15.11.1948
Neðri deild: 17. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í C-deild Alþingistíðinda. (3257)

18. mál, byggingarmálefni Reykjavíkur

Gunnar Thoroddsen:

Hv. þm. V-Húnv. nefndi hér eitt dæmi um 500 teningsmetra íbúð, og eftir till. hans ætti þá að greiða 500 kr. fyrir teikningu þar af, sem hv. fhn. vill meina, að húsameistari bæjarins ætti að geta klárað, þar sem hann hafi 1000 kr. grunnlaun. Það er bersýnilegt af þessu dæmi, hversu fjarri fer því, að hv. þm. hafi hugsað þetta mál. Það er kunnugt, að til þess að gera fullkomlega þá teikningu, sem hann talaði um, þarf fleiri menn, en húsameistara. Í þessa íbúð þarf einnig að leggja t. d. hitalögn, rafmagnslögn og skolpræsi, sem hvert í sínu lagi verður að framkvæma af sérstökum fagmönnum öðrum, en húsameisturum. Þessir útreikningar fá því ekki staðizt og sýna aðeins, hvað till. er vanhugsuð.

Að öðru leyti þarf ég ekki við að bæta. Með þessari till. er lögð sú skylda á Reykjavíkurbæ að fjölga stórkostlega starfsmönnum sínum og auka þar með útgjöldin. Um hitt atriðið getum við rætt, hvort setja ætti hámarksgjaldskrá fyrir húsameistara.

Hæstv. dómsmrh. taldi, að þetta frv. gengi nokkuð í aðra átt en stefna frv. þess um meðferð opinberra mála, sem hann hefur lagt fyrir þingið, en þar er reynt að greina sem allra mest á milli framkvæmdavalds og dómsvalds. Það er rétt, að bezt væri að geta greint milli þess í flestum tilfellum, þannig að vissir menn hafi eingöngu dómsvald með höndum og aðrir framkvæmdavald. En reynslan hefur sýnt, að í okkar þjóðfélagi er þetta ekki hægt. Það má að vísu stefna nokkuð að því, en það hefur ekki reynzt hægt að framkvæma það þannig, að nokkrir dómarar væru algerlega lausir við framkvæmdastarfið. T. d. mætti losa sakadómarann í Rvík við nokkuð af framkvæmdastörfum, en samt sem áður hygg ég, að hann eigi að minnsta kosti að hafa viss framkvæmdaatriði með hönum. Það er vandi að greina þarna á milli, og þess vegna er ekki hægt að segja, að þetta frv. sé brot á vissri gegnfærðri meginreglu. Ég viðurkenni með dómsmrh., að æskilegast væri að aðskilja sem mest dómsvald og framkvæmdavald. En við verðum hins vegar að gera okkur grein fyrir, hvernig þetta kemur út í reyndinni. Og þar sem um mjög einföld atriði er að ræða, virðist óþarfi að láta þetta ganga gegnum jafnmarga liði og hér er stefnt að.