24.02.1949
Neðri deild: 70. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í C-deild Alþingistíðinda. (3279)

65. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Það er fjarri því, að ég vilji tefja afgreiðslu þessa máls, en ég get þó ekki látið undir höfuð leggjast að bæta örfáum orðum við það, sem hér kom fram, ekki sízt í tilefni af því, sem hv. frsm. meiri hl., þm. Ísaf., sagði í ræðu sinni nú áðan. Það fór svo sem vænta mátti, að hann hefur lítil rök fram að bera gegn þeirri gagnrýni og þeim rökum fyrir málinu, sem ég og hv. frsm. minni hl. höfum flutt fram. Í fyrri ræðu minni um þetta mál, í fyrradag, sýndi ég fram á, að í hinni rökstuddu dagskrá, sem fram er borin af meiri hl. sjútvn., væri um þrjú málsatriði að ræða, sem ættu að gilda sem röksemd fyrir því, að ástæðulaust væri fyrir Alþ. að afgreiða þetta frv. sem l., heldur væri rétt að vísa því frá, eins og till. um rökstuddu dagskrána fer fram á. Ég sýndi fram á, að Hornafirði hefur ekki áskotnazt neitt sérstakt happ frá löggjafans hálfu, þótt hann ætti rétt á að fá 2/5 kostnaðar til framkvæmda við hafnargerð, og ég sýndi fram á, að þetta hefði verið til staðar, þegar mþn. í sjávarútvegsmálum hóf upp það merki að koma upp landshöfnum á nokkrum stöðum hér á landi, og ég sýndi enn fremur fram á, að Keflavík og Njarðvík hefðu átt rétt á hinu sama, þegar l. um landshöfn þar voru samþykkt. Ég sýndi enn fremur fram á, að það væri algerlega í ósamræmi við þá stefnu, sem fylgt hefur verið af hálfu Alþ. um verklegar framkvæmdir í landinu, ef það ætti að standa fyrir afgreiðslu þessa máls, að ekki væri búið að ljúka að fullu framkvæmdum, sem fyrirhugaðar væru í landshöfninni í Njarðvík, því að það er yfirleitt sú stefna, sem þingið hefur fylgt um verklegar framkvæmdir í landinu, að veita fé til sams konar framkvæmda samtímis á fleiri en einum stað, oft á mörgum stöðum, og í mörgu tilliti getur það talizt hagkvæmt, bæði þegar meta á, hvernig vinnuaflinu er dreift og hvernig tækjunum er dreift, og fleira kemur til greina í sambandi við það. Ég benti enn fremur á það, að það lægi ekki fyrir, að nein sérstök athugun væri á döfinni um landshafnir fram yfir það, sem þegar hefði verið unnið á því sviði, og minntist sérstaklega á það, að einmitt nú á síðustu missirum hefði verið endurskoðuð fyrri áætlun um hafnarframkvæmdir í Hornafirði og á þeirri endurskoðuðu áætlun væri þetta frv. byggt. Engu af þessu hnekkti hv. frsm. meiri hl. í ræðu sinni nú áðan, enda ekki von til þess, þar sem hér er um staðreyndir einar að ræða. Nú kemur það hins vegar fram hjá hv. frsm. meiri hl., að hann vill draga þá ályktun af umsögn vitamálastjóra um landshöfn í Hornafirði, að vitamálastjóri telji mjög koma til greina að fara aðra leið í þessu máli, en hér er lagt til, og þá ályktun virðist mér hv. frsm. Ísaf. draga af þessum orðum í umsögn vitamálastjóra, að hann telur „númer eitt Höfn í Hornafirði, annaðhvort sem landshöfn eða þá að séð verði um með öðrum hætti, að fiskútflutningshöfn geti vaxið þar fljótlega upp.“ Nú liggja engar till. fyrir um það frá meiri hl. sjútvn., með hvaða hætti öðrum eigi að sjá fyrir því, að þarna vaxi upp fljótlega stór fiskútflutningshöfn, heldur bendir hv. þm. Ísaf. einungis á það, sem fyrir hendi er nú þegar, að Hornafjörður eigi að sjá fyrir þessum framkvæmdum sjálfur með þeim stuðningi, sem honum er veittur í hinum almennu hafnarl. En það, sem á skortir, að verkið verði unnið fljótt og í stórum mæli eftir þeirri tilhögun, er ekki sízt fjárskortur sá, sem fyrir hendi er á fámennum og tiltölulega afskekktum stað, þótt hann hafi mikil gæði að bjóða til lands og sjávar þrátt fyrir það. Þá minntist hv. frsm. á umsögn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og drap á það, að hún væri ekki alls kostar jákvæð um þetta mál. Ég held, að hv. frsm. og aðrir þm. þurfi að gera sér ljóst, að það atriði, sem Farmanna- og fiskimannasambandið ræðir, innsiglingin á Hornafirði, hefur ekki breytzt til hins verra, frá því að till. komu fram um landshöfnina og frá því að hv. þm. Ísaf. meðal annarra vildi beita sér fyrir því, að landshöfn yrði reist á þessum stað, enda hefur aldrei verið farið fram á það, að ríkið kæmi þarna upp stórskipahöfn, eins og hv. 2. þm. N-M. réttilega sýndi fram á.

