17.03.1949
Neðri deild: 82. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í C-deild Alþingistíðinda. (3332)

88. mál, húsaleiga

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. þm. Ísaf. sá ástæðu til þess að fara nokkrum orðum um það, sem ég hafði sagt um húsnæðismálin og pólitík hæstv. ríkisstj. í sambandi við þau og hvernig ríkisstj., og þá sérstaklega forusta hennar, Alþfl., sem hafði lofað, þegar hún tók við völdum, að útrýma húsnæðisskortinum og heilsuspillandi íbúðum, hefur brotið algerlega í bága við þessi loforð og efndirnar orðið þveröfugar. Hæstv. ráðh. hafa nú sjálfir ekki reynt að svara þessum ásökunum, sem á þá hafa verið bornar fyrir það að vera valdir að því háttalagi, sem nú ríkir í húsnæðismálunum, en hv. þm. Ísaf. sá ástæðu til þess að fara að bera nokkurt blak af ríkisstj. Hann byrjaði með því að segja, að ég hefði sagt, að l. um útrýmingu heilsuspillandi íbúða hefðu verið afnumin. Það sagði ég ekki, en ég tók fram, hvernig þau hefðu verið afnumin í reyndinni, það hefði verið frestað framkvæmd þessara l. með bandorminum, og ég lagði áherzlu á það, að þessi hv. d. hefði samþ. þá frestun og þar með í reyndinni afnumið l. sem stendur hvað framkvæmdina snertir. Hv. þm. Ísaf. vildi leggja áherzlu á, að þetta væri allt annað, en að afnema l., og það er vissulega svo, því að l. eru til á pappírnum, en hafa ekkert gildi. Þá benti hv. þm. enn fremur á það, að við gætum breytt þessu með einfaldri aðferð, þm. Sósfl., við þyrftum ekki annað en að koma fram með brtt. við fjárl. um, að veitt yrði fé til þessara framkvæmda. Við þurfum ekki að sækja þessa vitneskju til hv. þm. Ísaf., því að slíka till. fluttum við, þm. Sósfl., við 17. gr., 25. lið fjárl. í fyrra, um framlag til íbúðarhúsbygginga samkvæmt l. frá 1946, — brtt. um 1 millj. kr. til þess, og ef það hefði verið samþ., þá hefðu l. komið í gildi hvað þetta snertir. Hvað gerðist svo? Það gerðist það, að hv. þm. Ísaf. lagði því lið ásamt fleiri þm. stjórnarfl. að drepa þetta mál. Hann var á móti þessu einfalda ráði til að koma l. í framkvæmd, og hann hjálpaði til þess að eyðileggja möguleikana til þess, að bæjarstjórnir gætu unnið að því að útrýma heilsuspillandi íbúðum. Ef til vill hefur hv. þm. Ísaf. alls ekki áttað sig á því, hvað var verið að gera í fyrra, þegar þessi till. var felld. Ég býst við, að við reynum að koma aftur fram með slíka till., þó að stjórnarliðið felldi hana í fyrra, og ef til vill fær þá hv. þm. Ísaf. aftur tækifæri til að sýna sinn hug um framkvæmd þessara l. Fram að þessu hefur afstaða hans verið sú, fyrst að fresta framkvæmd l. og síðan að eyðileggja brtt. við fjárl. til að koma þeim í framkvæmd aftur.

Þá fór hv. þm. Ísaf. að tala um það, að ég segði, að það væru bannaðar allar íbúðarhúsbyggingar. Mér skildist hv. þm. segja þetta, en vildi þó draga í efa, að hann hefði haldið þessu fram. Hins vegar sé ég, að Morgunblaðið hefur tekið þetta upp og segir, að ég hafi sagt í fyrra, að bannaðar væru allar íbúðarhúsbyggingar í landinu. Þarna ætti ekki að vera þörf á að snúa út úr, því að mönnum er kunnugt og það er viðurkennt af hálfu stjórnarflokkanna, að í gildi eru l., sem banna mönnum að byggja íbúðarhús án þess að fá leyfi sérstakra stjórnvalda í Reykjavík. Það er það, sem ég sagði, og fjárhagsráð notar þau l. til að banna mönnum að byggja mjög mikið af þeim íbúðarhúsbyggingum, sem annars gætu komizt upp. Ég vil vekja eftirtekt á frásögn Morgunblaðsins, vegna þess að það er dálítið táknrænt, þegar málflutningurinn og það, sem menn segja, er þannig, að algerlega er ranghverft, frá því það er sagt við Austurvöll og þangað til það er komið í Austurstræti, og er þá ekki undarlegt, þó að í slíku blaði eins og Morgunblaðinu skolist eitthvað til um fréttir, t. d. frá ríkjum í