11.03.1949
Neðri deild: 79. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í C-deild Alþingistíðinda. (3323)

88. mál, húsaleiga

Frsm. 3. minni hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera hér fram brtt. við þetta frv. og get um ástæður fyrir þeim að mestu leyti vísað til þess nál., sem ég hef skrifað um málið. Ég skal viðurkenna, að þessar till. og nál. er nokkuð síðbúið hjá okkur í meiri hl. n. Þó að við að vísu, þegar við skrifuðum nál., ættum ekki samleið og komum nú sem annar og þriðji minni hl. n. með málið fyrir hv. d., þá var það sameiginlegt fyrir okkur, að við vildum ekki fallast á frv óbreytt, eins og það liggur fyrir.

Hæstv. forsrh. hefur nú gert grein fyrir því, að hann hafi haft í undirbúningi sérstakt frv. um þetta mál. Og bar það á góma í n. af minni hálfu, hvort ekki væri rétt að setja allsherjarlöggjöf um þetta efni, því að, eins og hæstv. ráðh. tók réttilega fram, þá hafa ekki verið í okkar löggjöf nein ákvæði, er lúta að réttindum eigenda húsa og leigutaka, og stafar það vitaskuld af því, að það er tiltölulega stutt síðan verulega hefur kveðið að því, að menn hafi þurft á slíku að halda. Kaupstaðir og kauptún eru svo ung í okkar þjóðfélagi og svo fámennir staðir kauptúnin víða, að til skamms tíma höfðu lagaákvæði um þetta ekki mikla þörf. En eins og nú er komið um atvinnuháttu þjóðarinnar, þá er löggjöf um þessi mál orðin óhjákvæmileg. Mér þykir því mjög vænt um að heyra, að hæstv. ráðh. skuli nú hafa haft þetta mál í undirbúningi og að það er von á frv. um þetta mjög fljótt fyrir þingið. Ég býst við, að n. hefði ekki unnizt tími til undirbúnings slíkrar löggjafar á þessu þingi, þannig að það hefði verið hægt að ganga frá löggjöf um þetta efni á þann veg, og þess vegna hefði orðið aðeins að gera einhverjar lagfæringar á eldri lögum um þetta eða þá sama sem að afnema hana, eins og þetta frv., sem hér liggur fyrir, stefnir óneitanlega að, þótt nokkur frestur sé gefinn um sum ákvæði laganna samkv. frv. Ég get fullkomlega viðurkennt og hef kynnzt því nokkuð, að þessi lög hafa undir vissum kringumstæðum verið ósanngjörn í garð húseigenda og að þeir hafa haft undir vissum kringumstæðum of lítil ráð á þessum eignum sínum. Hygg ég, að svo sé ekki hvað sízt, þegar samskipti leigutaka og leigusala hafa verið með öðrum hætti en vera ætti, og fer ég ekkert út í það, hverjir hafa í hverju einstöku tilfelli átt höfuðsökina. En það er ekki hægt annað en að viðurkenna, að af hálfu leigutaka hefur stundum stórkostlega skort á um sambúðarhæfni við eigendur húsa, eða eins og stundum mun hafa átt sér stað, að kjör þau, sem húseigandi hefur átt við að búa um leigumála fyrir þessa eign sína, hafa gersamlega verið óviðunandi og honum máske af þeim ástæðum verið alveg um megn að halda við eign sinni. Og þá er þetta náttúrlega með öðrum hætti, en fært er, og þar misskipt rétti manna, og það getur ekki, þegar til lengdar lætur, verið neinum til góðs að halda slíku ástandi. En þó að þessi atvik séu til á ýmsum stöðum eða slík dæmi, þá er eigi að síður þessi lagasetning það þýðingarmikil fyrir leigjendur, að eins og ástatt er enn um húsnæði, ekki sízt hér í Reykjavík, þá hygg ég, að það sé rétt, sem fram hefur komið, bæði hjá húsaleigunefnd hér í bænum fyrr og síðar og líka kemur fram í bréfi stjórnar Leigjendafélagsins, að það mundi geta valdið hinu mesta öngþveiti og vandræðum hjá fólki, ef húsaleigulöggjöfin væri mjög skjótt afnumin og ekkert kæmi í hennar stað.

Því ber ekki að neita, að þrátt fyrir húsaleigulöggjöfina, sem verið hefur, þá hygg ég, að mörgum barnafjölskyldum í bæjum hafi reynzt mjög erfitt að fá þak yfir höfuðið, svo að viðunandi væri. Með því að eiga tal við menn um þetta mál hefur maður orðið þess mjög var, að svo virðist sem nokkur tregða sé á því hjá þeim, sem leigja húsnæði, að leigja barnafjölskyldum og margir séu, sem beinlínis hafi gert það að skilyrði fyrir því að fá leigt húsnæði, að börn væru ekki í húsnæðinu. Það má nú vel vera, að það kunni að vera undir sumum kringumstæðum nokkuð öðruvísi umgengni í húsum, þar sem litlu börnin eru. En þó efast ég um, að þar sé meiri munur á eða meir áfátt en hjá einhleypu fólki og umgengnisvenjum þess, þannig að það sé engan veginn allt fengið með því, þó að það séu ekki barnafjölskyldur, sem fá húsnæði á leigu. Og þó að sjálfsagt mönnum beri skylda til að líta á nauðsyn hvers þegns í þessu máli sem öðrum, einmitt hvað húsnæði snertir, þá hygg ég þó, að brýnust sé nauðsynin og mest skyldan að reyna með lagasetningu að sjá einmitt fjölskyldufólki, börnunum, fyrir húsnæði.

