22.02.1949
Neðri deild: 69. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í C-deild Alþingistíðinda. (3274)

65. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Frsm. minni hl. (Halldór Ásgrímsson) :

Herra forseti. Það er nú svo, að ágreiningur í þessu máli er ekki um einstök atriði, heldur um meginmálið, hvort það skuli ná fram að ganga eða ekki, og vík ég því að málinu yfirleitt og almennt.

Fram undir síðustu ár var útgerð þannig eystra, að á smærri stöðunum voru eingöngu trillubátar, en á betri höfnunum voru mótorbátar, svona 10, 15 til 20 tonna bátar. En á þessu hefur orðið veruleg breyting á síðustu árum. Bátarnir hafa stækkað við betri hafnirnar, og jafnframt hafnarbótum á smáhöfnunum stefna menn þar að því að ná í vélbáta, t. d. 10–20 tonna báta, í stað trillubátanna.

Vertíðartíminn eystra er sumarið, og er reiknað með, að vertíðin sé lengst eitthvað á fjórða mánuð. Aðstaðan til sjósóknar er eingöngu bundin við þennan stutta tíma úr árinu, að Hornafirði undanskildum. Útgerð er ákaflega þýðingarmikil fyrir afkomu manna á Austfjörðum og þá jafnframt mjög þýðingarmikið, að hægt sé að lengja útgerðartímann á ári hverju með því að gera út frá Hornafirði að vetrinum til. Það getur verið, að útgerðin blessist og beri sig yfir hinn stutta sumartíma, en það er mjög hæpið að treysta á það og mikið er í húfi. En með því að fá aðstöðu til að gera smærri bátana út frá Hornafirði á vetrarvertíð lengist úthaldstíminn og líkurnar stóraukast fyrir farsælli útgerð og afkomu. Stærri bátarnir geta frekar leitað suður á vertíð, en þó hrekkur það úrræði oft æði skammt, þegar ekki er hægt að fá viðlegupláss syðra, og er óviðunandi. Verulegar umbætur á höfninni í Hornafirði er því ekkert sérmál Hornfirðinga, heldur er það mál, sem varðar afkomumöguleika allra Austfirðinga og raunar landsins í heild. Hér er um það að ræða, hvort á að gera mönnum kleift að nytja ein af auðugustu fiskimiðum landsins, þ. e. við suðausturströndina, og það er ekki hægt án hafnaraðstöðu í Hornafirði. Aðstaðan til sjósóknar er óvenju hagstæð, en hafnaraðstaðan aftur mjög óhagstæð. Hvergi liggur sjálft veiðisvæðið jafnnærri landi og fyrir utan Hornafjörð, a. m. k. eystra, þangað er jafnvel ekki nema hálftíma keyrsla, og með tilliti til strauma er mjög gott að fiska þar, og veiðarfærin slitna því lítið. Útgerð hefur verið stunduð frá Hornafirði áratugum saman, og það er staðreynd, að þar er tiltölulega mjög lítill útgerðarkostnaður, og það hefur oft bjargað, þegar sjórinn hefur brugðizt, og sjór getur brugðizt þar eins og alls staðar annars staðar, þótt fiskimiðin séu auðug. Reynslan hefur sýnt, að Hornafjörður er með allra farsælustu veiðistöðvum landsins, og mun það þó sannast enn rækilegar, þegar hafnarskilyrðin hafa verið bætt. En aðstöðuleysið við höfnina gerir það að verkum, að bátum hefur farið fækkandi þar undanfarin ár, jafnframt því sem bátarnir hafa stækkað, því að stærri bátarnir eiga mjög erfitt með að athafna sig sökum þess, hve höfnin er grunn og lítil og lítið athafnapláss. Þó hefur árlega verið fluttur út fiskur frá Hornafirði fyrir fleiri milljónir króna. Og nú er spurningin þessi: Höfum við efni á að láta þessa möguleika ónýtta? Öll þróunin stefnir í þá átt, að eftir fáein ár verði aðeins heimabátarnir gerðir út frá Hornafirði.