Austur-Evrópu og til Austurstrætis. Hv. þm. Ísaf. lýsti því yfir, að fjárhagsráð hefði leyft allar íbúðarhúsbyggingar, sem sótt hefði verið um utan Reykjavíkur, og skoraði á mig að tilnefna dæmi um það, að það hefði verið neitað slíkum íbúðarhúsbyggingum og hans ágæta blað (nú orðið), Morgunblaðið, var ekki lengi að taka þetta eftir honum og sagði, að mér hefði orðið svarafátt við aðra eins ásökun eins og þessa hjá hv. þm. Ísaf., og það var eðlilegt, því að ég komst ekki að, að svara. Það fyrsta, sem ég gerði, þegar ég gekk út úr d., var að spyrja einn af alþm. utan af landi, hvernig þetta væri í hans kaupstað. Þetta var hv. 2. þm. S-M. Hann tjáði mér, að frá Neskaupstað hefði verið sótt um fjárfestingarleyfi af byggingarsamvinnufélaginu þar, en það hefði fengið neitun á öllum íbúðum. Ég vil þess vegna til að byrja með láta þetta dæmi nægja og vita, hvað hv. þm. Ísaf. segir um það. Það væri svo ef til vill, ef farið væri að athuga víðar, hægt að upplýsa hann um fleiri dæmi um, að íbúðarhúsbyggingum hafi verið neitað. Það var ekki nóg með, að fjárhagsráð neitaði mönnum um leyfi. Nú stóð svo á, að samvinnubyggingarfélagið á þessum stað hafði möguleika til að byggja, ef það hefði fengið leyfi, af því að það er víða þannig, að það eru heldur betur efnum búnir menn, sem standa að samvinnubyggingunum, heldur en verkamannabústöðunum. Hins vegar er það þannig í þessum kaupstað, að fyrir verkamannabústaðina var sótt um leyfi og fjárfestingarleyfi fékkst, en þegar kom til hinnar handarinnar, bankans, sem skaffar fé til byggingar verkamannabústaða, þá var það ekki til, þannig að með annarri hendinni sá fjárhagsráð um að hindra byggingar hjá samvinnubyggingarfélaginu á þessum stað, en hins vegar þær byggingar, sem fjárhagsráð leyfði, verkamannabústaðina, sá bankavaldið um að hindra, að hægt væri að fá peninga til bygginganna. Svona hjálpast núverandi stjórnarvöld með þessum tveimur aðferðum, fjárhagsráði og bankavaldinu, að því að koma í veg fyrir byggingar hjá landsmönnum.

Svo fór hv. þm. Ísaf. að breiða sig mjög mikið út um það, hve skynsamleg stjórn það hefði verið, sem fjárhagsráð hefði haft í frammi í húsnæðismálunum, og vitnaði þar alveg sérstaklega í álit, sem einn af hagfræðingum fjárhagsráðs, og einn af þeim fáu hagfræðingum, sem eru í Sósfl., hefur tekið þátt í að semja, sem sé Jónas Haralz, og lagði áherzlu á, hvað þessi skýrsla, sem hefur verið send þm., gæfi rétta hugmynd um, hvað skynsamlegar þær ráðstafanir hefðu verið, sem fjárhagsráð hefði gert í húsnæðismálunum. Það er þess vegna ekkert að því, að við athugum ofur lítið þessar ráðstafanir fjárhagsráðs, hvernig það skýrir sjálft frá um þessa hluti og á hvern hátt þetta ráð, sem hefur æðstu stjórn og framkvæmdir í atvinnumálum okkar, hefur skipulagt það, að mönnum væri mögulegt að útrýma íbúðaskortinum og heilsuspillandi íbúðum samkvæmt stefnuskrá ríkisstj. Því hefur hins vegar verið þannig varið um þessar ráðstafanir fjárhagsráðs, að þar hefur allt gengið í ólestri. Það hefur ekki farið saman að tryggja mönnum fjárfestingarleyfi og innflutning á byggingarefni, og það hefur verið ósamræmi á milli þessa hvors tveggja og lánveitinga af hálfu bankavaldsins. Skal ég nú koma inn á þessa skýrslu til staðfestingar þeim dómi, sem ég með þessu er að kveða upp. Hv. þm. Ísaf. sagði, að fjárhagsráð hefði verið að vinna að því að tryggja mönnum efni og það hefði verið tilgangurinn með þessari haftastarfsemi í húsbyggingarmálum að tryggja mönnum efni í húsin. Hér segir í skýrslunni frá fjárhagsráði, á blaðsiðu 25, um þetta, þegar búið er að rekja nokkuð fjárfestingaráætlunina og gjaldeyris- og innflutningsleyfin, með leyfi hæstv. forseta: „Það, að gjaldeyris- og innflutningsleyfi í þessum vöruflokkum eru síðan veitt hægar og seinna en