24.02.1949
Efri deild: 65. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í C-deild Alþingistíðinda. (3266)

18. mál, byggingarmálefni Reykjavíkur

Frsm. (Lárus Jóhannesson) :

Herra forseti. Mál þetta hefur verið flutt í hv. Nd. af borgarstjóra Reykjavíkur, sem er hv. þm. Snæf., eftir beiðni bæjarstjórnarinnar, og er efni þess það, að gerðar séu undantekningar frá venjulegum reglum um meðferð opinberra mála gagnvart einum málaflokki, sem sé út af brotum á byggingarsamþykkt Reykjavíkur. Nefnd í hv. Nd., sem þetta mál fór til, hefur einróma lagt til, að frv. þetta verði samþ. óbreytt, og var það gert í þeirri hv. d. og kom það þannig til þessarar hv. d. Við 1. umr. málsins hér urðu nokkrar umr. um það, og hélt hæstv. dómsmrh. þá mjög gagnorða ræðu, þar sem hann benti á, að þótt í litlu sé, þá væri hér verið að fara fram á undantekningu frá reglum um aðskilnað framkvæmdarvalds og dómsvalds, sem barizt hefði verið fyrir á undanförnum öldum og áratugum að koma í gildi, að aðskilja þessa tvenns konar gerninga stjórnarvaldsins sem mest, og þá auðvitað til þess að tryggja rétt einstaklinganna gagnvart ríkisvaldinu.

Á fundi allshn. Ed., þar sem mál þetta var til meðferðar, var einn hv. nm. ekki viðstaddur. En hinir nm. voru sammála um það um meðferð þessara mála, að sá hraðaauki, sem yrði af breyt., sem af ákvæðum frv. leiddi, ef lögfest væru, væri ekki þess virði, að gerð væri undantekning frá þessari reglu, sem hefur verið gildandi hjá okkur fram að þessu. Að vísu er það þannig, eins og tekið er fram í grg. frv., að nú er svo ákveðið, að lögreglustjóri í Reykjavík skuli vera lögfræðingur. En það er allt að einu, að allshn.-mönnunum þótti ekki taka því að gera þessa undantekningu með þessi mál. Það kann að vísu að vera og er sennilegt, að það mætti gera hraða þessara mála eitthvað meiri með því ákvæði, sem frv. felur í sér. En hraðinn er ekki aðalatriði í meðferð mála, jafnvel þótt bæir og ríki eigi í hlut, heldur að tryggja þeim, sem málum er beint gegn, fyllsta réttlæti í meðferð þeirra. Það er líka bent á það í nál., að það ættu ekki að þurfa að vera vandræði með að koma þessum málum í framkvæmd frekar en öðrum málum, sem farið er með eftir venjulegum reglum, ef nauðsyn krefði.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. En fyrir hönd þeirra fjögurra nm., sem undir nál. hafa skrifað, leyfi ég mér að leggja til, að deildin felli frv.