18.03.1949
Neðri deild: 83. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í C-deild Alþingistíðinda. (3338)

88. mál, húsaleiga

Einar Olgeirsson:

Ég vil benda hv. þm. Ísaf. á, að það, sem áætlað er á þessu ári á innflutningsáætluninni, sem útbýtt er fyrst í dag, 18. marz 1949, er timbur fyrir tæpar 10 millj. kr. og sement og kalk fyrir 6 millj. kr. Með stöðvun togaranna, sem sýnir einna gleggst óstjórn ríkisstj. í fjárhagsmálum landsins, er búið að eyðileggja gjaldeyri fyrir allt að 20 millj. kr., en það er meira, en hefði þurft til að tvöfalda innflutninginn á aðalbyggingarefni landsmanna. Þetta sýnir bezt óstjórnina í landinu nú, sem stendur í vegi fyrir því, að landsmenn fái að nota sína krafta til þess að vinna að því, sem ríkisstj. hefur lofað: að útrýma heilsuspillandi íbúðum og húsnæðisskorti. Ég hygg, að ég verði að láta lokið umr. í þessu máli, þar sem ég er búinn að tala mig svo steindauðan.