15.11.1948
Neðri deild: 17. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í C-deild Alþingistíðinda. (3255)

18. mál, byggingarmálefni Reykjavíkur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég get tekið undir hvert orð hv. þm. Snæf. varðandi brtt. hv. þm. V-Húnv., að efni brtt. á alls ekki við þetta mál, sem hér er til umr.

En varðandi málið sjálft, þá má það kannske undarlegt þykja, að ég nú við 3. umr. þess geri athugasemd við það og í þessari d. og sérstaklega þar sem það er flutt af borgarstjóranum í Reykjavík og eins og tekið er fram í grg. fyrir frv. í samráði við lögreglustjóra, sakadómara og byggingarfulltrúa Reykjavíkur. En engu að síður get ég ekki varizt þeirri hugsun, að sú breyting, sem hér er lögð til, sé sízt til bóta. Mér skilst, að ef þetta verður samþ., þá eigi að leggja undir lögreglustjóra starf, sem er hans venjulega starfi mjög óskylt, sem sagt, að gera hann að dómara, að vísu í nokkuð takmörkuðum málaflokki. En nú er verið að leggja fyrir þingið enn stærri lagabálk, um meðferð opinberra mála, til þess að greina sundur frekar en verið hefur dómaraembættið og framkvæmdaembættið og láta það, eftir því sem við verður komið, í hendur ólíkra manna. Mér finnst þetta vera á móti þeirri heilbrigðu stefnu, sem ég vil halda í, þótt í litlu sé. Enda gera l. frá 1944 um byggingarmálefni Reykjavíkur það sama og ég vil halda fram, að sé réttara. Þar segir í 6. gr., 2. málsgr.: „Sakadómari skal þá þegar kveða upp úrskurð um, hvort byggingin skuli bönnuð og niður rifin eða numið á brott það, sem þegar hefur verið gert. Úrskurði þessum má skjóta til æðri dóms eftir reglunum um kæru, en málskot frestar ekki framkvæmd úrskurðarins, sem fer þá fram á ábyrgð bæjarsjóðs“ o. s. frv. Dómari í opinberum málum í Reykjavík er sakadómari. Lögreglustjórinn hefur ekki dómsvaldið. Og ég tel það beina afturför að fara að rugla þessu á ný og láta dómsvaldið, þótt í litlu sé, í hendur lögreglustjóra. Ég held að það sé algerlega misskilningur, að það þurfi á nokkurn hátt að seinka framkvæmdum þessara mála, þó að sakadómari eigi að kveða upp þann úrskurð vegna þess að jafnskjótt og hann er búinn að kveða upp sinn úrskurð, á að senda úrskurðinn til lögreglustjóra og hann þegar að framkvæma hann. Það kann að vera, að á því hafi verið nokkur seinagangur. En aðallega hygg ég, að það hafi dregizt af því, þó að menn hins vegar kvarti undan því, að allur kostnaður við þessi mál fari vaxandi, að starfandi menn við þetta eru nú færri en svo, að þeir komist yfir að gegna þeim margháttuðu störfum, sem undir þá heyra. En úr þessu verður lítið bætt, þótt þessi málaflokkur verði lagður undir lögreglustjóra, sem er óskyldur hans starfi að öllu leyti, því að það er allt annað að skera úr um dómsathafnir, sem hér er um að ræða, en eiga síðar að sjá um framkvæmd þeirra.

Það kann að vera, að ég líti öðrum augum á þetta af því, að ég hef haft á hendi undirbúning frv. um það að koma þessum málum í nýtízkuhorf frekar en verið hefur til þessa, og tel ég þetta frv. brjóta í bága við það.

Ég vil skjóta því til hv. flm. og þeirra, sem athuga málið, hvort þeir vilji ekki athuga það betur og hvort þeir haldi, að í raun og veru mundi slíkt hafa nokkurn flýti í för með sér við afgreiðslu málsins, eða hvort það er ekki aðeins fyrirsláttur þeirra manna, sem með þetta hafa haft að gera að undanförnu. Og jafnvel þó að einhver flýtir yrði á afgreiðslu þessara mála vegna ákvæða þessa frv., þá tel ég það ekki hægt og alls ekki í samræmi við þær meginreglur, sem eiga að gilda í þessum málum, að lögreglustjórinn fari ekki um leið með dómsvaldið.