18.12.1948
Neðri deild: 45. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í B-deild Alþingistíðinda. (327)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Rétt er það, sem hæstv. fjmrh. sagði, að ég tók þátt í því að athuga tekjuöflunarmöguleika fyrir ríkissjóð nú fyrir nokkrum dögum. Hæstv. fjmrh. sagði, að hann hefði ekki orðið var við neitt ágreiningsatkvæði frá mér. Þess var ekki að vænta, því að eins og þegar hefur komið fram í því, sem hæstv. menntmrh. las upp, þá fór engin atkvgr. fram í þessari n., sem starfaði að slíkri athugun, heldur var aðeins af þeim mönnum, sem þar unnu, bent á ýmsa möguleika. Við reyndum að gera okkur það ljóst, hvað gera mætti ráð fyrir, að tolltekjur ríkisins yrðu miklar næsta ár, miðað við þann innflutning, sem fjárhagsráð þá var að gera áætlun um. Ég skal taka það fram, að þá hafði fjárhagsráð alls ekki gengið frá innflutningsáætluninni fyrir næsta ár. Hér var því aðeins um að ræða drög að áætlun um innflutning, og á þeim grundvelli voru þessir útreikningar. Vel kann þetta að breytast enn, og þá að sjálfsögðu einnig tollarnir, sem inn koma. Ég hef því ekki gert neina áætlun, og það er vitanlega hæstv. fjmrh. bezt ljóst, um innflutning næsta árs. Ég var aldrei til þess kvaddur. Það er fjárhagsráð, sem hefur það með höndum að ákveða um innflutninginn, og það er því mér alveg óviðkomandi, sem hæstv. fjmrh. var að tala um samkomulag um innflutning næsta árs.

Hv. 2. þm. Reykv. var að tala um það í þessu sambandi, hvort ég ætti manna mestan þátt í þeim till. til tekjuöflunar, sem fram kæmu hér í frv. stj. Eigi er það svo. Till. um söluskattinn voru í raun og veru bornar fram af ríkisstj., þegar hún lagði fram fjárlagafrv. Í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir tvöföldun söluskattsins, og í samræmi við það hefur svo stj. sett ákvæðið um söluskattinn í þetta frv., sem hér liggur fyrir. En í frv. eru að vísu ákvæði um tekjuöflun eftir fleiri leiðum, en með söluskattinum, og þá einkum í 29. og 30. gr. Ég hefði gjarna viljað spyrja hv. 2. þm. Reykv. um það, ef hann hefði verið hér, hvort honum þætti það goðgá, að ríkisstj. tæki t.d. nokkurn skatt af þeirri verzlun, sem á sér stað, þegar bifreiðar eru seldar manna á milli fyrir margfalt verð. Einn liðurinn er um töluverðan skatt í dýrtíðarsjóð af slíkri verzlun. Einnig mætti spyrja um, hvort hann teldi réttara að hækka hina almennu aðflutningstolla heldur en t.d. að leggja nokkur viðbótargjöld á kvikmyndir og gjaldeyrisleyfi til ferðalaga út úr landinu, svo að nokkuð sé nefnt af því, sem hér er um að ræða. Mér skilst, að hv. þm. hafi kannske ekki á móti því að leggja gjöld á ríkasta fyrirtæki landsins, eins og vikið var að hér áðan. Eins og áður er tekið fram, hef ég því engar sérstakar till. gert um tekjuöflun og sé því ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum. Hitt er svo annað mál, að einmitt fyrir það, að það var vanrækt í tíð fyrrverandi ríkisstj. að afla tekna í ríkissjóð á móti útgjöldum, þá þarf nú að leggja meiri álögur á þjóðina. Skuldirnar hafa hlaðizt upp í stórum stíl vegna þessarar vanrækslu fyrri tíma. Vitanlega er ekki hægt að segja um það með nokkurri vissu nú, hvað tolltekjur ríkisins muni verða miklar næstu ár. Það er allt í óvissu nú. Það er hægt að gera um þetta áætlun, eins og gert hefur verið. Fjárhagsráð hefur gert áætlun um innflutninginn, en þó að það geri ráð fyrir, að fluttar verði inn vörur fyrir allt að 4 hundruð millj. kr. á árinu, þá getur það raskazt. Það fer vitanlega eftir gjaldeyristekjunum. Ef það kemur á daginn, þegar nokkuð líður á árið, að gjaldeyristekjurnar bregðast, þá verður að draga úr innflutningnum. Þá vil ég leggja áherzlu á það, eins og ég hef alltaf gert í mínum ræðum, að þegar verulega þarf að draga úr innflutningi nauðsynjavöru til landsins af gjaldeyriserfiðleikum, þá eigi þær nauðsynjavörur, sem mest þörf er fyrir, að sitja fyrir, alveg án tillits til þess, hvaða ákvæði eru um tolla hinna einstöku vörutegunda. Við getum ekki — að mínu áliti — leyft okkur að flytja inn ónauðsynlegan varning í stórum stíl, bara til þess að ná tolltekjum í ríkissjóð, ef við þurfum í staðinn að neita okkur um mjög nauðsynlegar vörur frá öðrum löndum. Þá getur vitanlega komið til þess, að óhjákvæmilegt verði að endurskoða tollatill. og tekjuöflunarlöggjöf ríkissjóðsyfirleitt til þess að ná tekjum með öðru móti. Ég get upplýst það, vegna þeirrar fyrirspurnar hv. 2. þm. Reykv., hvort ég hafi gert till. um innflutning á bílum fyrir 8 millj. kr., að ég hef, eins og ég áður hef tekið fram, enga till. um það gert, hvorki um innflutning á bílum né öðru. En hér hafa verið á ferðinni till. um bílainnflutning. Það hefur verið flutt hér till. um innflutning á 600 jeppum á næsta ári. Eftir því sem hv. þm. sósíalista upplýsti áðan, þá er sú hv. n., sem um þetta fjallar og hann er í, búin að afgreiða till. og gerir ráð fyrir, að inn verði fluttir 750 jeppar. Ég lít svo á, að þetta sé eðlilegt. Það mun vera þörf fyrir þessa bíla, en ég hef ekki borið fram neina till. um bílainnflutning. Þessi n. hefur gert það og þar með einn af hans flokksmönnum. Nú er í stjfrv. gert ráð fyrir 50% leyfisgjaldi af bílum. Ég var á móti því að leggja þetta á jeppana, og hefur nú verið dregið úr þessu gjaldi í till. fjhn., en til þess að afla tekna í staðinn fyrir þessar tekjur, þá er gert ráð fyrir að leggja gjöld á varahluti til bíla og eitthvað fleira.

