10.03.1949
Neðri deild: 78. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í C-deild Alþingistíðinda. (3314)

88. mál, húsaleiga

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hef ekki gert neinar aths. En ég var svo óheppinn að vera kvaddur til af hæstv. forsrh. til að gera athuganir á málinu fyrir þingið í þeim tilgangi, að Alþ. afgreiddi l. um þetta efni, — og þá vitanlega að gera breyt. á gildandi l. Við störfuðum lengi að þessu. Svo virtist sem við mundum verða sammála. Oss var ljóst, að hæstv. ráðh. hafði skipað menn úr þrem flokkum. Þá var okkur og ljóst, að hann mundi hafa gert það til að tryggja grundvöllinn, svo að samkomulag næðist milli flokkanna. Við nm. töldum nauðsynlegt að leggja till. okkar fyrir flokkana til þess að vita, hvaða stuðnings við mættum vænta, ef við kæmum okkur saman um ákveðnar till. En þegar út í það var komið að ráðgast við flokkana, urðu ólík sjónarmið til að fjarlægja okkur hvern öðrum. Var þó meiri munur skoðana innan flokkanna en hjá einstökum nm., og þegar sýnt var, að eigi yrði samkomulag um eina till., þá vildi ég ekki láta þetta dragast öllu lengur og lýsti því yfir, að ég mundi senda till. mínar til hæstv. forsrh. sérstaklega, ef aðrir væru á öðru máli, og um það var enginn ágreiningur, að ósamkomulag væri innan n. Varð það úr, að hver sendi sínar till. Beið ég nú lengi átekta. Þegar ekkert fæddist, átti ég tal við hæstv. forsrh. um það. hvort þess væri að vænta, að eitthvað kæmi frá honum. Hann kvaðst bíða eftir áliti hinna. Nú er liðið á sjötta mánuð síðan, svo að hér er orðinn langur ómagaháls. Þegar ekkert kom frá hæstv. forsrh., tilkynnti ég, að ég mundi leggja till. mínar fyrir þ. Veitti ég honum tvisvar sinnum frest, en sá þó fram á, að fresturinn yrði ekki til neins. Legg ég þá till. fram ásamt meðflm. mínum. Málið gengur nú til n. þ. 9. des. Lá það lengi hjá n., og að því er mér hefur verið tjáð að mestu leyti sökum þess, að hæstv. forsrh. bað um frest á málinu. Nú eru liðnir réttir þrír mánuðir síðan hv. n. tók við málinu. Fór svo að lokum, að minni hl. hennar nennti eigi lengur að standa í þessu þófi og afgreiddi málið. Síðan það gerðist eru nú liðnar þrjár vikur, og hv. meðnm. í allshn. hefur eigi enn unnizt tími til að skila áliti. Ætli það sé ekki vegna þess, að hæstv. forsrh. hefur hvað eftir annað beðið um frest? Að sönnu hefur hann beðið hæstv. forseta um hann líka. En ég ámæli honum eigi, þótt hann fari að því, er hann er beðinn af hæstv. forsrh. Ég sjálfur hefði gefið marga fresti. (Forseti hringir.) Já, ég skal ekki orðlengja.