24.02.1949
Neðri deild: 70. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (3278)

65. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Frsm. minni hl. (Halldór Ásgrímsson) :

Herra forseti. Það var eins og við var að búast, að hv. frsm. meiri hl. hörfaði frá rökum þeim, sem færð voru fram í hinni rökstuddu dagskrá, sem hv. meiri hl. lagði fram. Nú er hv. frsm. farinn að færa fram sem rök, að aðrir staðir eigi að vera á undan. Það má segja, að þetta sé sjónarmið út af fyrir sig, sem hægt sé að ræða, og ekki nema eðlilegt, að til þess sé gripið, er þeir hafa ekki önnur rök gegn frv. Hv. frsm. meiri hl. brást bogalistin, er hann ætlaði að skjóta vitamálastjóra fram fyrir sig. Það má lesa mál þannig, að annað fáist út úr því, en til er ætlazt, og hv. þm. Ísaf. gerði freklega tilraun til að snúa út úr ummælum vitamálastjóra. Vitamálastjóri er að svara fyrirspurn um, í hvaða röð landshafnir skuli vera, þar sem Höfn í Hornafirði er fyrst og síðan Rif. En það er alveg út í bláinn að leggja svo út álit vitamálastjóra sem hv. þm. Ísaf. vill, að höfnin sé langt komin til að fullnægja þörfum Hornfirðinga. Ég gat þess, að það, sem þyrfti að framkvæma, væri eiginlega í tveimur þáttum. Í fyrsta lagi að gera nothæfa höfn fyrir Hornfirðinga og að því stefnt, að hægt verði að flytja vörur frá og til staðarins, og jafnframt stefnt að því, að hinir fáu bátar á staðnum fái viðunandi aðstöðu. En hinum þættinum hefur ekkert verið sinnt, og Hornfirðingar eru ekki færir um það sjálfir, en það er, að þarna sé komið upp eiginlegri fisk- og útflutningshöfn fyrir alla Austfirði. En það er ekki hægt að bera Höfn í Hornafirði saman við Hofsós og Dalvík. Ég efast ekki um, að menn á þessum stöðum hafi lagt mikið fram og lagt hart að sér til að koma upp sæmilegum hafnarskilyrðum, en þar er þess að gæta, að það er fyrst og fremst vegna þeirra eigin þarfa, en Höfn hefur því hlutverki að gegna að leysa þarfir alls Austurlands. Ég vil benda á, á þróun, sem átt hefur sér stað nú undanfarið, að bátar hafa stækkað mjög, slíkt kallar á bætt hafnarskilyrði, og útkoman verður sú, að bátar þeir, sem hægt er að gera út frá hinum smærri stöðum, geta ekki gengið nema um 3 mánuði um sumartímann, og það segir sig sjálft, að það vantar rekstrargrundvöll fyrir slíka báta. Það er ekki hægt að bera uppi útgerð með 3 mánaða vertíð. Hornafjörður gæti lengt tímann um 3 mánuði, og þetta er því nauðsynlegt. Það er því engan veginn verið að fara fram á þetta fyrir Hornfirðinga eingöngu, heldur fyrir Austfirði og allt landið.

Það kom fram, að eitthvað annað byggi undir dagskrártill. en þau rök, sem fram komu. Ég gat þess, að ég drægi ekki í efa, að aðrar landshafnir væru nauðsynlegar, en fullyrti að engin væri eins nauðsynleg og Höfn til að nytja auðug fiskimið í nágrenninu og að enginn annar staður gerði eins mikið gagn. Hv. þm. Ísaf. reyndi að gera lítið úr gildi þessarar hafnar og sagði, að hún gæti aldrei orðið stórskipahöfn. Það hefur aldrei verið gert ráð fyrir slíku, en hún mun samt sem áður leysa sitt hlutverk, svo að þetta er engin mótbára. Hv. þm. Ísaf. óttast líka, ef samþ. verður að byggja þarna landshöfn, að fleiri staðir komi í kjölfarið. Þetta er alveg út í bláinn, og ég geri ráð fyrir því, að þeir, sem eiga till. um landshafnir, hafi gert sér grein fyrir því, hvar takmörkin eigi að vera milli þeirra hafna, sem séu landshafnir, og þeirra, sem séu það ekki. Og Höfn í Hornafirði er ein af þeim, sem komu til greina, svo að ekki er verið að ganga út fyrir upphaflega rammann.

Ég tel ekkert of mælt í því, sem ég sagði við 1. umr., þar sem ég minntist á landshöfnina í Njarðvíkum, að engin rök mæli með því að sætta sig við það að halla sér svo að þörfum einhvers staðar, að allir aðrir staðir séu látnir bíða, unz verkinu er lokið þar, Ég fer ekki út í umr. um það, hvort rangt hafi verið að byrja á landshöfn í Njarðvík, en sé ekki, að algerlega þurfi að stöðva framkvæmdir í þessum efnum, þó að dregizt hafi að ljúka verkinu í Njarðvík.

Ég sé ekki, að hv. þm. Ísaf. hafi hrakið neitt af rökum þeim, sem mæla með Höfn í Hornafirði. Þetta er nauðsynlegt fyrir alla útgerð á Austfjörðum og sérstaklega fyrir þróun útgerðarinnar á hinum smærri stöðum, sem ráðizt hafa í að fá sér stærri báta. Ef Höfn verður efld, geta þessir bátar fengið betri hafnarskilyrði og þar með lengri útgerðartíma. Það hefur heldur ekki verið hrakið, að þorp, sem ekki telur nema 300 íbúa, getur ekki staðið undir slíku, það getur ef til vill staðið undir því, sem varðar Hornafjörð. Hv. þm. Ísaf. vill, að þetta varði Hornafjörð einan, en hann er þá á móti því, að Hornafjörður nýtist fyrir útgerð alls Austurlands. Það er fráleitt að berja lóminn og vara við þeirri hættu, sem ríkissjóði stafar af þessu frv., en það er gefið mál, að þótt þetta frv. yrði samþ. mundu framkvæmdir þessar taka nokkur ár og ekki hraðar unnið við landshöfnina, en fé það hrekkur til, sem ríkissjóður getur lagt fram eða gengið í ábyrgð fyrir. Það má segja, að það sé sjónarmið, að aðrir staðir séu teknir fram yfir Hornafjörð, en okkur Austfirðingum mætti þá vera spurn: Er það svo, ef leggja á fé fram til Austfjarða, að þá er reynt að skjóta öðrum stöðum fram fyrir og þá fyrst hugsað um staði, sem eru sem næst Faxaflóa? Það er skammt á að minnast síldveiðanna fyrir Austfjörðum, og kom þar fram andúð gegn veiðum þar, svo að ekki fékkst athugað, hvar heppilegast væri að byggja verksmiðju þar, ef gert yrði. Það er erfitt að sannfæra stjórn SR, því að hún er svo rammskorðuð við ákveðna staði, að hún fæst ekki til að athuga aðra, en þetta er ef til vill mannlegt. Og ef einhver er ef til vill búinn að bíta í sig, að Rif skuli vera næsta landshöfnin, þá er erfitt að fá þann sama til að athuga aðra staði.

Það komu engin ný rök fram hjá hv. þm. Ísaf. Hann hefur nú hörfað frá rökum dagskrárinnar og reynir að búa sér til önnur í staðinn. Spurningin er: Vill hv. Alþ. gera eitthvað á þessum stað til þess, að Austfirðir geti haldið áfram að þrífast og dafna.