15.03.1949
Neðri deild: 81. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í C-deild Alþingistíðinda. (3328)

88. mál, húsaleiga

Frsm. 2. minni hl. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. Hér hefur orðið löng ræða eins og svo oft áður hjá hv. 2. þm. Reykv. Raunar hefur hann farið alllangt út fyrir dagskrárefnið eins og venjulega, en ég nenni ekki að elta ólar við það allt saman. Hins vegar eru hér fáeinar skekkjur, sem ég get ekki látið vera að leiðrétta, og er það fyrst viðvíkjandi lögunum um útrýmingu heilsuspillandi íbúða. Hv. þm. sagði, að l. um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis hefðu verið afnumin á Alþingi. Þetta er ekki rétt. L. hafa ekki verið afnumin. Hins vegar samþ. Alþ. bráðabirgðabreyt. þessara l., þannig að brbl. nr. 44 frá 1946 yrðu framlengd og að þau næðu til nokkurra sveitarfélaga, og var Alþ. gefin heimild til þess að veita árlega ákveðna upphæð á fjárlögum í þessu augnamiði. Nú er þetta allt annað, en að afnema l., því að þetta er bundið á fjárlögum árlega. Það er því komið undir þm., og þeim er alltaf opin leið að bera fram brtt. við fjárlagaumr., og koma þá þessi l. til fullrar framkvæmdar. Þetta vil ég benda hv. 2. þm. Reykv. á. En eins og fjármálum ríkisins er nú komið, þá held ég, að það sé hyggilegast að framkvæma þessi l. með tilliti og í samræmi við afgreiðslu fjárlagafrv., en það er nokkuð annað en að búið sé að afnema l. um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis.

Þá vék hv. 2. þm. Reykv. að störfum fjárhagsráðs s. l. ár og talaði af mikilli mælsku um, að fjárhagsráð hefði bannað íbúðarhúsbyggingar. Hafði þm. stór orð í þessu sambandi. Nú skal ég reyna að svara fyrir barnið. — Á síðasta ári var veitt leyfi fyrir öllum þeim umsóknum, sem bárust um íbúðarhúsbyggingar utan Reykjavíkur, en í Reykjavík var sú takmörkun sett, að ekki var veitt nema til íbúða, sem ekki fóru fram úr 130 m2 að flatarmáli. Ný verzlunarhús voru ekki leyfð og ekki heldur stóríbúðir. Fjárhagsráð synjaði ekki neinum íbúðum utan Reykjavíkur. Aðgerðir fjárhagsráðs hafa þannig miðað að því að tryggja mönnum efni til íbúða, alveg öfugt við það, sem hv. 2. þm. Reykv. heldur fram. Svona er barnaskapur hans mikill, að hann heldur, að hægt sé að komast endalaust áfram með þennan vaðal sinn, en eins og hv. þm. vita, þá er oft ekki hirt um að svara þessum hv. þm. Mönnum leiðist að vera að elta ólar við hans taumlausu mælgi og eru hættir að taka nokkuð tillit til þess, sem hann segir í hinum mikla mælskuflaumi sínum. Nú er það svo, að vegna innanlandsvandræða hefur ekki allt verið byggt, sem leyft hefur verið í Reykjavík eða annars staðar. Það er ekki fjárhagsráði að kenna, þó að framkvæmdir gangi ekki örar, en raun er á. Hendur manna hafa verið bundnar við fjölda verkefna, sem legið hafa fyrir og verið er að vinna að. Vegna þess bendir margt til þess, að leyfisveitingar hafi verið helzt til örar, frekar en hitt. Reykjavíkurbær fékk leyfi til þess að láta byrja á byggingu 40 nýrra íbúða, en hann hefur ekki enn hafizt handa um framkvæmdir. Einnig fékk bærinn leyfi til að reisa skóla í Kleppsholti, en sú saga er á sömu leið. Byggingarfélag eitt fékk leyfi fyrir 36 íbúðum, en gat heldur ekkert gert. Þvílíkt og þetta mætti lengi upp telja. Í öðrum bæjum en Reykjavík hefur fjárhagsráð veitt svo mörg leyfi fyrir byggingu íbúðarhúsa sem um var sótt, en þar hafa menn í mörgum tilfellum ekki treyst sér til framkvæmda eins og á stóð. Að öðru leyti er það, sem hv. þm. sagði um störf fjárhagsráðs, einnig öfugt við það, sem hann vill vera láta.

