15.11.1948
Neðri deild: 17. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í C-deild Alþingistíðinda. (3270)

65. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem ég flyt ásamt hv. 2. þm. S-M. og hv. 2. þm. N-M., er nálega samhljóða frv., sem undanfarið hafa legið fyrir hv. Alþ. Á Alþingi í fyrra var frv. um landshöfn í Höfn í Hornafirði samþ. í hv. Ed. og kom hingað til Nd. og fór í gegnum 1. umr. og var vísað til 2. umr. og sjútvn. 1. marz. Alþingi lauk hins vegar 24. marz, svo að sjútvn. hafði málið til athugunar fullar þrjár vikur. Eigi að síður fór það svo, að n. afgreiddi ekki málið, og komst það því ekki lengra á því þingi. Þar sem þetta mál er hv. þm. kunnugt af fyrri umr. um það, þá mun ég ekki halda hér langa framsöguræðu, en get þó ekki látið hjá líða að minna á það, að sjávarútvegurinn er einn höfuðatvinnuvegur þessarar þjóðar og hefur mikilsverðu hlutverki að gegna. En stór grein sjávarútvegsins er útgerð vélbátaflota, og hefur undanfarið verið lögð mikil áherzla á aukningu bátaflotans með því að fá bæði fleiri og stærri báta og gera hann þannig afkastameiri. Afleiðingin af þessu verður og sú, að nauðsynlegt verður að dreifa flotanum sem mest á miðin. En staðhættir eru þannig, að hin auðugustu fiskimið við suðausturströnd landsins verða ekki nytjuð, nema flotinn geti landað í Höfn í Hornafirði. Því veldur hafnleysi suðausturstrandarinnar og það, hve fiskigengdin nær langt austur með landinu. Höfn í Hornafirði hefur verið sameiginleg útgerðarstöð fyrir Austfirðingafjórðung, og engar líkur eru til þess, að það breytist í framtíðinni. En um leið og bátunum fjölgar, þá verður að sjá þeim fyrir betri hafnarskilyrðum, og kemur þá Höfn í Hornafirði mjög til greina, en vegna þess að þar þarf mikilla endurbóta á hafnarmannvirkjum við, er þetta frv. flutt enn á ný í trausti þess, að hv. Alþ., afgr. það sem l. og að í kjölfar þeirrar lagasetningar fylgi nauðsynlegar umbætur á þessum stað. — Ég mun svo ekki fara um þetta fleiri orðum, en legg til, að málinu verði vísað til 2. umr. og sjútvn., og treysti því, að hún sjá sér fært að afgr. það eftir tiltölulega stuttan tíma.