15.03.1949
Neðri deild: 81. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í C-deild Alþingistíðinda. (3327)

88. mál, húsaleiga

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér finnst rétt í sambandi við þetta mál að athuga ofurlítið forsendurnar hjá báðum aðilum málsins, sem nú hefur orðið ágreiningur um í allshn.

Raunverulega bregður þetta mál nokkru ljósi yfir stjórnmálaástandið hjá okkur. Það er engum vafa undirorpið, að það var mjög almennt gengið út frá því í upphafi, þegar þessi lög voru sett, að þau væru fyrst og fremst stríðsfyrirbrigði, en síðan yrði strax hægt að lina á þeim eða afnema þau. Það ber enginn á móti því, að ýmsir hafa orðið hart úti vegna þessara laga, þótt nauðsynleg séu. Það er því engin tilviljun, að húseigendur vilja lina á þeim, ekki sízt með skírskotun til ákveðins loforðs, er núverandi ríkisstj. gaf, er hún kom til valda um, að húsnæðisskortinum skyldi útrýmt. Hins vegar kemur og mjög skýrt fram hjá 2. minni hl. allshn., að leigjendur eru mjög ákveðið á móti afnámi laganna, og er sýnt fram á, að það mundi hafa ákaflega slæm áhrif fyrir fjölda leigjenda, koma þeim beinlínis á vonarvöl. Og vissulega verður að segja, að leigjendur dæmi út frá því ástandi, sem nú ríkir í þjóðfélaginu. Það er svo langt frá því, að húsnæðisskortinum hafi verið útrýmt, að hann er þvert á móti ákaflega sár. Fjöldi manns hefst við eða býr í húsnæði, sem beinlínis er bannað að búa í og talið heilsuspillandi. Og hvers vegna er þetta ástand svona? Það er að vissu leyti eðlilegt, að húseigendur komi með sínar kröfur. Þeir byggja þær einfaldlega á loforðum þessarar ríkisstj., og þessir tveir þm. Sjálfstæðisfl. ættu fyrst og fremst að spyrja stjórn sína, hvað hún hafi staðið við af þessum loforðum. Og afstaða leigjenda er ákaflega skiljanleg. Þeir byggja á ástandinu eins og það er, þeir verða að standa andspænis þeim napra sannleika, að loforð stj. hafa ekki verið efnd. Þessu máli, lausn húsnæðisvandræðanna, var slegið upp öllum málum meira, er þessi ríkisstj. tók við völdum. Af hálfu Alþfl. var það beinlínis boðað, að hér eftir þyrftu menn engu að kvíða í þessum efnum. En það hefur e. t. v. gleymzt eitthvað af því, sem þá var sagt. Ég skal lesa hérna fyrirsögn úr Alþýðublaðinu 6. febr. 1947, með leyfi hæstv. forseta. Þessi fyrirsögn nær yfir þvera síðu blaðsins, og er með þeim allra stærstu fyrirsögnum, sem sézt hafa í blaðinu. Þar er stefnu ríkisstj. lýst þannig: „Áframhaldandi nýsköpun, atvinna og velmegun á grundvelli fyrir fram saminnar áætlunar. Útrýming húsnæðisskorts og heilsuspillandi íbúða um land allt.“ Og svo, eftir þessar hátíðlegu yfirlýsingar og auglýsingar er sérstaklega útmálað, að ráðast eigi í stórfelldar byggingaframkvæmdir um land allt, í sveitunum líka. Og nú hafa Sjálfstfl., Alþfl. og Framsfl. stutt ríkisstj. í tvö ár, sem ekki hefur framkvæmt neitt af yfirlýstum stefnumálum sínum, heldur þvert á móti. Þeir, sem trúðu loforðum ríkisstj., verða nú að gera sér — og gera sér — ljóst og gera upp við hana, hvernig hún hefur staðið í stykkinu. Hvað hefur hún t. d. gert til að útrýma heilsuspillandi íbúðum og íbúðarhúsnæði? Alþfl., sem sló þessu loforði mest upp og taldi höfuðatriði að koma í framkvæmd, hann hefur byrjað á því að banna íbúðarhúsabyggingar. Slíkt bann hefur aldrei tíðkazt hér á landi, ekki einu sinni á dögum dönsku einokunarinnar. Venjulega hefur fátæktin verið nóg til að hindra byggingu íbúðarhúsa, þó að ekki bætist bann skriffinnskunnar þar ofan á. En þessi ríkisstj. fer aðra leið. Hún setur á fót nefndabákn, sem eykst með hverju ári og er bæði dýrt og erfitt í vöfum, til þess að banna mönnum að byggja yfir sig, og formaður þess stærir sig meira að segja af því, að nú hafi tekizt að draga úr byggingum íbúðarhúsa. Þetta eru framkvæmdir ríkisstj. til útrýmingar húsnæðisskortinum. En ef þetta net skriffinnskunnar skyldi nú samt sem áður ekki nægja og einhver skyldi fljóta í gegn og fá fjárfestingarleyfi, þá bætist bankavaldið við til hindrunar. En þrátt fyrir það þótt bankavaldið hafi haft í frammi alls konar neitanir á lánsfé til bygginga á íbúðarhúsum, þá hefur aldrei heyrzt hljóð frá hæstv. ríkisstj. um það, að þetta væri móti stefnu hennar. Þeim, sem flutu gegn, áttu lögin að sjá fyrir. Með þessu var Íslendingum gert mjög erfitt með að byggja yfir sig, en á sama tíma voru aðrir menn hér á landi, sem ekki þurftu að sækja um leyfi og byggðu í banni íslenzkra laga, og á ég þar við Bandaríkjamenn á Keflavíkurflugvellinum. Þeir hafa flutt inn byggingarefni og byggt eins og þeim hefur þóknazt, án þess að ríkisstj. hafi nokkuð skipt sér af því.

