15.03.1949
Neðri deild: 81. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í C-deild Alþingistíðinda. (3330)

88. mál, húsaleiga

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að byrja mitt mál með því að minna á þrjá hv. þm., hæstv. forsrh., hv. þm. Ísaf. og hv. 1. þm. Árn., og annað mál, sem þeir höfðu með að gera, sumir á Alþ., en aðrir sem áhugamenn utan þings. Þessir hv. þm. tóku þá, hver á sinn hátt, afstöðu til réttlætismáls, sem átti erfitt uppdráttar og við mikið ranglæti að stríða í þjóðfélaginu. Nú hafa þessir þrír hv. þm. tekið afstöðu með alveg sérstöku ranglætismáli, sem er að sumu leyti öllu ranglátara en það mál, sem þeir á sínum fyrri dögum tóku að sér að hnekkja. Ég á hér við frv., sem ég hygg, að hv. 1.. þm. Árn. hafi verið 1. flm. að, en var um lágmarkssvefn togaramanna. Ég hygg, að hv. 1. þm. Árn. hafi verið fyrsti baráttumaður fyrir því máli. Þannig stóð á þá, að ungir og hraustir menn sóttust eftir háu kaupi, sem greitt var á togurum, og fóru í þá vinnu, þó að hún væri algerlega óframbærileg, því að það kom oft fyrir, að þeir urðu að vinna 60 klst. án svefns, og þegar þeir voru að fletja fiskinn á þilfarinu, dauðþreyttir, þá kom það fyrir, að þeir köstuðu bolnum af honum fyrir borð í stað haussins. Mennirnir eru svo gerðir, að jafnvel þetta mál mætti mikilli mótstöðu. Þegar 1. flm. þess máls var að berjast fyrir rétti þessara manna, var reynt að kæfa þá rödd. Af hverjum? Af þeim, sem höfðu gróðahagsmuna að gæta og kúguðu þá, sem þarna voru órétti beittir. Hæstv. forsrh. var ekki á þingi þá, en hann mun hafa verið stuðningsmaður flokksins, sem beitti sér fyrir þessu, og sama má segja um hv. þm. Ísaf. Þegar við lítum til baka, erum við flestir hissa á því, að það skuli hafa komið til mála, að þing eftir þing var barizt um það, að ekki ætti að fara með háseta á togurum eins og þræla. En svona var þetta. Það er venjulega ekki hægt að fá réttlætismálunum framfylgt fyrr en að því kemur, að þeir, sem að ranglætinu standa, eru ekki lengur með ranglætinu.

Í byrjun stríðsins taldi þáverandi félmrh., sem er núverandi forsrh., sig nauðbeygðan til að beita sér fyrir því, að þessi þvingunarráðstöfun yrði gerð, og aðallega að því er snerti Reykjavík. Það er síður en svo, að hugsað sé um að afnema þetta ranglæti, og jafnvel forsrh. sjálfur, sem mesta ábyrgð ber á l., hefur ár eftir ár tafið fyrir öllum aðgerðum, sem málið snerta, á Alþ. Mér þykir leiðinlegt að segja þetta. Ég sé ekki annað en sýnt sé ýtrasta ranglæti, eins og þegar níðzt var á togaramönnunum í æsku hans. Hann hefur meira að segja neitað félagi húseigenda um að afhenda þeim nál., sem ríkislaunuð n. hafði gert. Þetta plagg fékkst ekki fyrr en seint og síðar meir. Nú bætir hæstv. forsrh. gráu ofan á svart með því að boða, að seint á þessu þingi, þegar búið er að tefja málið með öllum hugsanlegum ráðum, þá verði komið með stóran lagabálk um skipti húseigenda og leigjenda, þar sem hnýtt er aftan í þessi skemmtilegu ákvæði ýmsum viðbótum, sem eiga að verða eins lengi og mönnum þóknast. Hæstv. forsrh. skal fá að vita það, að það, sem var gert vegna togaramannanna, verður gert nú. Það er ekki hægt að halda í ranglætið lengur né brosa að því. Það skiptir engu, hvort það er forsrh. sjálfur eða aðrir gildir þm., sem í hlut eiga. Réttlætismálið verður að hafa sinn framgang. Það var ekki hægt að halda togaramönnunum lengur í þrældómi en gert var, og það verður ekki hægt að halda þessu ranglæti við lengur, vegna þess að þeir, sem fyrir ranglætinu verða, ætla ekki að þola það lengur, þeir ætla að láta þá, sem fyrir þessu máli standa, vita, hvað þeir vilja.