Eins og ég gat um áðan, er það fjarri lagi, að þetta sé mál Hornfirðinga einna. Það, sem þarf að gera, er miklu meira en þörf er á fyrir Hornfirðinga út af fyrir sig og miklu meira en þeir einir ráða við. Það þarf ekki nánari útskýringar. Þar munu vera um 300 manns eða rúmlega það, og sjá það allir, að ekki stærri staður getur ekki staðið undir hafnarframkvæmdum, sem mundu kosta nokkrar milljónir króna. Það þarf að taka málið öðruvísi.

Hv. frsm. meiri hl. sjútvn. sagði, að Hornfirðingum virtist vorkunnarlaust að standa undir hafnarframkvæmdum þar á sama hátt og með sömu aðstöðu og aðrir staðir hefðu til þeirra hluta. Það hefur tvisvar áður verið flutt hér frv. um landshöfn í Hornafirði. Árið 1945 — held ég hafi verið — var slíkt frv. afgreitt eins og meiri hl. n. leggur nú til, að þetta frv. verði afgreitt, þ. e. a. s. því var vísað frá með rökstuddri dagskrá, og mér hefur skilizt, að forsendurnar hafi þá verið þær, að málið hafi ekki verið fullrannsakað, og var óskað eftir frekari rannsókn. Hið sama skilst mér, að eigi að gera nú samkvæmt áliti hv. meiri hl. n. Nú, þremur árum síðar, þegar búið er að gera fullnaðarrannsókn og tillögur um hafnarsvæðið og nema þar með á brott forsendu frávísunarinnar um árið, þá á samt að vísa málinu frá á sömu forsendu og þá, forsendu, sem þó er ekki lengur fyrir hendi. Í frávísunartillögunni er það nú m. a. fært fram, að Hornafjörður njóti 40% styrks frá ríkinu til hafnarframkvæmda. En það er engin ástæða heldur til að vísa málinu frá á þeirri forsendu, því að allar hafnir landsins njóta sama styrks úr ríkissjóði samkvæmt hinum almennu hafnarlögum. Og í því sambandi er sérstök ástæða til að minna á, að Hornafjörður hefur ekki einu sinni notið þessa lögboðna framlags ríkisins. Mér skilst, að Hornafjörður hafi alltaf lagt fram 3/5 hluta kostnaðarverðs hafnarbóta sinna, en fjöldinn af öðrum stöðum hefur ekki þurft að leggja fram nema helming upp að vissu marki, — ég hygg, að þar hafi verið miðað við 800 þús. kr. Á þetta má benda. Það hefur líka verið notað sem rök fyrir till. meiri hl., að landshöfn í Njarðvík sé ekki lokið enn þá. Það eru engin rök út af fyrir sig í þessu máli. Þar getur verið um svo stórt og mikið verk að ræða, að það gangi ekki eins vel og til var ætlazt og ráð fyrir gert. En hér er um allt annað verkefni að ræða, sem krefst ekki eins mikils fjárframlags og landshöfnin í Njarðvík.

Ég held, að það verði almennt að viðurkenna það, þótt hv. frsm, meiri hl. drægi það í efa, að athugun í sambandi við landshöfn í Höfn í Hornafirði sé að fullu lokið. Ég vil ekki draga í efa nauðsyn annarra landshafna, sem til greina hafa komið, en vafalaust eru þær þó misjafnlega aðkallandi. Ég fullyrði, að sú landshöfn, sem hér um ræðir, sé mest aðkallandi, og er þá jafnframt á hitt lítandi, að framkvæmdin er ekki svo kostnaðarsöm, miðað við hina brýnu þörf og nauðsyn. Vitamálastjóri álítur einnig, að Landshöfn í Hornafirði sé mest aðkallandi og að hún eigi fyrst að koma í röð landshafnanna. Ég geri ráð fyrir, að engin önnur landshöfn leysi meira spursmál með tilliti til þess, að um það er að ræða, hvort á að nýta eða ekki nýta fiskimið. Þau fiskimið, sem hér um ræðir, væru ónýtt án landshafnar í Hornafirði. Ef landshöfn verður komið upp á Rifi, þá verður það auðvitað til þess, að fiskimiðin nýtast þar betur, en ella hefði verið. En þar er ekki um það að ræða, að fiskimiðin verði ónýtt án landshafnar eins og um er að ræða á Hornafirði.

Að svo mæltu vil ég fyrir hönd minni hl. sjútvn. leggja til, að hin rökstudda dagskrá meiri hl. verði felld.