nauðsynlegt hefði verið, er bæði að kenna hinum erfiðu gjaldeyrisaðstæðum og eins því, að framkvæmd þessara leyfisveitinga var ekki í nægum tengslum við framkvæmd fjárfestingarleyfisveitinga og skömmtun byggingarvöru. Afleiðingin af þessu öll saman hefur verið sú, að um stöðugan skort hefur verið að ræða á flestum byggingarvörum. Skömmtuðum byggingarvörum, eins og sementi og steypustyrktarjárni, hefur verið úthlutað jafnóðum og þær komu til landsins, og síðan hefur verið efnislaust þangað til næstu farmar komu. Mikil óvissa hefur einnig oft verið ríkjandi um væntanlegan innflutning næstu vikur. Af þessu hafa miklir erfiðleikar hlotizt við allar framkvæmdir. Ekki aðeins húsbyggingum, heldur þýðingarmiklum framkvæmdum, eins og hafnarbyggingum, síldarverksmiðjubyggingum o. s. frv., hefur stöðugt verið hætt við stöðvun vegna efnisskorts, og til stöðvunar og tafa hefur einnig komið, jafnvel þótt reynt hafi verið að láta slíkar þýðingarmiklar framkvæmdir ganga fyrir um efni. Oft og tíðum geta slíkar tafir ekki aðeins valdið auknum kostnaði og erfiðleikum, heldur stórtjóni, ef eitthvað ber út a. Á flestum þeim vörum, sem ekki eru háðar skömmtun, hefur verið mikill og almennur skortur.“ Þetta er lítill partur af þeim dómi, sem þessi hagfræðingur kveður upp yfir skipulagi og skipulagshæfileikum fjárhagsráðs í því að tryggja mönnum efni til bygginga. M. ö. o., það hefur ekkert samræmi verið í ráðstöfunum fjárhagsráðs frá fjárfestingarleyfum til útvegunar á efni og útvegunar á lánum og fjármagni til byggingarstarfseminnar. Hins vegar er fjárhagsráð í upphafi þannig byggt upp, að það er alveg einrátt yfir þessum hlutum. Viðskiptanefnd, sem úthlutar leyfum, er deild úr fjárhagsráði og ekki sjálfstæður aðili og ræður því engu sjálf, en verður að taka við skipunum af fjárhagsráði í samráði við ríkisstj., hún heyrir því undir fjárhagsráð að öllu leyti og starfar á þess ábyrgð. Skömmtunarskrifstofan er einnig deild úr þessu bákni, því að l. eru frá upphafi þannig, að þetta er ein stofnun með mismunandi deildum. Svo er meira að segja í þessari skýrslu verið að kvarta yfir því, að ekki sé nægilegt samband og samræmi á milli lánveitinga, fjárfestingarleyfa og skömmtunar á byggingarefni. — Þá skulum við athuga nánar þann þátt í þessu, sem snertir fjárfestingarleyfin. Ég minntist á það í minni fyrri ræðu um þetta mál, að víða úti um landið mundi fátæktin hafa verið nægilegt bann við byggingum og væri óþarfi að vera að banna mönnum þessar byggingar og gera þeim þetta svona erfitt að sækja til Reykjavíkur um þetta og fá svo seint svör, það hefði verið nóg að eyðileggja byggingarmöguleika í landinu í stórum stíl. Hv. þm. Ísaf. viðurkenndi þetta að nokkru leyti og sagði, að vegna fjárhagserfiðleika innanlands hefði ekki verið byggt allt, sem leyft var, og bætti síðan við: „Það liggur ekki í valdi fjárhagsráðs.“

Fjárhagsráð er sett til þess að hafa vald yfir allri fjárfestingu í landinu, það er fjárfestingarráð og ræður því, í hvað fjármagnið á Íslandi er sett, og það er engin afsökun fyrir ríkisstj., ef þetta fjárhagsráð stjórnar ekki fjárfestingarstarfsemi bankanna. Þegar l. um fjárhagsráð voru sett 1947, þá benti ég á það við umr. í þessari d., að það væri til einskis að ætla að koma svona skipulagi á fjárfestingu landsmanna, svo framarlega sem þetta ráð hefði ekki vald yfir fjárfestingarstarfsemi bankanna, og ég flutti brtt. við 2. umr. við l. um fjárhagsráð, þar sem bæta skyldi inn í l., að þegar fjárhagsráð semdi sína áætlun um fjárfestingar, þá skyldi bönkunum skylt að framkvæma þær. Stjórnarflokkarnir felldu þessa brtt., felldu hana til þess að geta viðhaldið þeim skollaleik að setja upp eitt stórt og voldugt ráð hér í Reykjavík og látið það gefa út leyfi fyrir hinu og þessu og látið síðan bankana