Ég ætla að fara fáum orðum um það í þessu sambandi, sem mér finnst undarlegast við afstöðu hv. 1. þm. Árn. í þessu máli, sem kemur fram með till., sem er sama og að eyðileggja málið, ef hún verður samþ. Hann byrjaði sína þingmannstíð með því að berjast fyrir góðu málefni, þó að hann væri þá í minni hluta. Ég vil benda á, að hann er þm. fyrir sveitakjördæmi, og fleiri þm., sem hér eru inni, eru þm. fyrir bæði sveita- og bæjakjördæmi og þar á meðal hv. þm. Ísaf. Það er óhollur straumur úr öllum þessum héruðum og bæjum til Reykjavíkur, og fyrirsjáanleg hætta stafar af honum fyrir þjóðina og þessa staði. Mér er sagt, að við Ísafjarðardjúp sé þetta þannig, að fyrst flytji fólkið úr Sléttufirði til Ísafjarðar, en stöðvist ekki þar, heldur flytji þaðan til Reykjavíkur. Af hverju? Af því að í Reykjavík er ákaflega gott fólk, og þar á að byggja yfir alla menn, sem í bæinn koma. Borgarstjórinn í Reykjavík og hans fyrirrennarar vilja stjórna þessu svona. Nú vil ég spyrja hv. þm. Ísaf. og hv. 1. þm. Árn. um það, hvort þeir séu sannfærðir um, að það væri höfuðólán, þó að einstaka maður í Reykjavík kæmist að því, að það mætti flytja í tómu húsin við Ísafjarðardjúp eða í tómu bæina í Árnessýslu. Ég held, að það sé bara misgáningur hjá þessum mönnum, að þeir hafa hugsað sér, að allt þyrfti að gera til þess, að sú seinasta manneskja, sem í sveitinni er, komi í þennan bæ. Nú vita allir það, sem eitthvað hugsa, að Reykjavík er stærri að tiltölu við þjóðarlíkamann en nokkur annar sambærilegur bær í veröldinni. Aðalframleiðslutæki þessa bæjar liggja bundin við bryggju og eru búin að vera það aðalpart vertíðarinnar, þegar auðurinn á að berast í land í Reykjavík. Hvernig stendur á þessu? Það er af því, að fólkið, sem er gott fólk, eins og við erum öll, getur ekki komið sér saman um það, hvernig eigi að skipta arðinum. Ef við færum vestur að Djúpi eða austur í Árnessýslu, þá kemur þetta aldrei fyrir þar. Ef bændurnir væru spurðir um, hvort þeir vildu ekki gera „stræk“ í sambandi við mjólkursöluna, mundu þeir segja, að það dytti þeim ekki í hug; það væri enginn vandi að skipta því, sem fyrir mjólkina fengist. Þeir eru búnir að finna eðlilegan grundvöll fyrir slíku. En í Reykjavík, þessum sælustað, sem allir eiga að flytja í, stendur þannig á, að 1/12 hluta ársins liggja atvinnutæki lands og bæjar bundin við bryggju. Fólkið í þessum bæ er ekkert heimskara en annað fólk, en hérna er bara óleyst spursmál. Fólkið, sem kemur hingað, kemur inn í sérstakt stríðsástand þessara tíma. Fólkið fær ekki að vinna, af því að það kann ekki að skipta gæðunum. Hver einasta manneskja, sem hugsar alvarlega um þetta mál, ætti að standa með manninum, sem hélt því fram, að mynda þyrfti félag í Reykjavík til að nema landið úti á landinu. Sú till. er miklu viturlegri en till., sem hæstv. forsrh. stendur að með aðgerðum sínum í þessu máli, sem hér liggur fyrir. En þetta hefur þeim háu herrum ekki þóknazt. Þeir skilja ekki, að það er stórt mál að reyna með góðu, eða illu stundum, að stuðla að því, að fólkið setjist ekki allt að á þessum marbakka. Hvað liggur nú fyrir þessum 55 þús. manns, sem búa hér í Reykjavík? Fjmrh. á að borga öllum, sem stunda hvers konar atvinnu hér á landi, nema þeim, sem vinna við togarana. Hvar