Þm. hafa fengið í hendur fjölritaða álitsgerð um störf fjárhagsráðs. Fjallar hún um fjárfestingarmál og er dags. þ. 8. okt. 1948. Hv. 2. þm. Reykv. hefur þessa álitsgerð á borðinu hjá sér og getur fylgzt með mér, að ég fari rétt með, en ég ætla að bera nokkuð saman, hvað í henni felst, við það, sem hv. þm. hefur hér sagt. Álitsgerð þessi er samin af 4 hagfræðingum, þeim Gylfa Þ. Gíslasyni, Klemenz Tryggvasyni, Jónasi Haralz og Ólafi Björnssyni. Einn þessara manna, Jónas Haralz, nýtur mikils álits í flokki 2. þm. Reykv., og hafa kommúnistar oftlega í hann vitnað, enda hefur þessi hagfræðingur skrifað mikið í blað kommúnista, Þjóðviljann, og auk þess verið í kjöri til þingmennsku fyrir flokkinn og má ætla, að hann sé leiðandi í hagfræðikenningum fyrir flokkinn, enda alkunnur kommúnisti. Nú, þessi álitsgerð fjallar um kosti og lesti í störfum fjárhagsráðs, en ráðsmenn voru nú ekki feimnari en það, að þeir létu fjölrita plaggið og sendu það alþm. Nú er ekki tími né stund til að rekja álitið í einstökum atriðum, en höfuðniðurstaða hagfræðinganna er sú, að fjárfestingin 1948 hafi verið of há, en ekki of lág, sbr. bls. 22 í álitsgerðinni. Þar segir með leyfi hæstv. forseta: „Þessi áætlun verður að teljast mjög há, miðað við sams konar áætlanir nágrannaþjóðanna.“ Enn fremur segir neðar á sömu bls. „Þrátt fyrir þetta má telja víst, að íslenzka fjárfestingaráætlunin sé, miðað við þjóðartekjurnar, miklu hærri en bæði norska áætlunin og hliðstæðar áætlanir í öðrum nágrannalöndum, og mun þó sú fjárfesting, sem norska áætlunin gerir ráð fyrir, vera mjög há, miðað við það, sem gerist annars staðar.“ Berum nú þessi ummæli saman við fullyrðingar hv. 2. þm. Reykv. Hér stangast alveg á yfirlýsingar hv. 2. þm. Reykv. og álit hagfræðings kommúnistaflokksins. Þá segir enn fremur á bls. 23 í álitsgerðinni: „Það má fullyrða, að þær fjárfestingarfyrirætlanir, sem felast í fjárfestingaráætluninni fyrir 1948, séu langt um fram árlegar sparnaðarfyrirætlanir.“ Ég sé ekki ástæðu til að rekja þetta mikið lengur. Hv. 2. þm. Reykv. og aðrir hv. þdm. geta gengið úr skugga um, að tilvitnanirnar eru réttar, því að þeir hafa þessa bók undir höndum. Það er eftirtektarvert, hversu mikill mismunur er á áliti hagfræðings kommúnista og þeim vísdómi, sem hv. 2. þm. Reykv. hefur látið frá sér fara hér við þessar umr. Og vegna gamallar vináttu og kunningsskapar við hv. þm., þá vildi ég ráðleggja honum að kynna sér álit hagfræðings flokks síns, áður en hann stendur næst upp til að tala um byggingarmálefni landsmanna, en því fer alls fjarri, að þessi þm. hafi nokkra þekkingu á þeim málum á borð við hagfræðing kommúnistafl. Hv. þm. virðist ekki hafa heyrt neitt eða séð af því, sem hann hefur talað svo mjög um.

Svo skal ég víkja máli mínu til hv. 5. þm. Reykv. Hann hélt því fram, að það væri ekki rétt, að fyrir honum vekti að vera með öfgar í húsnæðismálunum. Hvað sem því líður og hvað sem þetta frv. kann nú að vera slæmt, þá hefur hæstv. forsrh. lýst því yfir, að það sé til athugunar, að samið væri frv. til nýrra húsaleigulaga, þar sem jafnt verði tekið tillit til húseigenda og leigjenda. Verður það því að teljast nokkur óþolinmæði, er þetta frv. kemur hér fram nú. Ef það skyldi hafa vakað fyrir 1. flm. þessa frv. að ná samkomulagi um afgreiðslu málsins, þá hefði hann átt að bíða, þar til hæstv. ráðh. hefði lagt fram sitt frv., og sjá, hvernig takast mundi um samþykktir till. hans í þinginu, Frv. þetta, eins og það liggur nú fyrir, fer ekki í gegnum þingið. Það finnst mér ólíklegt. Hv. þm. bera það mikla ábyrgðartilfinningu, að þeir vita, að samþykkt frv., eins og það er nú, mundi valda vandræðum meðal samborgaranna. Það nær því alls engri átt að samþ. frv. eins og það nú liggur fyrir. Ef það hefði vakað fyrir flm. að þoka málinu áleiðis án þess að eiga á hættu að skapa glundroða, ef samþ. yrði, þá hefðu þeir átt að bíða enn um stund og reyna að ná samkomulagi um grundvöll, sem líklegur hefði talizt að komast í gegnum þingið.

