15.11.1948
Neðri deild: 17. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í C-deild Alþingistíðinda. (3254)

18. mál, byggingarmálefni Reykjavíkur

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, er flutt af mér og felur í sér þá breytingu, að sektir út af ólöglegum byggingum í Reykjavík verði færðar til úrskurðar lögreglustjóra í stað sakadómara eins og verið hefur. Hér er aðeins um fyrirkomulagsbreytingu að ræða, sem á að verða til þess að hraða þessum málum verulega.

Mál þetta fór til hv. allshn., sem lagði einróma til, að frv. verði samþ. óbreytt. Við 3. umr. þessa máls ber hv. þm. V-Húnv. fram brtt. við frv. á þskj. 94, sem hann hefur hér gert grein fyrir, og fjallar hún um efni, sem í raun og veru er óskylt því, sem hér er um að ræða í frv., og á alls ekki þar heima. Efni þessarar brtt. er aðallega á þann veg, að húsameistarar Reykjavíkurbæjar séu skyldir til þess að láta öllum, sem þess óska, í té fullnægjandi uppdrætti að íbúðum er reisa á innan kaupstaðarins, ásamt séruppdráttum af járnbentri steinsteypu, fyrirkomulagi vatns- og skolpveitna, hita- og raflagna, og öðrum hlutum bygginganna, eftir því sem krafizt er af byggingarfulltrúa. Gjald fyrir uppdrættina má ákveða í byggingarsamþykkt, en hámark þess samtals sé 1 kr. fyrir hvern teningsmetra í húsunum. Hér er sem sagt hvorki meira né minna en farið fram á, að þessir starfsmenn Reykjavíkurbæjar skuli teikna hús fyrir alla menn, sem hugsa sér í framtíðinni að byggja hús í Reykjavík. En þetta er ekki bundið við Reykvíkinga, heldur fyrir menn hvar sem er á landinu, en þó samt takmarkað við það, að húsin eigi að byggja í Reykjavík. Ef þessu ætti að framfylgja, þýddi það auðvitað stórkostlega starfsmannafjölgun á skrifstofum húsameistara Reykjavíkurbæjar. Húsameistari þyrfti að fá fjölda húsameistara í sína þjónustu til þess að sinna þessu verkefni: Það hefur reynzt ákaflega örðugt að fá nægilega marga starfsmenn til þess að inna af hendi þau störf, sem Reykjavíkurbær hefur með höndum, og til vandræða horfir vegna þess, að dregizt hefur að gera nauðsynlega uppdrætti á vegum Reykjavíkurbæjar vegna starfsmannaskorts. Ég hygg því, að þetta sé lítt framkvæmanlegt, en það virðist hv. flm. brtt. ekki hafa skilið. En ef tækist að fá allan þann starfsmannahóp í þjónustu Reykjavíkurbæjar, hvernig mundi þetta þá koma út fjárhagslega. Það er ákveðið hámarksverð í brtt. fyrir þessar teikningar eða ein króna á hvern teningsm. Og ef það er borið saman við þann taxta, sem húsameistarar hér hafa, þá kemur í ljós, að á t. d. venjulegu tveggja íbúða húsi, sem er af þeirri stærð, sem oft koma til kasta byggingan., þá er kostnaðurinn við alla fullkomna uppdrætti svona fimm til sex eða jafnvel áttfalt hærri, en þetta hámark, sem flm. brtt. ákveður hér. Tilgangur hv. flm. brtt. virðist með þessu vera sá, að menn geti fengið uppdrætti miklu ódýrara en nú er, en í raun og veru mundi það koma þannig út, að Reykjavíkurbær yrði að borga mismuninn.

Ég verð að segja, að í fyrsta lagi á þetta atriði alls ekki heima í þeim l., sem hér er verið að leggja til, að samþ. verði. Og í öðru lagi er það furðu djarft, að með einni brtt. skuli eiga að fyrirskipa einu bæjarfélagi stórkostlega starfsmannafjölgun og útgjaldaaukningu, sem getur numið á ári mörgum hundruðum þús. kr. Það er bersýnilegt af öllu, að mál þetta hefur ekki verið hugsað mikið, en ef það er eitthvað hugsað, þá er það borið fram í því skyni að blekkja menn, sem hér eiga hlut að máli, og flagga því framan í fólkið, að það geti fengið ódýrar teikningar. Þá get ég ekki skilið í sambandi við þetta, hvers sveitafélögin og aðrir kaupstaðir eigi að gjalda, ef þau eiga ekki að njóta líka þeirra hlunninda, sem hv. þm. vill veita í Reykjavík. Hitt er svo allt annað mál, hvort gjaldskrá húsameistara hér á landi er of há. Ef álitið er, að húsameistarar taki of mikið fyrir sína vinnu, þá má hreyfa því annaðhvort við verðlagsyfirvöldin eða hér á Alþ., en hitt er fjarri lagi að ætla að demba því inn í þetta frv. og ætla að láta það gilda framvegis um byggingar í Reykjavík, en láta það ekki gilda annars staðar á landinu.

Ég hygg, að ekki þurfi um þetta að ræða frekar til þess að sýna, að þetta hefur ekki rétt á sér, a. m. k. ekki í sambandi við þetta frv., sem hér er til umr., því að það er svo fjarri lagi að ætla á þennan hátt að leggja stórkostleg útgjöld og mikla starfsmannafjölgun á eitt bæjarfélag í landinu.