á hann að fá peninga? Ég hugsa, að þetta verði erfitt fyrir ráðh. og að hann vildi gjarna, að breytt yrði til. Hvort halda menn, að sé dýrara, að fæða fjölskyldu hér á mölinni eða vestur í Sléttuhreppi, sem er að fara í eyði undir verndarvæng hv. þm. Ísaf., þó að hann sé ekki valdur að því. Ég held, að mikill munur sé þar á, þar sem allt þarf að kaupa hér, en í sveitum framleiða menn vörur, sem þeir lifa á. Ég hygg, að hv. þm. Ísaf. hafi verið aðalmaðurinn í því að koma með till. til að koma því í l. að aðstoða fólkið í kaupstöðunum við að byggja. Það er gott og blessað. L. hafa ekki verið framkvæmd. Ekkert er til þess, hvorki peningar né efni. Svona eru menn að leika sér með hlutina í staðinn fyrir að hjálpa fólkinu til þess að komast frá kaupstöðunum.

Ég kem þá að því atriði, hvort til þess sé alveg gífurleg nauðsyn að halda því fólki í þrældómi. sem á gömlu húsin í þessum bæ. Hvað sjáum við í úthverfum bæjarins? Við sjáum Hlíðarnar og Skjólin, og á Laugarnesinu og í Kleppsholtinu rísa upp á stuttum tíma bæir, sem eru eins stórir og Akureyri. Af hverju á þetta fólk að lifa? Togararnir eru ekki fleiri en þeir voru fyrir stríð og engin atvinna, nema telja eigi Hæring og verksmiðjuna í Örfirisey. Það, sem hefur gerzt, er þetta. Það er búið að setja stríðsgróðann fastan í milljónabyggingum. Borgarstjórinn brosir, en ég get sagt honum, að það eru ekki einu sinni millj., heldur milljarðar, sem settir hafa verið í stríðsgróðabyggingar. Fólkið, sem hefur byggt þessi hús, er algerlega laust við húsaleigulögin. Vita menn, hvernig ástandið er með réttlætið í þessum nýju húsum? Það dettur engum, sem á þau, í hug að leigja íbúð nema með tvöföldum samningi. Ef t. d. hv. þm. Ísaf. kæmi hér í bæinn í fyrsta skipti og kæmi til mín, ef ég væri búinn að byggja höll, og bæði mig um húsnæði, þá mundi ég leigja honum húsnæði og segja: „Við skulum bera samninginn undir húsaleigunefnd, en þú leggur 30 þús. kr. á borðið fyrir utan samninginn. Svo fellur niður húsaleiga í tvö ár.“ Svona gengur þetta til hér, nema hjá gömlu húseigendunum, sem eiga timburhúsin: Þeir hafa komið sér upp litlum húsum og ætlað að vera frjálsir að því. Það logar allt í ranglæti í þessum efnum. Hvorki hæstv. forsrh. né aðrir með hans hugsunarhátt skipta sér neitt af því. Þessir húseigendur geta engu ráðið um hús sín; ekki burtflutningi fólks úr þeim, hvernig sem á stendur. Ég ætla að fara nokkrum orðum um það, hvernig ástandið er í þessum húsum, sem hæstv. forsrh., sem nú er, setti húsaleigulögin á fyrir 8 árum. Fólkið, sem sat í þessum húsum með lauslegum samningum, þegar húsaleigulögin skullu á, er í þessum húsum enn. Það gerist margt á langri leið. Sums staðar hefur verið svo ástatt, að tvær eða fleiri konur hafa verið í eldhúsi saman. Í langflestum tilfellum skapar slík sambúð hatur á milli fólks, svo að það langar ekki til neins meir en að mega skilja, þurfa ekki að vera stundinni lengur við slíkan ófögnuð. Mér er kunnugt um eitt dæmi. Það var skapill húsfreyja, sem í hlut átti, sem var leigjandi í húsi, en sat föst. Hún gerði slík óþægindi og ólæti, að engu tali tók, þegar bóndi hennar var farinn í burtu, til þess að reyna að hrekja húsfreyjuna, sem átti húsið, í burtu. Þegar fjölskyldur hafa verið hlekkjaðar þannig saman í mörg ár, er alveg ómögulegt, að vel geti farið. Hverjum einasta manni, sem greitt getur atkv. með þessum nauðungarhúsaleigul., hlýtur að vera mjög áfátt um skilning á mannlegu eðli, og mér finnst líka, að hver einasti maður, sem reyndi að skilja, hvílík bölvun það er fyrir fólk að vera fjötrað saman á þennan hátt, mundi vilja ljá sitt lið til að afnema þau l., sem skapa þetta ástand.