Ég var því feginn, að hv. 5. þm. Reykv. skyldi þó játa það, að upphaflega hafi það verið nauðsyn, að húsaleigulögin voru sett. En a. m. k. ég og hv. þm. Siglf. teljum, að enn sé nauðsyn að framkvæma þessi l., en það má vera, að l. valdi nokkrum erfiðleikum. Svo er um flest l., sem sett eru til að takmarka, bæði á þessu sviði og öðrum. — Nú hefur verið um það talað, að húsaleigun. í Reykjavík mundi meta leigu of háa, og var að heyra á hv. 5. þm. Reykv., að Alþfl. ætti þar sök á. Nú er annar matsmannanna kunnur sjálfstæðisflokksmaður hér í bæ, en nú eru húsaleigun. tvær. Úrskurðir undirhúsaleigun. eru oft sendir yfirhúsaleigun. Það hefur einatt komið fyrir, er málum hefur verið áfrýjað til yfirhúsaleigun., þá hefur hún lækkað hið fyrra mat, og eru dæmi til þess, að yfirnefndin hafi lækkað leiguna allt að helmingi og jafnvel upp í 60–70%. Sé það nú svo, að það sé einhverjum sérstökum flokki að kenna, hve undirnefndin meti húsaleiguna hátt, þá ætti 5. þm. Reykv. að sakast um það við flokksbróður sinn og flokksbróður 2. þm. Reykv., sem eru tveir um matið í þeirri n. Nú er ein hlið þessa máls þáttur Fasteignaeigendafélags Reykjavíkur. Hv. flm. þessa frv. hafa látið prenta sem fylgiskjal með frv. bréf frá þessu félagi. Mig undrar það, að flm. skyldu gera það. því að bréf félagsins er mjög ósvífið í garð þm. Nú vil ég ekki væna vin minn, hv. 5. þm. Reykv. um það, að hann hafi haft sérstaka tilhneigingu til að birta slíkar ógnanir sem í bréfinu felast. Í bréfi Fasteignaeigendafélagsins er sagt m. a., að ef Alþ. fallist ekki á það að afnema húsaleigulögin, þá muni fasteignaeigendur sporna gegn því, að þeir þm., sem kunna að vera þessu frv. andvígir, verði kjörnir til þingmennsku framvegis. Af þessu má nokkuð draga, að þetta frv. virðist fyrst og fremst vera borið fram í þágu leigjenda, en hlutur leigutaka fyrir borð borinn. Málið er meira virði en það, að þm. láti ógna sér og það eru fleiri, sem þetta mál snertir, en fasteignaeigendur.

Hv. 1. þm. Árn. hefur flutt hér brtt. við frv., sem við í 2. minni hl. höfum enn ekki haft tækifæri að ræða og athuga. Brtt. hans eru allvíðtækar, m. a. er þar færður fram tíminn, sem heimilar að segja upp íbúðum. Það má vera, að það eigi einhvern rétt á sér að gera í því efni einhverjar tilfæringar, en ég get ekki að svo stöddu tekið afstöðu til brtt. hv. þm. Árn. Þar er um það mörg atriði að ræða, að ég verð að taka þær til sérstakrar yfirvegunar. Þó hygg ég, að leiguhámark það, sem hv. 1. þm. Árn. gerir ráð fyrir, eða 7 kr. á mánuði fyrir hvern fermeter að viðbættri vísitöluuppbót, sé of hátt. Um önnur atriði í hans brtt. vil ég segja, að ég tel, að taka beri þau til athugunar, svo sem það að leggja það á vald bæjarstjórnanna, hvort þær vilji, að lögin gildi á þeim stöðum, sem um ræðir, því að það kemur í hlut bæjarstjórnanna að sjá þeim íbúum fyrir húsnæði, sem húsnæðislausir eru, og er það því eðlilegt, að þær hafi um það íhlutunarrétt. Ég skal ekkert um það segja, hvort bæjarstjórn Reykjavíkur mundi nota sér þennan rétt, en ég er hræddur um, að hún leiddi yfir sig vandræði, ef húsaleigul. væru afnumin. — Ég held svo, að ég muni við þessa umr. greiða atkv. að flestu leyti með till. hv. 1. þm. Árn., jafnvel þó að ég sé ekki samþykkur öllu, en ég mun geyma mér til 3. umr. að breyta, ef málið kemst þá svo langt.