betur af hendi, en ætla mæthi með tilliti til þess, hvernig ástandið hefur verið. Það er því ástæða til að ætla, að það liggi eitthvað annað og meira á bak við þessar árásir á verzlunarstéttina. Þegar ráðizt er á vissar stéttir með rógburði og Gróusögum, er eitthvað á bak við annað en áhugi fyrir hagkvæmum innkaupum. Ég ætla ekki að fara að draga viðskiptamálin inn í skitna pólitík. Það er til lítils sóma, er þin rjúka upp eins og hanar og nota óþingleg orð, eins og hér hefur verið gert, en ég get ekki annað en harmað það, að fyrirtæki, sem vissulega leggur sín kort á borðið, skuli verða fyrir slíkum árásum. Það, sem kemur á móti þeim skattafríðindum, sem Eimskipafélagið nýtur, er hægt að telja í millj. kr. Þessi mál ætti fremur að ræða í sambandi við viðskiptamál en það mál, sem hér er á dagskrá, en ég get ekki setið undir svona hræsni frá mönnum, er notið hafa skilnings hjá Eimskipafélaginu, og ummæli þeirra, sem mestu ráða í Sambandi ísl. samvinnufélaga, eru ekki á þann veg. — Hv. 6. þm: Reykv. er orðinn einkennilega mikill „Sambandsmaður“. Ég efa það ekki, að margt af því, sem hann skaut hér fram, sé sannfæring hans, en það er nú svo um þennan mann, að hann er oft fljótur að skipta um sannfæringu og hlaupa frá einum flokki til annars, og hann er líka þekktur að því að kasta fram stóryrðum (SigfS: Ég vil kalla hlutina réttum nöfnum.) Er þá ekki bezt að tilgreina ákveðna menn? (SigfS: Vill ekki hv. þm. nefna dæmi um stóryrði mín?) Það er út í bláinn, þegar hv. þm. stimplar fjölda manna sem gjaldeyrisþjófa, og slíkt gengur of langt. Það er ekki sæmandi að leika sér þannig að viðskiptamálum þjóðarinnar. Ég er tilbúinn að ræða þau mál á öðrum vettvangi, en vil ekki nú tefja það mál, sem hér er á dagskrá. Sem lítið dæmi varðandi Eimskipafélagið vil ég þó nefna það, að félagið flytur 50% af allri matvöru ókeypis út um land og um 60% af tilbúnum áburði.

Ég vildi loks segja það, að það er mikil nauðsyn á því að endurskoða allt hið ósamstæða kerfi skattalöggjafarinnar. Ég vil ekki vera með getsakir til samvinnufélaganna, en það er vitan1egt, að síðan 1921, er l. um samvinnufélög voru sett, eru mestu frömuðir nágrannalandanna búnir að breyta skattalöggjöfinni. Í dag veit ég, að mesta ósamræmis gætir í því, hvernig lagt er á einstaklinga og hlutafélög, þótt ég sé ekki svo kunnugur því, hvernig þessu er varið með samvinnufélögin. Ég mun svo ekki ræða þetta frekar nú.