15.03.1949
Neðri deild: 81. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í C-deild Alþingistíðinda. (3329)

88. mál, húsaleiga

Hallgrímur Benediktsson:

Herra forseti. Ég vildi láta falla nokkur orð hér um meðferð málsins, þar sem ég er 2. flm. frv. á þskj. 160. Ég ætla að víkja hér að nokkrum orðum, því að mér finnst það hafa komið berlega í ljós hjá frsm. 2. og 3. minni hl. n., sem draga má af greinargerð okkar, hv. 5. þm. Reykv. og mín. Það er mikið vandræðamál, að liðin skuli vera 8 ár frá því að lögin voru sett og 4 ár eru liðin frá þeim tíma, er lofað var, að húsaleigulögin skyldu afnumin. Og það er í skjóli þessara átta ára, eins og hv. 1. flm. benti á, glögglega komið í ljós, að þetta hefur raskazt svo mikið, að húsnæði, sem raunverulega liggur undir húsaleigunefnd, er ekki nema lítill hluti af leiguhúsnæðinu. Og það er full þörf á því, að þeir, sem lögunum komu á, sjái nú leið til þess að bæta það öngþveiti, sem lögin hafa valdið. Ég vil því næst dvelja við einn lið sérstaklega, sem frsm. 2. minni hl., hv. þm Ísaf., ætti að skilja, þar sem hann hefur talið sig til þess flokks, sem segir sig vera málsvara þeirra manna, sem í sveita síns andlitis hafa unnið að því og kappkostað að koma sér upp húsum sínum. Þetta eru ekki efnamenn, en það eru einmitt þessir menn, sem verða fyrir þessum órétti. Þetta er þungamiðja málsins. Það er fjöldi smærri húseigenda hér í bænum, sem hafa unnið að því á mörgum árum að koma sér upp litlum húsum. Mikið af þessum húsum eru járnklædd timburhús. Til þess að geta staðið í skilum voru þeir oft neyddir til þess að leigja eitthvað út, og eftir þeim hætti, sem þá var, þá var leigan yfirleitt lág. En þá kemur framhaldið, og þessir menn, sem með sparsemi hafa aflað sér svolítils til elliáranna til þess að njóta einhvers öryggis, þeir eru alveg settir upp við vegg, þeir eru gerðir alveg réttlausir. Ég veit mörg dæmi um þetta, sem ekki verður þokað. Leigjendur fara fram á lagfæringar og viðgerðir, en þessir húseigendur geta ekki ráðið við neitt með þeirri leigu, sem þeir fá fyrir íbúðirnar, og að endingu verða þessir menn að gefast alveg upp á gamals aldri og láta af hendi eigur sínar, sem þeir höfðu gert sér vonir um, að mundu verða þeim til stuðnings á elliárunum. Það er þetta, sem er óréttlátt, og ég get ekki skilið í því, að löggjafarþingið skuli láta slíkan órétt viðgangast, því þó að húsaleigul. hafi e. t. v. verið nauðsynleg á sínum tíma, þá hafa þau nú svo ósanngjarnar og óbilgjarnar afleiðingar. Ég vildi aðeins hafa bent á þetta atriði, sem er eitt af mörgum, sem af er að taka. Það er ekkert samræmi í því að halda uppi 9 ára leigusamningi, eins og ég þekki dæmi um, 4–5 herbergja íbúðir, — þá er ekki viðlit fyrir eiganda að ráðstafa húsnæðinu fyrir sig eða skyldulið sitt, eða þó að hann vilji selja, þá situr leigjandi fyrir í íbúðinni og þarf sig hvergi að hræra, — það er ekkert samræmi í því að greiða fyrir 4–5 herbergja íbúð, sem leigð er með þessum kjörum í prýðilegu húsnæði á hitaveitusvæðinu, 225 kr. á mánuði, en núna er greitt fyrir tveggja herbergja íbúð utan hitaveitusvæðisins 920 kr. á mánuði, eftir mati húsaleigunefndar. Það er þetta, sem við eigum að ráða við og þurfum að finna heppilega lausn á og fylgja fast eftir. Eina leiðin, sem við getum tekið upp, er, eins og fram kom hjá 1. minni hl., að fylgja fram frv. um að afnema húsaleigulögin, því að þau eru löggjafanum til vanvirðu, og það er okkar að bæta úr þessu á réttlátan og æskilegan hátt. Ég vil fylgja því fram, sem hv. frsm. 1. minni hl. sagði, að ef gera á einhverjar ráðstafanir, þá þarf að byggja alveg að nýju. — Mér skilst það á hv. þm. Ísaf., að lagabálkur sá, sem von er á frá hæstv. félmrh., sé heil löggjöf og þar komi fram í þeirri löggjöf ákvæði um þær breytingar, sem gera þarf á húsaleigul. — Ég tók þetta dæmi, en það er af mörgum að taka, og það má nærri geta, hvernig viðhorfið er, þegar fólksstraumurinn til bæjarins er slíkur sem raun ber vitni. Það hafa komið fleiri þúsundir manna til bæjarins núna á undanförnum árum, 8 þús. frá því 1945, og það heldur alltaf áfram að flytja, en þessi varnagli húsaleigulaganna hefur aldrei komið til framkvæmda á þessu stigi málsins.

