24.02.1949
Neðri deild: 70. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í C-deild Alþingistíðinda. (3284)

65. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Þetta er ekki nema athugasemdatími, sem mér er ætlaður, enda skal ég láta nægja að taka fram aðeins örfá atriði.

Hæstv. samgmrh. talaði að ýmsu leyti skynsamlega um þetta mál, eins og við mátti búast. Hann viðurkenndi fyllilega, að mér skildist, þörfina á að auka framkvæmdir við hafnargerð á Hornafirði, en hann telur, að hið opinbera hafi ekki nægilegt fé til þessara framkvæmda og því sé fjárhagsgrundvöllur þessa frv. ekki nógu traustur.

Mér virtust koma fram hjá hæstv. ráðh. tvö atriði, sem ég vil gera aths. við. Í fyrsta lagi finnst mér hann gera of lítinn mun á því, hvað hreppsfélaginu sé mögulegt um útvegun lánsfjár til hafnargerðarinnar og hvað ríkinu er mögulegt, en fram hjá því er ekki hægt að horfa, hvað ríkið hefur meira bolmagn en fátækt hreppsfélag, þó að ríkið standi bak við lán, sem hreppurinn tekur.

Þá lét hæstv. ráðh. svo um mælt, að Hornafjörð skorti flest skilyrði til að nytja hin auðugu fiskimið, sem þar eru út af ströndinni. Út af þessu vil ég ítreka það, sem áður kom fram, að þrátt fyrir það að skilyrðin eru að ýmsu leyti svo ófullkomin sem þau eru, þá hefur samt sem áður árlega verið dregið í þjóðarbúið svo milljónum króna skiptir á þessum stað. Og hvað mætti verða, ef hafizt væri handa um að gera verulega endurbót á þeim skilyrðum, sem fyrir hendi eru?

Hæstv. ráðh. gat um, að hafnargerð þeirri, er fyrirhuguð er í Keflavík, hefði lítið miðað áfram vegna fjárskorts. Ég heyrði ekki fyllilega, hvað hann sagði um þetta, en ég ætla, að árið sem leið hafi það verið á aðra milljón króna. Ég hef í höndum skýrslu Landsbankans fyrir 1947. Þar segir svo á bls. 47 um fé það, er lagt hefur verið til þessarar hafnargerðar, með leyfi hæstv. forseta: „Byggingu landshafnarinnar í Keflavík og Njarðvík var haldið áfram, og nam kostnaðurinn, sem féll á árinu, 5.645 þús. kr. Þar af fóru 2.875 þús. kr. til kaupa á landi og mannvirkjum. Árið áður voru lagðar 2.025 þús. kr. í þessa hafnargerð.“ Ég hygg, að það sé álitið, að skýrsla Landsbankans sé traust heimild, og ef það er tekið til greina, sem í henni segir, að farið hafi í þessa landshöfn, og einnig þess, sem hæstv. samgmrh. segir, að veitt hafi verið til hennar árið 1948, þá skilst mér, að búið sé að leggja í höfnina kringum 7 millj. kr. Ég skal ekki segja, hvað mikið hefur á unnizt fyrir þetta fé, en þetta er allmiklu meira en fé það, sem farið er fram á til hafnargerðarinnar í Hornafirði.

Hv. þm: Borgf. kvaddi sér hljóðs hér áðan, en hann er, eins og kunnugt er, maður skeleggur til sóknar og varnar. Honum hefur runnið til rifja frammistaðan hjá hv. frsm. meiri hl. og talið rétt að gera þar nokkra áréttingu. Það, sem fram kom hjá hv. þm. Borgf., var tvennt: annars vegar að þau ummæli, sem ég lét hér falla um, að hann hefði átt hlut að máli um flutning frv. um landshöfn í Keflavík, væru ekki rétt, og hann gaf þá skýringu, að hann hefði ekki átt sæti í sjútvn. á þeim tíma. Þetta er ef til vill alveg rétt, ég skal ekki bera brigður á það, heldur hafa það, sem sannara reynist, að hv. þm. Borgf. hafi þá ekki átt sæti í sjútvn. En það haggar ekki hinu, að sjútvn. flutti þá frv., eins og hún var þá skipuð. Hitt atriðið, sem var uppistaðan í ræðu hv. þm. Borgf., var það, að framtak heimamanna nýttist betur með því skipulagi, sem nú væri um hafnarframkvæmdir samkvæmt hinum almennu hafnarl. en ef um landshöfn væri að ræða. Hv. þm. Borgf. er sá maður, sem hefur lengsta þingsögu að baki sér og man lengst aftur í tímann, enda hóf hann sögu sína mjög langt frá okkar tíma. Hann minntist á, þegar ríkið fór fyrst að sinna hafnarframkvæmdum í landinu og hvernig á þeim hefði verið tekið af hálfu ríkisins og hvernig þau hefðu aukizt stig af stigi. Af því vildi hann draga þá ályktun, að því meir sem ríkið hefði skipt sér af þessum málum, því verr hefði þeim miðað áfram og það hefði náð hámarki sínu, þegar um landshöfn var að ræða. Mér virðist þessi frásögn hv. þm. Borgf. eiga að sanna, að eftir því sem ríkið hefur veitt meira til þessara hafnarframkvæmda, hafi verkinu miðað verr áfram. Það eru til l. um hafnarbótasjóð, sem gert er ráð fyrir, að veiti á sumum stöðum enn þá meiri aðstoð af ríkisins hálfu en almenn hafnarl. gera ráð fyrir. Þetta er gert til þess að hrinda áfram framkvæmdum á vissum stöðum. Nú er það fjárveitingavaldsins að ákveða, hvernig skipað skuli niður fjárveitingum hverju sinni til þessara mála, hvort meira skuli veitt til hafnargerða samkvæmt hinum almennu hafnarl. og minna til landshafna eða meira til landshafna og minna til hinna almennu hafnargerða. Þetta er mál, sem fjárveitingavaldið hefur í sinni hendi. Þess vegna sé ég ekki, þó að um landshafnarform sé að ræða, að það þurfi að standa gegn því, að framkvæmdir séu gerðar. Það er þvert á móti á hinn veginn, því að þrátt fyrir það að ríkið hefur í mörg horn að líta um fjárgreiðslur, þá er ég ekki svo svartsýnn um fjárhag þess, að því sé ofvaxið að sinna kröfum, sem ekki eru hærri en þær, sem gerðar eru um þessa framkvæmd, þar sem heildarfjárhæðin er 4–5 millj. kr., sem ætlazt er til, að lagt verði fram á nokkrum árum.