18.12.1948
Neðri deild: 45. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í B-deild Alþingistíðinda. (329)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Hermann Guðmundsson:

Það var ekki ætlun mín að ræða málið, sem hér liggur fyrir, en ég ætla að tala um annað mál, óskylt, sem dregið var inn í þessar umr., ásamt minni afstöðu til þess máls, sem var skattfrelsi Eimskipafélags Íslands. Það var hv. þm. V-Húnv., sem það gerði á þann veg, að hann vildi gera úr því einhverja forsmán, að tveir af þm. Sósfl. greiddu atkv. með áframhaldandi skattfrelsi Eimskipafélags Íslands. Það tilræði tókst ekki, og er það mjög ánægjulegt. Í þessu sambandi mætti íhuga, að hv. andstæðingar hafa haldið því fram, að ég hafi greitt atkv. með þessu frv., enda þótt flokksbræður mínir hér í hv. Nd. hefðu greitt atkv. gegn frv. Ég leyfi mér nú að tilkynna þessum hv. þm., að ég mun fylgja mínum skoðunum, hvað sem öllum flokksaga líður. Undarlegt má það virðast, að hv. 8. þm. Reykv. skuli fjargviðrast yfir því, að verkamenn í Reykjavík, og reyndar úti um allt land, munu láta sig miklu skipta, hver hagur Eimskipafélags Íslands er og hvernig er að því búið. En reynslan bendir til þess, að verkamenn eigi mikið undir því komið, að þetta félag sé sem allra sterkast, því að mikill fjöldi þeirra hefur hagsmuna að gæta í sambandi við vinnu hjá félaginu. En það get ég sagt hv. 8. þm. Reykv., að lítinn hagnað mun verkamannastéttin hafa af því, að upp vaxi sterk yfirstétt hér í landi, en það er annað mál. Að vísu er ýmislegt í fari Eimskipafélagsins, sem ég tel, að betur mætti fara, en félagið læt ég ekki gjalda þess. Eimskipafélag Íslands á vonandi langan aldur fyrir sér.