geta komið á eftir og sagt nei, þegar ætti að fara að framkvæma þessa hluti, sem fjárhagsráð leyfði. Það var ekkert nema skollaleikur að skapa fjárhagsráð, sem hefur ekkert vald yfir fjárfestingunni. Fjárfestingarvaldið liggur hjá bönkunum fyrst og fremst, og að ætla sér að skapa fjárhagsráð, en gera ekki um leið skuldbindandi ráðstafanir um, að bönkunum sé skylt að fara eftir því, sem fjárhagsráð segir, það er blekking við fólkið, og á grundvelli þessarar blekkingar hefur verið starfað í 2 ár. Þegar fjárhagsráð er búið að gera ráðstafanir til að leyfa svo og svo mikið af byggingum í landinu og við skulum segja, til að ætla því allt það bezta, að gera fjárfestingaráætlun út frá því sjónarmiði, að það væri mátulegt til þess að sjá um góða afkomu manna hvað atvinnu snertir, — þegar fjárhagsráð er búið að gera svona ráðstafanir, þá þarf um leið að vera ákveðið, að bankarnir að sínu leyti sjái um að framfylgja þessari áætlun. Svo framarlega sem fjárhagsráð veit ekki, að þetta muni verða gert, þá er það að blekkja þessa menn, sem fá fjárfestingarleyfi, og gera bankavaldinu mögulegt að neita þessum mönnum eftir á um fjármagn, sem þeir þurfa, og þá um leið að gera ráðstafanir til þess, að þessar byggingar verði ekki framkvæmdar, og ef reiknað er með því að skapa með þessu fulla atvinnu, þá er verið að gera ráðstafanir til þess að skapa atvinnuleysi. Það er engin afsökun til fyrir því, að fjárhagsráð taki ekki í sínar hendur valdið yfir bönkunum. Það er óhugsandi að stjórna fjárfestingu á Íslandi án þess að hafa það vald. Ég veit, að það er mikið að eiga að stjórna þessu, og það veit hv. þm. Ísaf. líka. Hann kynntist því sjálfur í þeirri ríkisstj., sem hann átti sæti í, hvað varð að taka hart á til þess að beygja bankavaldið til þess að framkvæma þá fjárfestingaráætlun, sem ríkið þá gerði um fjárfestingu í nýsköpunartogarana og önnur tæki, sem þá voru keypt til sjávarútvegsins. En lærdómurinn frá þeim tíma ætti að sýna, að það er ekki til neins að skapa svona ráð án þess að hafa ráð yfir þeim stofnunum, sem eiga að framkvæma fjárfestinguna, bönkunum, og þetta ætti að vera því hægara sem bankinn er ríkisbanki. Þess vegna er það ósvífni af hálfu ríkisvaldsins í einu landi, sem lýsir yfir, að það ætli að koma á áætlunarbúskap, að samþykkja með einni hendinni, fjárhagsráði, að það skuli gera þessa og þessa hluti, en neita með hinni hendinni, ríkisbönkunum, að þessir hlutir skuli gerðir. Með því að framkvæma fjárhagsáætlun á þennan hátt og vinna svona að því, þá er verið að skapa glundroða, en ekki áætlunarbúskap, og það viðurkenndi líka raunverulega hv. þm. Ísaf. með því að tala um, að vegna fjárhagsvandræða hefði ekki verið byggt það, sem leyft var, og það er líka staðfest hjá hagfræðingunum, sem hafa útbúið þessa álitsgerð um fjárfestingarmálin. Þar segir m. a. á blaðsíðu 26, með leyti hæstv. forseta:

„Af þessum sökum er því fullvíst, að þær fjárfestingarfyrirætlanir, sem gert er ráð fyrir í áætluninni, um 327 millj. króna, komast engan veginn til framkvæmda á árinu. Hve há hin endanlega upphæð getur orðið, er ómögulegt að segja, en lausleg áætlun gefur til kynna, að hún geti varla orðið miklu hærri en 230–250 millj. kr., eða um 70–75% áætlunarinnar.“ Ég hef sérstaklega komið inn á þetta vegna þess, að raunverulega verður það aldrei of oft tekið fram, hvernig allar raunverulegar framkvæmdir, sem snerta fjármál þjóðfélagsins, eru komnar undir því, hvers konar bankapólitík er rekin. Ef það er ekki skapað samræmi á milli þeirrar bankapólitíkur, sem ríkisbankinn rekur, og þeirrar pólitíkur, sem ríkisstj. og Alþ. og þau ráð, sem þær stofnanir setja til að fá sinn vilja fram, setja, þá verður úr þessu slíkur glundroði og óstjórn á þessum hlutum sem við höfum upplifað þessi síðustu 2 ár.