Hv. 3. þm. Reykv. talaði um það, út af því, sem ég sagði, að því er mér virtist, að ég og þau fyrirtæki, sem ég hefði stjórnað, hefðum oft notið góðrar fyrirgreiðslu hjá Eimskipafélagi Íslands, og þess vegna ætti Eimskipafélagið það ekki skilið, að ég væri á móti því, að það hefði skattfrelsi áfram. Hvað því líður, þó að ég hafi haft góð viðskipti við Eimskipafélagið, þá er ég ekki bundinn við að greiða atkv. með því, að það sé skattfrjálst frekar en önnur fyrirtæki, sem ég hef skipt við.

Hv. 8. þm. Reykv, talaði nokkuð um þetta mál líka. Mér skildist helzt á honum, að það væri hagsmunamál verkamanna, að auðugasta fyrirtæki í landinu væri skattfrjálst til ríkisins. Hann gaf þær upplýsingar, að það væri ekki flokksmál í Sósfl., hvort þetta auðuga fyrirtæki væri skattfrjálst eða ekki. Þeim væri nokkuð sama um það — að hans dómi. Það er ekkert nýtt fyrir þm. að heyra þetta. Ég býst hins vegar við, að margir utan þessara veggja, sem hafa fylgt þessum flokki undanfarið, hafi gert það í þeirri trú, að það væri flokksmál hjá Sósíalistaflokknum, Sameiningarflokki alþýðu að leggja skatta á auðugustu fyrirtæki landsins og hlífa heldur almenningi. Þetta er mesti misskilningur, eins og nú hefur komið fram, og þeir þurfa þess vegna að endurskoða afstöðu sína, sem hafa fylgt flokknum í þessari trú. Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að það hefði verið stór hætta á því, ef skattfrelsið hefði verið afnumið, að stj. hefði skellt stórkostlegri hækkun á farmgjöldin þegar í stað. Þetta er svo mikil fjarstæða, að ég er hissa á því, að hv. 2. þm. Reykv., jafngreindur maður, skuli koma með slíkt hér. Eins og ég sýndi fram á í umr. um þetta, er vitanlega enn meiri hvöt fyrir Eimskipafélagið að fá farmgjöldin sem hæst, þegar það sleppur við skatta til ríkisins af gróðanum. Við skulum segja, að farmgjöldin væru hækkuð eitthvað — það er ekki langt síðan þau voru hækkuð, og var ágreiningur um, hvort þess væri þörf. Væri þá ekki skárra að taka eitthvað af þessari farmgjaldahækkun, en að láta félagið stinga því öllu í eigin vasa. — Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að ég ætti að greiða fyrir almenningi með því að beita mér fyrir verzlunarfrelsi. Ég held, að hann þurfi ekki að brýna mig í þessu efni. Ég veit ekki betur en að ég hafi verið viðriðinn og stutt till., sem fram hafa komið um það, bæði á fyrri þingum og nú á þessu þingi, og er nóg að vísa til þess. Hv. þm. hafði ákaflega hátt, þegar hann flutti síðu5tu ræðu sina. Ég býst við, að það stafi af því, að það, sem ég sagði um tvöfeldnina í hans flokki viðvíkjandi tekjuöflun handa ríkissjóði, hafi komið óþægilega við hann, þar sem sumir hv. þm. flokksins tala hátt um að leggja skattana á breiðu bökin, en aðrir í sama flokki hindra með sínum atkv., að lagður sé skattur til ríkisins á langauðugasta fyrirtækið, sem til er í landinu. Þetta hefur hv. 2. þm. Reykv. þótt óþægilegt, en hávaðinn gagnar ekki einn út af fyrir sig, ef röksemdirnar vantar.