Hv. þm. Ísaf. talar hér með miklum fjálgleik um óþolinmæði af okkur að vilja ekki bíða eftir því, að frv. komi frá hæstv. félmrh. Ég veit ekki, hvort hv. þm. meinar þetta alvarlega eða ekki. Það er búið að vera í sambandi við stjórnina síðan í nóvember í haust, að reyna að finna grundvöll um þessi mál. Þessu frv., sem hér um ræðir á þskj. 160, var úthlutað í desember, og því er vísað til nefndar 9. des., og skilar 1. minni hl. áliti sínu 18. febr. Mér skilst, að þetta sé ekki merki um óþolinmæði, heldur þvert á móti, en ég vil undir öllum kringumstæðum benda á, að þetta frv. er flutt af brýnni nauðsyn, og tel ég mig hafa öll gögn í hendi um það, að hér sé um að ræða ein ósanngjörnustu lög fyrir einstaka húseigendur og einnig fyrir leigjendur, og það er alveg út í loftið að bera leigjendur fyrir sig, því að þeir eru margir á móti. Nei, það, sem liggur fyrir okkur flm., er sú brýna nauðsyn að koma fram réttlæti í þessum málum, því að það er ekki hægt að gefa út lög, sem opna allar gáttir fyrir innstreymi til bæjarins, og hrópa svo úti á hverju horni, að það þurfi að byggja. Lögin eru miðuð við það, að ekki sé óeðlilegur straumur fólks til bæjarins, en því hefur ekki verið til að dreifa, og nú leiða þau af sér hið mesta misrétti. Gömlum borgurum þessa bæjar er nú fyllilega bolað út, og þannig er tekinn af þeim ellilífeyririnn í skjóli þessara laga.

Það fer ekki hjá því, að ég komi inn á ýmislegt, sem hv. 5. þm. Reykv. hefur svo ýtarlega gert grein fyrir, og ég er í einu og öllu sammála afstöðu hans til þessa máls, enda held ég, að okkur báðum séu kunnar ástæður, ekki eingöngu Fasteignaeigendafélagsins, heldur og leigjenda.

Hæstv. félmrh., hann tók hér til máls við þessa umr og sagðist hafa séð og heyrt, að mikill dráttur hefði orðið á þessu máli. Ég get ekki skýrt þennan drátt á annan veg en að löggjafarstofnunin sé í mjög miklum vandræðum með afstöðu til þessa máls. Mér skildist á hæstv. félmrh., er hann minntist á þetta mál, að það væri von á myndarlöggjöf, sem danskur prófessor væri upprunalega höfundur að, en mér skilst, að hún þurfi ekki að rekast á þessa, því að húsaleigul. var skotið á borgarana sem stríðsráðstöfun, og eins og kom fram í grg. á sínum tíma, þá var ætlazt til, að þau væru afnumin að stríðinu loknu: Nú eru liðin 4 ár frá stríðslokum, og hefði því Alþ. átt að vera búið að afnema þau fyrir löngu.

Ég vildi svo segja það um nál. hv. 2. minni hl. á þskj. 449, að það er í raun og veru ekkert, sem kemur þar fram, og skjalið frá leigjendunum, það hnekkir engu af því, sem ég bar fram, því að auðvitað búa þessir leigjendur í gamalli leigu, og það eru einmitt þeir, sem endilega vilja, að húsaleigul. séu sem lengst í gildi. Þá lendir þetta allt á þeim mönnum, sem leigðu þeim fyrir 7–9 árum, svo að það eru nú heldur veik rök.

Þá vildi ég minnast svolítið á nál. á þskj. 351. Það er frá hv. 1. þm. Arn. Á þessu stigi vildi ég segja og vísa til þess, sem ég sagði í upphafi, að eðlilegast er það, að löggjafinn leysi sjálfur þann vanda, sem hann hefur skapað. Ef Reykjavík ætti að byggja yfir allar þær þúsundir, sem til bæjarins flytja og flutzt hafa, þá er eðlilegra, að löggjafinn ákveði, hvað gera skyldi.

Ég vil svo ekki lengja þessa umr. að sinni, en ég ætla sérstaklega að taka það fram, sem þm. varast að minnast á, en er þungamiðjan, að þetta er vandræðalöggjöf og mjög óréttlátt ástand, sem skapazt hefur hér í Reykjavík vegna hennar. Og mig furðar á nál. á þskj. 449, því að þar eru tveir fyrrv. ráðh., sem unnu að þessum lögum og leggja nú til, að það ástand, sem nú ríkir, verði áfram óbreytt. Þá stóð ekki á þessum vinum og samverkamönnum, þegar gilti að vinna saman um þetta nál. Furðar mig á því, að þm. Siglf. og þm. Ísaf. gera bandalag í þessu máli. — Læt ég svo útrætt um þetta mál í bili, en tek ef til vill aftur til máls síðar.