Þá kemur í þessari álitsgerð, sem hv. þm. Ísaf. var að vitna í, nokkuð inn á það, hvernig starfsemin hefur verið hjá fjárhagsráði viðvíkjandi því að hafa samræmi í þeim áætlunum, sem fjárhagsráð samdi og átti að sjá um að láta framkvæma. Einn dómurinn hjá þessum hagfræðingum yfir stjórnarfarinu hjá fjárhagsráði er um það, hvernig það hefur samræmi í sínum fjárfestingaráætlunum annars vegar og innflutningsáætluninni hins vegar. Þetta er á blaðsíðu 27, og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Misræmi hefur verið milli fjárfestingaráætlunarinnar og innflutningsáætlunarinnar, þannig að hin fyrri hefur verið of há í samanburði við hina síðari. Þetta er í rauninni aðeins ein hlið á því misræmi, sem um getur í 1. lið. Vegna hinnar miklu eftirspurnar eftir neyzluvörum hafa innflutningsyfirvöldin ekki treyst sér til að lækka neyzluvöruinnflutninginn eins mikið og fjárfestingaráætlunin hefur krafizt. Þetta hefur leitt til stöðugrar vöruþurrðar á fjárfestingarvörum og mikillar afkastarýrnunar í þessari starfsemi og til þess, að fjárfestingarfyrirætlanirnar hafa að verulegu leyti ekki komizt í framkvæmd.“ Þarna er í þessum dómi talað um innflutningsyfirvöld eins og það væri einhver annar aðili en fjárhagsráð. Innflutningsyfirvöldin er fjárhagsráð. Það er fjárhagsráð, sem semur innflutningsáætlunina, og það er fjárhagsráð, sem skipar viðskiptanefnd, sem er innflutningsdeild fjárhagsráðs, til að framkvæma innflutningsáætlun þess. Það er ekki til að koma fram með þá afsökun, að viðskiptanefnd hagi sér öðruvísi en í samræmi við fjárhagsráð, nema menn vilji segja að vinstri höndin viti ekki, hvað sú hægri gerir. Að skjóta sér þess vegna undir innflutningsyfirvöldin, — að þau treysti sér ekki til að gera þetta og þetta, er sama sem að segja, að fjárhagsráð, þegar það er búið að semja sína áætlun, treysti sér ekki til að framkvæma hana. Þetta sýnir, að fjárhagsráð hefur enga stjórn á þessum málum. Það semur áætlun án þess að gera sér ljóst hlutfallið milli innflutnings á neyzluvörum og fjárfestingarvörum. Það treystir sér svo ekki til að framkvæma þessa áætlun og sleppir beizlinu fram af öllu saman. Það er auðséð, hversu mildilega er reynt af hagfræðingunum að dæma um gerðir fjárhagsráðs, þar sem þeir segja, að fjárhagsráð hafi ekki treyst sér til að samræma innflutnings- og fjárfestingarleyfin. Sem sé, það hefur ekki treyst sér til þess að stjórna viðskiptamálunum í landinu. Það hefur samið áætlun og gefið út leyfi, en treystir sér svo ekki til að framkvæma sína áætlun. M. ö. a., það er skapað hreint öngþveiti með ákvörðunum fjárhagsráðs. Þetta er ein myndin af þeirri algeru óstjórn, sem er á fjármálum landsins undir stjórn þessara hv. fjárhagsráðsmanna. — Þá er enn fremur vitanlegt, að því er snertir byggingarefnisskömmtunina, að sú skömmtun er framkvæmd með því undarlega móti, sem líka er verk fjárhagsráðs, að skömmtunin er framkvæmd á sementi, timbri og á steypustyrktarjárni. Hins vegar er hún ekki framkvæmd á ýmsum öðrum hlutum, sem til bygginga þarf að hafa, svo sem rafmagnsefni, pípum, þakefni, pappa, dúkum, og öðru slíku. Afleiðingin af þessu er sú, að þetta lendir misjafnt til manna, miðað við þarfir, og á svörtum markaði. Hvar er skipulagningin á þessum hlutum? Við sósíalistar álitum eftir þeirri reynslu, sem við höfum af þessum málum, að ef ætti að koma á skynsamlegri fjárfestingu hér á landi og reka áætlunarbúskap, þá ætti ríkið að taka innflutning á byggingarefni í sínar hendur. Og ég á bágt með að trúa, að nokkur maður, sem með vakandi ábyrgðartilfinningu hugsar um þessi mál, hvernig stjórnin á þessum málum er í okkar þjóðfélagi, geti staðhæft, að fjárhagsráð hafi starfað af viti að þessum málum. Allar till. okkar sósíalista í þessum efnum voru drepnar fyrir tveimur árum. Síðan er með rándýru nefndafargani skapað öngþveiti, sem beinlínis skapar svartan markað, með því að sleppt er svo og svo miklu af þessum hlutum undan skömmtun, og með því er mönnum gert erfiðara fyrir með að ná í þá.