Ég ætla stuttlega að fara út í þessar brtt. mínar. Ég vil vona, að hv. þdm. við það að lesa þær og bera efni þeirra saman við ákvæði laganna eða frv. geti fljótt séð, hverju lagt er til, að breytt verði. Ég hef leitazt við að ganga nokkuð til móts við húseigendur í þessu máli, svo að rýmkuð sé aðstaða þeirra um ráð yfir húsum sínum. Að því lúta till. um, að einstaklingsherbergi innan stundar verði laus undan ákvæðum húsaleigulaga, og sömuleiðis till. um húsnæði til atvinnurekstrar. En jafnframt því, sem ég hef reynt að mæta óskum þeirra, þá hef ég líka haft í huga nauðsyn leigjendanna, og lúta að því þau ákvæði brtt. minna, að fjölskyldufólk eða menn, sem hafa á framfæri þrjú börn eða fleiri innan sextán ára aldurs, skuli ganga fyrir um íbúðarhúsnæði. Enn fremur eru svo í þessum brtt. ákvæði, sem tiltaka, að eftir rúmtaki húsa, gólffleti og rúmi að nokkru leyti sé sett hámark á leiguna, 7 kr. á mánuði fyrir hvern fermetra gólfflatar íbúðarinnar, ef vegghæð íbúðarinnar er 2,5 metrar eða meiri, en annars sé leigan nokkru minni, sem því nemur, sem hæð íbúðarinnar er minni. Ég treysti mér ekki til, þó að ég gefi einmitt þessar tölur, að dæma um það, hvort ég með þessu hef hitt á þann mælikvarða, sem sanngjarnastur er. Ég hygg, að það geti staðið mismunandi á um húsnæði einmitt gagnvart slíkri ákvörðun og því sé illt að finna nokkra tölu, sem geti verið hin eina rétta undir öllum kringumstæðum. En samkvæmt því, sem hér hefur gerzt, og með hliðsjón af því, sem hefur tíðkazt hjá öðrum þjóðum um þetta efni, hygg ég, að þessi uppástunga mín fari ekki fjarri öllu lagi. Ég vil geta þess, að í sambandi við þessa ákvörðun, rúm húsnæðis, ætlast ég til, að farið sé eftir þeirri reglu, sem húsaleigun. hér í Rvík hefur haft í sínu starfi við ákvörðun leigu á íbúðarhúsnæði.

Samkv. brtt. mínum undir g-lið er ætlazt til, að ýmis ákvæði l. fari úr gildi smátt og smátt, og fer ég ekki nánar út í að rekja það, því að það sér hver maður með því að lesa brtt. En hvenær húsaleigul. ganga endanlega úr gildi, það vil ég leggja á vald bæjarstjórna eða sveitarstjórna eftir því, hvor þeirra á hlut að máli. Mér finnst ekki nema rétt og sjálfsagt, að einmitt þau stjórnarvöld hafi á hendi slíkar ákvarðanir, þar sem þau eiga að vera, hver á sinum stað, langkunnugust högum fólksins hvað þessi mál snertir og hafa miklu meiri kunnugleika á þessu máli en alþm., sem koma víðs vegar að og geta ekki haft annað við að styðjast í sínum ákvörðunum en umsagnir og álit frá ýmsum félagssamtökum eða einstökum mönnum. Hins vegar hafa stjórnarvöld bæja og sveita næga kunnugleika gegnum sitt starf, hver hjá sér, til þess að geta ákvarðað, hvað rétt er að gera í þessu máli. Ég vil einmitt mega vænta þess, að þegar þeim er afhent slíkt vald í slíku máli sem þessu, vandi þau svo ráð sitt, að ekki sé nein hætta á, að þau taki ákvarðanir, sem væru til skaðsemda fyrir þegnana, enda væri þá illa með þau umboð farið, ef þeim mönnum, sem hefðu slík málefni fólksins með höndum, væri ekki betur til þess trúandi að komast að réttri niðurstöðu sakir kunnugleika síns en mönnum úr fjarlægum héruðum, sem ekki eru hér í bænum nema meðan þingið starfar.

Aðrar brtt., sem ég legg til, að gerðar verði á núgildandi löggjöf, hirði ég ekki um að fara að rekja. Þær eru mjög auðskildar þeim, sem hafa kynnt sér efni l. og lesið till., svo að það að fara að rekja þetta nánar væri ekki annað en endurtekning á því, sem hver þm. getur sagt sér sjálfur.

Ég vil nú vona, að hv. flm. þessa máls, hv.. 5. þm. Reykv. og hv. 3. þm. Reykv., geti fyrir sitt leyti fallizt á þessar till. mínar. Ég ætla, að það væri ekki lítil bót ráðin á l. einmitt frá þeirra sjónarmiði, en að þess sé betur gætt hvað leigjendur í bæjum snertir með brtt. mínum en með þeirra frv., því að ég get ekki betur séð eftir þeirra frv. en að innan stuttrar stundar svífi þeir í lausu lofti og hafi litla leiguvernd um sín málefni, hvernig sem takast kynni til við þá miklu breytingu, sem hlyti að verða við afnám l., sé það gert nú í skyndi.