11.11.1948
Neðri deild: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í C-deild Alþingistíðinda. (3354)

49. mál, dýrtíðarráðstafanir

Flm. (Hermann Guðmundsson) :

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, varðar breytingu á dýrtíðarlögunum, þannig, að niður verði felldar þær gr. dýrtíðarl., sem binda kaupgjaldsvísitöluna. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að strax þegar fór að gæta dýrtíðar í landinu, fannst verkamönnum og launþegum, að hlutur þeirra versnaði. Þá var það sjálfsagt fyrir verkamenn að fylgjast með þeirri breytingu á þann hátt að hækka kaupið jafnhliða því, sem dýrtíðin óx. Þess vegna var horfið að því ráði. Samningar tókust um þetta milli vinnuveitenda og launþega, að verkamenn og aðrir launþegar skyldu mánaðarlega fá uppbót á kaup sitt í samræmi við þá vísitölu, sem hagstofan gæfi út. Þegar þessi árangur náðist, fögnuðu verkamenn sigri, því að þetta var bæði til hagsbóta fyrir þá og sömuleiðis átti það þátt í að skapa vinnufrið í landinu. Hins vegar er því ekki að leyna, að þessi háttur reyndist ekki eins fullkominn og til hans voru gerðar vonir. Kaupgjaldsvísitalan reyndist ekki í samræmi við dýrtíðarvísitöluna, og eftir því sem lengra leið, varð vísitalan rangari og rangari, og það svo að tugum stiga munaði. Þrátt fyrir þá annmarka, sem á þessu voru, var þetta ákvæði til mjög mikilla bóta. Það hefur orðið til þess að tryggja verkamönnum að nokkru, að laun þeirra væru í samræmi við gildandi dýrtíð.

Eins og hv. þm. rekur minni til, voru á síðasta ári, 1947, samþ. l. um allverulega tollahækkun frá Alþ. Með þeim l. var jafnframt bundið hámark þeirrar vísitölu, sem kaupgjald miðaðist við. Mér er ekki grunlaust um, að allmargir hv. þm. hafi afsakað sig með því loforði, sem gefið var, að þetta yrði ekki mikil framtíðarfórn fyrir verkamenn, því að gert var ráð fyrir, að hámarkið væri 300 stig, en vísitalan var þá í 326, en fór síðar upp í 328. Því var haldið fram, að afleiðingin yrði sú, að dýrtíðin mundi fljótlega minnka og vísitalan fara niður í 300 stig og því væri þetta ekki nema augnabliksfórn. Nú er liðinn langur tími síðan l. voru samþ. og allmikil reynsla komin á sannleiksgildi þeirra orða, að þessi l. reyndust ekki nema augnabliksfórn, og reynslan varð sú, að dýrtíðin hefur vaxið og þar með margs konar erfiðleikar. Vísitalan er nú að vísu ekki nema 326 stig. En það er vitað mál, að vísitalan gefur svo ranga hugmynd um það raunverulega ástand, að hagfræðingar telja, að raunveruleg vísitala sé ekki undir 405 stigum. M. ö. o., festing vísitölunnar hefur ekki orðið til að minnka dýrtíðina. Það er af þessum ástæðum, að ég og hv. 8. þm. Reykv. leggjum til, að þau ákvæði þessara l., sem ósanngjörnust hafa verið, verði afnumin. Reynslan hefur sýnt glögglega, að það hefur verið krafizt einhliða fórnar af launþegum, og það ástand, sem skapazt hefur í landinu við vaxandi dýrtíð, er þannig, að kaup það, sem nú gildir, nægir ekki til að framfleyta þeim, sem kaupgjaldið eiga að fá. Launþegar geta ekki unað við slíkt, og í kjölfar þess hljóta að koma hagsmunaátök. Við teljum því rétt frá þjóðhagslegu sjónarmiði, að þessi ákvæði verði felld niður. Við teljum líka, að með því væri létt af launþegum þeirri ósanngjörnu einhliða fórn, sem þeir eru nú dæmdir til að færa.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál, en legg til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og fjhn.