Hv. frsm. meiri hl. lét þess getið í ræðu sinni, að bátar þeir, sem nú eru gerðir út frá Hornafirði, væru ekki ýkja margir, — ég held hann hafi talað um 11, — og mun það ekki fjarri sanni, að þeir séu ekki öllu fleiri í vetur. En hins má geta, að fyrir fáum árum voru gerðir út 35 bátar frá Hornafirði, en nú á síðustu árum hefur bátum, sem þarna eru gerðir út, farið fækkandi, og hver skyldi vera orsök þess? Ætli það geti ekki skeð, að það standi í sambandi við þá breyt., þá uppbyggingu og þá stækkun, sem hefur átt sér stað á bátaflotanum, og ætli það geti ekki skeð, að hinir stærri bátar telji, að fyrir þeirra kröfum um bætt hafnarskilyrði sé ekki séð þannig, að viðhlítandi sé fyrir þá að stunda veiðar frá Hornafirði. Ég get enn fremur frætt hv. alþm. á því, að stærsti báturinn, sem Hornfirðingar sjálfir eiga, hann gerir ekki út frá Hornafirði í vetur. Hver skyldi vera skýringin á því, að það er fengin viðlega fyrir stærsta bátinn á Hornafirði í Vestmannaeyjum í vetur? Ætli skýringin sé ekki þessi, að sökum hinna ófullnægjandi hafnarskilyrða, sem fyrir eru á staðnum, telji jafnvel heimamenn ekki kleift að gera út báta af þeirri stærð, sem hinir traustu fiskibátar, sem nú eru í flotanum, eru yfirleitt. En þrátt fyrir þetta skilst mér, að hv. frsm. meiri hl. telji, að það vanti ekki ýkja mikið til þess, að búið sé að fullnægja þeim kröfum um hafnarbætur, sem hann telur nú þörf á á Hornafirði, þótt hann sjálfur fyrir fáum missirum síðan væri annarrar skoðunar. Ég heyrði ekki betur, en hann liti svo á, að ef unnið væri fyrir 1½ milljón á staðnum, þá væri búið að koma upp mjög viðunandi aðstöðu fyrir bátaflotann til viðlegu á Hornafirði. Nú mun þegar vera búið að vinna þarna fyrir a. m. k. allt að því 1 millj. kr., og þrátt fyrir það er aðeins um byrjunarframkvæmdir að ræða, miðað við það, sem þarna þarf að gera og verður að gera, ef sú aðstaða á að vera fyrir hendi, sem gerðar eru kröfur um. En einmitt þetta, hvað þó er búið að gera þarna, þrátt fyrir það, að þetta er fámennt og fátækt hreppsfélag, sýnir, að þeir, sem þarna eiga hlut að máli, eru allir af vilja gerðir og láta ekki sitt eftir liggja um það að bæta aðstöðuna á þessum stað. En nú drap hv. frsm. meiri hl. einnig á það, að þessar hafnarframkvæmdir væru ekki fyrst og fremst vegna byggðarinnar í Hornafirði, og mér þótti nokkurs virði, að honum er þetta ljóst.

Þegar flutt var frv. um landshöfn í Keflavík og Njarðvíkum, þá var það fram borið á Alþ. að tilhlutun hæstv. samgmrh. og flutt af sjútvn. Nd. Ég hygg, að allir þeir þm., sem nú skipa meiri hl. n. í þessu máli, sem hér er til umr., hafi þá átt sæti í sjútvn. þessarar d. og þar með tekið að sér að flytja frv. um landshöfn í Keflavik og Njarðvík. Það er ekki ófróðlegt að athuga þau rök, sem þá eru fram borin fyrir nauðsyn þessa máls. Í grg. fyrir því frv. segir m. a. svo: „Er augsýnilegt, að þegar bátum fjölgar, eins og nú er gert ráð fyrir, verður tæplega afgreiðslupláss til á þessum stöðum fyrir heimabáta, hvað þá að hægt sé að taka báta utan af landi til viðlegu, en þess mundu þó margir óska, ef möguleikar væru fyrir hendi til afgreiðslu. Fullkomin fiskihöfn fyrir svo marga báta sem hér er um að ræða kostar margar milljónir króna, og þar sem hér þarf að haga framkvæmdum að mjög verulegu leyti með hliðsjón af þörfum utansveitarmanna, er þess ekki að vænta, að neitt einstakt hreppsfélag taki sig fram um nauðsynlegar aðgerðir.“

Með þessum rökum flytja þeir menn, sem nú mæla gegn frv. því, sem hér liggur fyrir, frv. um landshöfn í Keflavík og Njarðvík. Ég tel þessi rök fullgild, hafa verið það þá og vera það enn og eiga við um þetta mál, sem hér liggur fyrir, alveg eins og þau áttu við á sínum tíma um Keflavík og Njarðvík. Það er einmitt þetta, sem liggur fyrir um aðstöðuna á Hornafirði, að vegna þess, að hér er um höfn að ræða, sem ekki er fyrst og fremst fyrir innansveitarmenn, heldur einnig utanhéraðsmenn, þá er ekki von til þess, að fátækt hreppsfélag hafi bolmagn, þótt það hafi vilja, til þess að inna þær framkvæmdir af hendi, sem gera þarf og gerðar eru kröfur til, svo að fiskimiðin á þessum slóðum verði nytjuð til hagsbóta fyrir þjóðarbúið, svo sem verið hefur og vera þarf.

Þeim rökum, sem fram hafa verið borin af mér og hv. frsm. minni hl., hefur, eins og ég sagði í upphafi þessarar ræðu, á engan hátt verið hnekkt, heldur stendur það skýrt fyrir sjónum manna og er að ýmsu leyti skjalfest frá fyrri árum, að það er álit margra, að hér sé um mikið nauðsynjamál að ræða, enda meira að segja skjalfest í skjölum Alþ., að þeir menn, sem nú mæla gegn þessu máli, hafa áður borið fram till., sem ganga í sömu átt, og það er vissulega illa farið, þegar þeir snúast svo öndverðir gegn fyrri till. sínum sem hér virðist ætla að verða raunin á.