Nú skyldi maður halda, að fyrsta stjórn Alþfl. hefði reynt að sjá um, að lögin frá dögum nýsköpunarstj. um útrýmingu á heilsuspillandi íbúðum hefðu verið framkvæmd og síðan aukin og endurbætt eftir því, sem aðstæður leyfðu. En það er nú eitthvað annað. Sjálf ríkisstj. hefur lagt til að fresta framkvæmd laganna. Ríkisstj. hefur í verkinu afnumið þessi lög, sem uppáleggja ríkisstj. að styðja bæjarfélögin við útrýmingu heilsuspillandi íbúða. Þau bæjarfélög, sem voru að hefjast handa í þessum efnum, fengu þá kveðju frá ríkisstj., að þau yrðu svikin um þann styrk, sem þau áttu rétt til lögum samkvæmt. Þetta var aðferð Alþfl. við framkvæmd þeirra mála, sem Alþýðublaðið sló svo um sig með. Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl. samþ. frv. ríkisstj. Svo koma nú tveir af stuðningsmönnum ríkisstj. og segja: „Við viljum afnema húsaleigulögin“ — og færa fram ýmiss konar réttmæt rök máli sínu til stuðnings, en byggð á forsendum, sem þeir hafa sjálfir eyðilagt. Þetta hefði verið raunhæft, ef ríkisstj. hefði staðið við loforð sitt um útrýmingu á húsnæðisskorti og heilsuspillandi íbúðum, og þá hefði ég verið samþykkur því að gefa þetta frjálst, en þegar flokkarnir þrír taka höndum saman um að banna mönnum að byggja yfir sig og banna framkvæmd laga, sem miða að útrýmingu heilsuspillandi íbúða, þá skil ég ekki, hvernig þessir fylgismenn ríkisstj. halda, að hægt sé að afnema húsaleigulögin. Hv. flm. ættu að byrja á því að snúa sér til ríkisstj. og gera upp við hana og segja Fasteignaeigendafélagi Reykjavíkur og öðrum, sem hlut eiga að máli, að gera upp við ríkisstj. Hvað eru menn að gera með að kjósa Sjálfstfl., sem styður Alþýðuflokksstjórnina, sem bannar útrýmingu heilsuspillandi íbúða, og vill svo afnema húsaleigulögin? Hér er um mjög alvarlegt mál að ræða. Það er eðlilegt, að húseigendur séu óánægðir, þar sem frelsi þeirra er stórlega skert, og það er líka von, að leigjendur vilji ekki afnám laganna. En hefur Sjálfstfl. stuðlað að auknu frelsi í landinu, þannig að hann geti gert kröfur í þeim efnum? Nei, þvert á móti hefur hann lagt á húseigendur og aðra landsmenn þyngri fjötra, en nokkru sinni áður. Það hefur verið dregið úr byggingum, og meira að segja hefur formaður fjárhagsráðs hælt sér af því að hafa dregið úr slíkum framkvæmdum. Það verður að vera svolítið samræmi milli orða og gerða, því að meðan svo er ekki, er erfitt að taka þetta öðruvísi en sem sýningarleik. Samræmið er samt ekki meira en það, að þessir menn vilja setja lög á einu þingi og afnema þau á öðru. Auðvitað væri æskilegast að veita mönnum frelsi á þessu sviði og að fólk mætti byggja yfir sig, þegar því sýndist, en menn verða þá að vera frjálsir að semja um kaup og kjör, án þess að ríkisstj. setji nokkur kúgunarlög. Og ef stjórnarflokkarnir ætla að afnema húsaleigulögin, þá verða þeir að afnema kaupgjaldsbindinguna og sjá um, að ríkið standi við lög sín. Það er til lítils að ræða um og setja lög, ef þau eiga aðeins að vera til á pappírnum og vald utan þingsins getur hindrað framkvæmd þeirra. Til þess að lögin um verkamannabústaði, samvinnubyggingar og útrýmingu heilsuspillandi íbúða komist í framkvæmd, þarf aðstoð bankavaldsins, að það vilji veita byggingarlán til langs tíma og gegn lágum vöxtum. Þetta er jafnnauðsynlegt og lögin, því að án þess verða öll lög aðeins til á pappírnum. Hins vegar er vitað, að bankavaldið hefur á síðari árum komið í veg fyrir framkvæmd þessara laga, en því fer fjarri, að ríkisstj. hafi reynt að tryggja framkvæmd þeirra, og það svo mjög, að hún hefur látið undan siga og stjórnarflokkarnir sjálfir afnumið lögin. Það liggur því í augum uppi, að ef flm. frv. vilja leysa þetta, þá eiga þeir fyrst að leysa þetta við ríkisstj., og spyrja hana, af hverju hún hafi eyðilagt þessi lög frá dögum nýsköpunarstjórnarinnar. Nei, það verður að vera samræmi milli orða og gerða manna, og þessir menn hjálpuðu til að skipa þetta öngþveiti, sem nú ríkir. Ef skapa á frelsi, þá verður að mynda almennilega ríkisstj., en ekki hafa ríkisstj., sem eyðileggur fyrir alþýðu manna og bannar allar bjargir. Einhver kann ef til vil1 að segja, að fyrir þessu séu aðrar ástæður eins og t. d. skortur á erlendum gjaldeyri, en ef það er satt, sem sagt er, að stjórnin sé búin að kasta 16 millj. í sjóinn með stöðvun togaraflotans, þá er ekki hægt að sjá, að mikill skortur sé á gjaldeyri, og fyrir 10 millj. kr. hefði ríkisstj. getað fengið um 50 þús. tonn af sementi. Annars býst ég við, að svo mikið af byggingarefni hafi verið til í landinu frá dögum nýsköpunarstjórnarinnar, að fjárhagsráð hafi eyðilagt meira eða minna af byggingarefni með banni sínu, og ef eitthvert vit hefði verið í stjórninni, þá væri til gnægð byggingarefnis til útrýmingar húsnæðisskortinum. Ég býst við, að þeir, sem ríkisstj. setti til þess að stjórna þessum málum, hafi ekki mikið hugsað um útrýmingu húsnæðisskortsins. Fjárhagsráð lagði undir sig stærra húsnæði, en nokkur önnur nefnd hefur gert. Það lítur út fyrir, að það þurfi meira húsnæði til að banna mönnum að byggja yfir sig, en til þess að hjálpa mönnum um útvegun á tækjum til öflunar gjaldeyris. Í þessu sambandi hefur aldrei heyrzt hljóð úr horni frá Framsfl., Sjálfstfl. og Alþfl. um sóun á húsnæði.