Þá sagði hv. þm. Ísaf., að fjárfestingaráætlunin til bygginga hefði verið of há, og benti hann mér á bls. 22 í áliti hagfræðinganna. Og ég las á þeirri bls. og gat hvergi fundið þessi orð: „of há“. Hins vegar skal ég lesa það af þessari blaðsíðu, sem ég geri ráð fyrir, að hann hafi átt við: „Þrátt fyrir þetta má telja víst, að íslenzka fjárfestingaráætlunin sé, miðað við þjóðartekjurnar, miklu hærri en bæði norska áætlunin og hliðstæðar áætlanir í öðrum nágrannalöndum, og mun þó sú fjárfesting, sem norska áætlunin gerir ráð fyrir, vera mjög há miðað við það, sem gerist annars staðar“. (Rödd af þingbekkjum: Hvað má draga af þessu?). Það er sitt hvað að draga af þessu eða lesa það. Og hvernig horfir þetta við fyrir Ísland með að koma upp byggingum? Hverjar eru okkar þarfir, og hver er okkar geta? Höfum við minni þarfir hlutfallslega fyrir að byggja heldur en þjóðirnar í kringum okkur? (GÞG: Vill hv. þm. lesa á bls. 23?) Í Noregi og öðrum löndum í kringum okkur er það þannig, að þar búa þjóðirnar að byggingum, sem eru margra áratuga gamlar og enda aldagamlar. Þegar reikaður var út þjóðarauður Breta, þeirra sem nú lifa, þá kom í ljós, að 4/5 af þjóðarauðnum hjá þeim voru erfðir og mikið af því fé liggur í húsum. En við Íslendingar tókum hins vegar þannig við okkar landi um síðustu aldamót, að það má segja, að okkar land hafi þá verið óbyggt land. Kynslóð okkar feðra og okkar kynslóð hefur verið að byggja landið. Og við verðum að byggja hlutfallslega meira, miðað við fólksfjölda, heldur en nokkur þjóða þeirra, sem búa í kringum okkur, og meira að segja meira hlutfallslega en Englendingar, sem misstu mikið af húsum í stríðinu síðasta. Það er því gefið, að fjárfestingarþörf Íslendinga að því er byggingar snertir er meiri en þjóðanna í kringum okkur. Og þetta hefur verið viðurkennt af því opinbera síðustu 20 árin með þeim ráðstöfunum, sem það opinbera hefur gert, bæði viðkomandi byggingum í sveitum og kaupstöðum, til þess að flýta fyrir því, að hér á landi verði byggt sem allra mest. Og það er gefið, að þegar á að koma á áætlunarbúskap á Íslandi um þessa hluti, þá hlýtur að verða tekið tillit til þess, að þörf Íslendinga fyrir það að byggja er mjög mikil. — Í öðru lagi: Hvernig er okkar geta til þess að geta byggt? Jú, hún er meiri en þjóðanna í kringum okkur. Þjóðirnar í kringum okkur hafa komið út úr síðustu styrjöld með stórkostlegu tjóni fyrir þær, hvað þeirra verðmæti snertir. Þær þurfa að vinna mikið að því að bæta upp þetta tjón og byggja upp hjá sér. Við Íslendingar hins vegar höfum þá aðstöðu af ástæðum, sem öllum eru kunnar, að við höfum meiri getu hlutfallslega en þessar þjóðir til þess að byggja meira yfir okkur. Í raun og veru takmarkast geta okkar til þess að byggja yfir okkur fyrst og fremst af því mannafli, sem við getum varið í það, svo lengi a. m. k. sem okkar innflutningur er 300–400 millj. kr. á ári. Svo lengi sem við höfum efni á að eyða í benzín á um 10 þús. fólksbíla fyrir meira en 30 millj. kr. yfir árið, þá höfum við efni á að eyða svo miklu í byggingarefni til þess að byggja svo margar góðar íbúðir eins og okkar mannafli kemst að, að vinna við, sem við getum séð af frá öðrum framleiðslustörfum. Þess vegna hlýtur hver fjárhagsáætlun um það, hve Íslendingar geti fest mikið fé í húsbyggingum, að miðast við það, að Íslendingar geti, — vegna þeirrar aðstöðu, sem þjóðin hefur haft við að etja, að taka við lítt byggðu landi, — byggt hlutfallslega meira en þjóðirnar í kringum okkur. Og Íslendingar hafa meiri peninga hlutfallslega, sem þeir geta varið til þess að byggja yfir sig, heldur en þjóðirnar í kringum okkur. Ef stoppaðar væru einhverjar af þessum 30 millj. kr., sem fara til benzíns á bílana í landinu, eitthvað, sem um munaði, þá höfum við áreiðanlega efni á að byggja hóflegar íbúðir yfir landsmenn. Þess vegna er það engum efa bundið, að nauðsynin fyrir okkur Íslendinga á því að byggja og okkar geta til þess hefur verið fyrir hendi. Og það komum við sennilega til með að deila um, ég og hv. þm. Ísaf. Hann vildi halda því fram, að enginn samdráttur hafi orðið í framkvæmdum vegna þessara ráðstafana, og vildi auðsjáanlega meina, að vinnuafl væri hagnýtt allt, sem til væri í byggingariðnaðinum, til þessara bygginga, sem framkvæmdar hafa verið. Nú vil ég taka það fram viðvíkjandi