Hvers vegna óskuðum við Íslendingar þess að fá aðra aðstöðu, en við höfðum árið 1836, á dögum Friðriks konungs VI.? Það var vegna þess, að við þoldum ekki ófrelsið, verzlunarófrelsið, andlegt ófrelsi og pólitíska kúgun. Það tók hvorki meira né minna en tímabilið frá 1836 til 1944 að ná því takmarki að losna við þá hlekki. Við getum lesið kvæðið „Strandsigling“ eftir Einar Benediktsson, sem er táknrænt fyrir hinn danska hroka og beygðan Íslending, sem er hrakinn frá strengjunum af hinum danska dóna. Skáldið er fullt af sársauka yfir því, sem Íslendingurinn verður að þola sem undirmaður þess danska. Við skilnaðinn við Dani unnum við á fáum árum meiri manndóm, en á mörgum öldum áður. Það er engin von til þess, — að húmbúgtill. eða húmbúgfrv. hafi nokkra þýðingu í þessu máli, og þær eiga ekki við. Þegar íslenzkir þm. voru konungkjörnir, þá voru þeir með miðlunartill. milli Íslendinga og Dana, sem voru eins og til að breiða yfir ranglætið, eins og hv. þm. Árn. er með nú. Þeir konungkjörnu voru varla almennilegir Íslendingar, og menn voru fegnir, þegar þessi stofnun var afnumin. Þetta voru víst beztu menn, en tóku að sér leiðinlegt hlutverk.

Hæstv. forsrh., sem raunverulega ber mesta ábyrgð á þessu máli, vegna þess að hann stóð að l. upphaflega, ætti að vita, þó að hann hafi sýnt skilningsleysi við að leysa þetta mál, að hér er um nokkurn hluta Reykvíkinga að ræða, minni hluta að vísu, sem betur fer, sem verður fyrir þessu ranglæti og telur þetta ástand, sem hefur verið í þessum málum, óþolandi kúgun. Hvað á þetta fólk að gera annað en að kveina? Orðbragðið sem hv. þm. Ísaf. var að tala um, að hefði verið í bréfi frá húseigendum, var bara saklaus byrjun. Þessir menn hljóta að bera fram miklu harðari röksemdir, og ég lái þeim það ekki. ¼ hluti Reykvíkinga lifir, hvað þessi húsnæðismál snertir, eins og skepnur. Börnin verða að lifa við það, að foreldrar þeirra hatast, og þetta fólk, sem verður að búa svona nauðugt í sambýli, gerir hvað öðru allt til bölvunar, sem það getur. Það var leikið hér í Reykjavík gott leikrit, sem hét Leynimelur 13, sem kom fram, þegar þessi deild var búin að samþ. frv. um húsaleigu. Þegar það frv. kom til Ed., rérum við á móti því, hæstv. dómsmrh., sem nú er, og ég, og okkur tókst að stöðva málið, svo að frv. varð aldrei að l. Í sambandi við þær umr. þá var það, að eitthvert skáld samdi þetta leikrit og tók að sér að lýsa, hvernig ástandið yrði í Reykjavík, þegar slík l. kæmu í framkvæmd. Leikurinn gerðist í þokkalegu húsi. Í húsinu var forstofa, sem búið var að setja upp þvottasnúrur í, og konan þurfti að hengja upp þvott þar. Í húsinu hafði fundizt málverk eftir Kjarval. Nýi leigjandinn tók svo málverkið og bar fram kaffið á því. Þessar röksemdir voru skáldlegri en raunveruleikinn, en leikritið hafði þau áhrif, að menn skömmuðust sín fyrir að samþ. svona l.