Í gær var hér rætt um afnám vísitölubindingarinnar. Í sambandi við það mál fengu stjórnarflokkarnir tækifæri til þess að afnema rangláta vísitölu, auka frelsi og gera verkamönnum mögulegt að mæta t. d. afnámi húsaleigulaganna. Hver var svo afstaða stjórnarflokkanna. Þeir slökuðu ekki til. Sjálfstfl. sýndi þar afstöðu sína gagnvart verkamönnum. En á sama tíma ætlar svo Sjálfstfl. að afnema húsaleigulögin eftir að hafa stutt þessa ríkisstj., sem svíkur gefin loforð. Hér stangast á orð og gerðir, og er undarlega lítið samræmi í aðgerðum þeirra í húsnæðismálum. Þess vegna hefði mér fundizt rétt, að húseigendur og leigjendur, sem báðir hafa nokkuð til síns máls í þessum efnum, gerðu upp reikningana við ríkisstj., sem sveik lögin um útrýmingu heilsuspillandi íbúða og það með aðstoð þessara tveggja hv. þm. Ég vil þess vegna, að maður fái að heyra ofur lítið hvers konar pólitík Sjálfstfl. ætlar að reka í byggingarmálum, áður en maður tekur þá alvarlega. Ég get hins vegar vel skilið, að hv. flm. þessa frv. sé farið að leiðast biðin eftir frv. forsrh., en hann hefur fengið frest á frest ofan, og það er ókomið enn. En þetta er ekkert einsdæmi. Svona hefur þingið beðið, svona hefur þjóðin beðið, og svona hafa allir beðið í tvö ár eftir aðgerðum ríkisstj., en þær sjást engar enn. Mig undrar ekki, þótt þolinmæði manna bresti. En hvernig stendur á því, að meðan þjóðin bíður eftir efndum og öll loforð eru svikin, að þá skuli menn líða þessa ríkisstj.? Ég veit svo sem, hvernig efndir ríkisstj. verða: Frv. í 90 greinum, þar sem Alþfl. eru ætluð ný embætti við að hafa eftirlit með því, að landsmönnum takist ekki að byggja yfir sig.