þessu, að það hefur orðið gífurlegur samdráttur í þessum framkvæmdum. Og það hefur verið eyðilagt svo og svo mikið af þessum framkvæmdum og tafið fyrir þeim, eins og hvað eftir annað hefur verið staðfest í þessari skýrslu fjárhagsráðs, vegna þess skipulagsleysis, sem hefur verið í veitingu fjárfestingarleyfa, vöruinnflutnings og annars slíks. Og ein versta afleiðing af þessari óstjórn fjárhagsráðs hefur verið sú, að stórkostlega hefur minnkað vinna og atvinna yfirleitt í byggingariðnaðinum. Og úr þessu máli gætum við mjög auðveldlega skorið með því að ræða við iðnaðarmenn hér í Reykjavík á þessu sviði um það, hvernig ástandið sé hjá þeim. Það hefur verið þannig upp á síðkastíð, að vinna þessara iðnaðarmanna hefur minnkað alveg stórkostlega. Við vitum, hvernig það hefur verið almennt um byggingaframkvæmdir hér á Íslandi, eins og um allt það, sem landsmenn hafa gert stórt í þessum hlutum. Þeir hafa framkvæmt þessar byggingar með því að vinna við þær af mjög miklum krafti. Það hefur verið alveg gífurleg vinna, sem byggingariðnaðarmenn hafa lagt í að koma upp öllum þeim fjölda bygginga, sem byggðar voru á Íslandi á undanförnum árum. Við þær hefur ekki aðeins verið unnið í dagvinnu, heldur líka í eftirvinnu og næstum fram á nætur. Og við byggingar hefur ekki aðeins verið unnið af byggingariðnaðarmönnum og ófaglærðum mönnum, sem vanizt hafa iðninni, heldur hefur fjöldi manna, sem vinna annað, bæði skrifstofumenn og aðrir slíkir, á kvöldin og á helgidögum tekið þátt í að byggja hús, sem þeir ætla að eiga sjálfir. Það hefur bókstaflega verið hamazt, við þessa hluti, og þjóðin hefur þannig lagt gífurlega mikið á sig til þess að vinna upp það, sem þjóðin tapaði á undanförnum öldum hvað húsbyggingar snertir. En hvert er nú ástandið orðið í þessu efni fyrir áhrif fjárhagsráðs, fyrir stjórn þess eða öllu fremur óstjórn? Ástandið er orðið það, að öll eftirvinnan er horfin frá byggingariðnaðarmönnum. Það er svo að segja einungis um dagvinnu að ræða, sem notast oft mjög illa að vegna þess eltingarleiks, sem menn þurfa að hafa til þess að ná í þá hluti, sem til byggingarframkvæmdanna þarf að nota. Það þarf að leggja mikla vinnu í það að leita uppi þá hluti, sem þarf til húsbygginga, suma hverja, og reyna að kaupa þá á svörtum markaði og hafa alls konar hrossakaup um efni til raflagna og pappa og hreinlætistæki, og það verður að tína þetta saman hér og hvar um bæinn, sem til þess þarf að koma húsunum upp. Þarna hefur verið um að ræða mikla eyðslu á vinnuafli, sem fjárhagsráð hefur beinlínis skipulagt eða verið orsök í með sinni óstjórn. Fjárhagsráð hefur beinlínis valdið því, að unnið hefur verið miklu minna og með lélegri afköstum í byggingariðnaðinum síðustu tímana heldur en annars hefði getað verið, ef slíkrar óstjórnar hefði ekki gætt eins og komið hefur fram í gerðum fjárhagsráðs. Og vegna þessarar óstjórnar fjárhagsráðs hafa framkvæmdir í byggingarmálum dregizt stórlega saman, svo að minna hefur verið unnið en fyrr, og þetta, sem framkvæmt hefur verið, hefur verið gert með miklu meira skipulagsleysi en áður M. ö. o., þetta ráð, sem átti að útrýma húsnæðisskortinum, eins og Alþýðublaðið tilkynnti, að væri stefna ríkisstj., hefur með þessari glundroðastjórn sinni beinlínis komið þessum málum í öngþveiti, skapað misræmi milli allra þessara áætlana, sem það hefur samið, svo að samræmi hefur ekki verið þar á milli nokkurs skapaðs hlutar, og svarti markaðurinn hefur svo komizt þarna inn á milli. Það er þess vegna ekki undarlegt, þó að það komi til umr., þegar verið er að tala um húsnæðismálin, hvernig stjórnin hefur verið á þessum málum frá hálfu þeirrar stofnunar, sem fyrst og fremst var í raun og veru falið að sjá um framkvæmd þessara áætlana, sem ríkisstj. auglýsti svo rækilega, þegar hún tók við völdum, að hún ætlaði að útrýma húsnæðisskortinum og heilsuspillandi íbúðum. Ofan á þetta hefur svo það bætzt, að fjárhagsráð hefur ekki aðeins unnið vitlaust sín störf og ekki aðeins gleymt öllu samræmi á milli þeirra mismunandi áætlana, sem það hefur samið, og ekki aðeins sleppt því að hirða um, að fjárfestingaráætlun og innflutningsáætlun yrðu samhljóða í fjárhagsáætlun þess, heldur hefur fjárhagsráð þar að auki dregið svo lengi að afgreiða sínar áætlanir um þjóðarbúskapinn, fjárfestingaráætlunina og innflutningsáætlunina, að það hefur tafið og spillt fyrir framkvæmdum í öllum þessum málum og það ekki aðeins hvað byggingar snertir. Það viðurkennir meira að segja hagfræðinganefnd fjárhagsráðs í þessu áliti á bls. 24 og 25. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Það, sem skeð hefur hér á landi á þessu ári, er hvort tveggja, að innflutningsáætlunin hefur ekki verið í samræmi við fjárfestingaráætlunina og að gjaldeyrisleyfi þau, sem veitt hafa verið samkvæmt innflutningsáætluninni, hafa verið veitt of hægt og of seint, og stundum hefur gætt misræmis í hlutföllunum milli einstakra vöruflokka. Ástæðurnar fyrir þeim ótvíræðu mistökum, sem hér hafa átt sér stað, eru ýmsar.“ Og svo er það talið upp í álitinu, og er það langt mál. Enn fremur er þarna komið inn á skort á byggingarvörum og þess háttar. M. ö. o., fjárhagsráð, sem fyrir hönd ríkisstj. hefur átt að framkvæma þá stóru áætlun ríkisstj. að útrýma húsnæðisskortinum, hefur ekki aðeins unnið illa, heldur líka unnið seint og með því unnið mikinn skaða í viðbót við þann, sem gerður var með meira eða minna vitlausum áætlunum. Nú hefur fjárhagsráð fengið þá gagnrýni, sem komið hefur fram í þessari álitsgerð. Og fjárhagsráð fékk líka í fyrra að heyra hér á Alþ., að það ynni þetta nokkuð seint. Og hvað eftir annað hefur hér verið sýnt fram á af hálfu þingsins, hver nauðsyn væri á því, þegar um fjárlög væri að ræða, að fjárfestingaráætlun og innflutningsáætlun lægi fyrir, af því að þetta tvennt væri í svo nánu sambandi hvað við annað. Hvað hefur fjárhagsráð lært af þessari gagnrýni? Nú, þann 17. marz 1949 eru, menn ekki farnir að sjá fjárfestingaráætlun eða innflutningsáætlun fjárhagsráðs, og hvorugt hefur Alþ. getað fengið. Hér hafa því endurtekið sig sömu mistökin og áður hjá fjárhagsráði og m. a. það, að byggingarefni, sem átti að byggja úr í sumar sem leið, hefur ekki komið til notenda fyrr en að haustinu, og því hefur orðið að geyma framkvæmdirnar til næsta árs. Fjárhagsráð hefur þó vel vitað, að það, sem þarf að kaupa til landsins til ýmissa framkvæmda, þarf að panta allt að sex mánuðum fyrir fram, áður en það þarf að notast. Enn fremur er gjaldeyrisáætlun, innflutningsáætlun og fjárfestingaráætlun ráðsins svo seint til, að þjóðarbúskapurinn í heild kemst bókstaflega í ólag vegna þessa ráðs.

Ég hef gert þetta að umtalsefni hér í sambandi við frv. um húsaleigu vegna þess, að stjórnin á þessum málum er grundvöllurinn fyrir öllum ráðstöfunum, sem Alþ. gerir með fullri ábyrgðartilfinningu gagnvart ástandinu í landinu í þessum efnum. Alþ. verður, þegar það gerir ráðstafanir gagnvart hlutum eins og húsaleigumálum og öðru slíku, að geta séð um framkvæmd þeirra hluta. Alþ. hafði lagt vissa hluti fyrir á sínum tíma, og ríkisstj. lýsti yfir á sínum tíma, að hún ætlaði að gera vissa hluti. Fjárhagsráð var sett á laggirnar til þess að stjórna þessum hlutum, og allt hefur gengið hjá því í ólagi og vitleysu, og samtímis því hefur svo bankavaldið í landinu gert stórkostlegar ráðstafanir til þess að skapa lánsfjárkreppu, sem nú þegar hefur í húsnæðismálunum haft tvennar afleiðingar: Annars vegar þær að draga úr því, að íbúðir verði byggðar yfirleitt. Og hins vegar eru afleiðingarnar þær, að sífellt neyðast fleiri og fleiri af mönnum, sem eru lítt efnaðir, til þess að selja sín hús í hendur þeim, sem auðugir eru, vegna þess að þeir fá ekki lán til þess að geta átt húsin sjálfir. Og þetta er alveg í mótsögn við það, sem stjórnarflokkarnir lýstu yfir sem sinni stefnu, að sem flestir menn gætu verið bjargálna, því að nú er bankavaldið að gera þveröfugar ráðstafanir við þá stefnu. Búið er að loka veðdeildinni fyrir þessum mönnum, og mönnum er ekki gert mögulegt að fá lán til langs tíma, sem þó er eini möguleikinn til þess, að almenningur geti byggt yfir sig og eignazt sínar íbúðir. Það er þetta, sem ég kalla ómögulega pólitík. Og Alþ. þarf að snúa sér að því að koma lögum í gildi, sem skapa almenningi möguleika til þess að koma upp sínum eigin íbúðum, og sjá um að menn geti fengið leyfi til þess, sem þurfa, og að eitthvert vit sé í starfsemi þeirri, sem rekin er viðkomandi innflutnings- og fjárfestingaráætlunum. Og þessu þarf þingið fyrst að kippa í lag, og þá fyrst getur það af fullri samvizkusemi unnið að lausn þeirra vandamála, sem við koma þessum húsaleigulögum.