Ég er ekki eins trúaður á það og sumir landar mínir, að við Íslendingar séum komnir af konungum. En við vitum, að forfeður okkar unnu frelsinu, og ástæðan til þess, að þeir fóru hingað, var, að þeir vildu ekki þola áþján. Þeir komu hingað og bjuggu til þjóðfélag, þar sem frelsið, eins og þeir skildu það, fékk rýmri farveg en þeir áður höfðu lifað við og þar sem frelsið var meira en þekktist annars staðar í Evrópu. Við vitum, að ástæðan til þess, að þeir komu hingað, var ást á frelsi og óbeit á kúgun, og þeir gerðu sína stjórnarskrá eingöngu til þess að vera á móti kúgun Hver skyldi fá okkur, til að bregðast þessu? Áttum við að segja við hæstv. forsrh., sem býr í góðu húsi vestur í bæ: „Við vitum, að það er herbergi í kjallaranum í húsi þínu, sem þú þarft ekki að nota fyrir geymslu. Nú er kominn hér bóndi austan úr Árnessýslu, sem vantar herbergi. Hann vildi heldur vera í Reykjavík, því að hann hélt, að borgarstjórinn mundi byggja yfir sig. Það er rétt fyrst, sem þarf að skjóta honum inn í kjallarann hjá forsrh.? Það getur vel verið, að forsrh. gerði þetta. En það virðist sem hæstv. forsrh. og hans stuðningsmenn í þessu máli séu ekki klárir á, hvar takmörkin eru. Það getur vel verið, að takmörkin fari að koma óþægilega nærri þeim, ef ófrelsið heldur áfram. Það þarf að koma í ljós, hvers vegna Alþ. vill viðhalda þessari kúgun og þessu siðleysi, því að það er algert siðleysi í þessum l. með öllu, sem þeim fylgir. Þess vegna er það, að hér þýðir ekkert að tala um málamiðlunartill. Það væri eins og að við, sem studdum hv. 1. þm. Árn., þegar hann var að berjast fyrir því að sjómennirnir fengju að sofa 6 klst. á sólarhring; hefðum stungið upp á, hvort þeir gætu ekki sofið 1½ klst. eða 2 tíma og 10 mín. Deilan var um það, að annaðhvort voru þeir frjálsir menn eða þrælar, þangað til réttarbót fékkst. Ég sé ekki ástæðu til þess að tala um smáatriði í þessu sambandi. Það er bezt að ræða málið á þeim grundvelli, hvort við ætlum að halda við kúguninni eða ekki. Það mætti spyrja um það, hvort sveitaþingmennina langar svo skelfing mikið til þess að sjá síðasta kjósandann sinn koma hingað til Reykjavíkur, og hvort borgarstjórinn hér vill endilega fá síðasta kjósandann úr Árnesþingi til Reykjavíkur. Það væri rökrétt afleiðing af þessu, að meiri hluti bænda úr Árnesþingi ströffuðu hv. 1. þm. Árn. með því að koma og segja: Þú ert að hjálpa til þess, að borgarstjórinn byggi. Nú erum við komnir hingað, en þú skalt bara fara austur í Kaldaðarnes, og hafðu það bara gott þar.