09.11.1948
Efri deild: 10. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (33)

26. mál, happadrættislán ríkissjóðs

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Út af þeim ágreiningi, sem hér hefur komið fram varðandi þetta skattfrelsi, þá vil ég leyfa mér að benda á eina leið, sem mér finnst bæði eðlileg og enn fremur mun vera einhver einfaldasta leiðin í þessu máli. Hún er sú, að þessar væntanlegu vinningar verði algerlega undanþegnir öllum opinberum gjöldum það ár, sem þeir falla til, síðan ekki meir, þ.e.a.s. að ríkið taki ekki heldur eignarskatt það ár. Þá gæti þessi brtt., sem hér liggur fyrir frá n., verið þannig, að felld yrðu burt síðustu orðin, „öðrum en eignarskatti“, en í staðinn komi, „það ár, sem þau falla“ eða eitthvað líkt, sem n. gæti orðað. Ég held, að þetta sé bezt í samræmi við þá hugsun, sem liggur til grundvallar hjá ríkisstj., þ.e.a.s. að örva menn til að kaupa bréfin, og sá skattur, sem ríkið tapaði við að fella líka niður eignarskattinn, mundi ekki skipta verulegu máli fyrir afkomu ríkisins. Með því yrði líka komið í veg fyrir það misræmi, sem réttilega hefur verið bent á nú, að ætti sér stað milli ríkis og sveitarfélaga, því að ef ríkið tæki ekki eignarskatt það árið, biðu sveitarfélögin heldur ekki órétt eða verulegt fjárhagslegt tjón, þó að það ákvæði næði til þess, að ekki yrði heldur sett á eignarútsvar þetta eina ár, sem vinningar féllu. Hins vegar mundi það leiða af sjálfu sér, að bæði ríkið og sveitarfélögin mundu innheimta af þessu eignarskatt og útsvar, eftir því sem ástæður þættu til á hverjum stað, eftir að þetta ár væri liðið. Mér finnst, að þetta muni vera einfaldasta leiðin. Ég ætla ekki að flytja neina till. um þetta, þar sem ákveðið er að fresta umr., en vildi aðeins skjóta því til n., fyrst hún fær málið til meðferðar á ný, að athuga, hvort þetta er ekki einfaldasta lausnin á málinu.