14.03.1949
Neðri deild: 80. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í C-deild Alþingistíðinda. (3369)

49. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti, Þetta frv. kom fram snemma á þessu þingi. Nú eru þrír mánuðir síðan ég lagði fram minnihlutaálit um þetta mál og það mjög ýtarlegt, þannig að ég geng út frá því, að hv. þm. hafi haft nægan tíma til þess að kynna sér þetta álit og sjá þau rök, sem þar koma fram, svo að ég ætla ekki að fara ýtarlega út í álitið eða þau fskj., sem með því eru. — Hv. frsm. meiri hl. fjhn. gat þess, að hæstv. ríkisstj. mundi nú standa fyrir sínu máli, hvað þetta mál snertir. Og ég vonast til þess, að sá helmingur ríkisstj., sem enn er eftir á Íslandi, muni nú reyna að standa þá í ístaðinu og færa fram þau rök, sem hann getur, fyrir því, að sú pólitík, sem ríkisstj. tók upp með bindingu vísitölunnar, hafi tekizt og þau loforð, sem ríkisstj. gaf, þegar hún festi vísitöluna, hafi verið haldin. Ég vona, að hæstv. ríkisstj. sé ljóst, að út af þessu máli, sem hér liggur fyrir, liggja nú ótal áskoranir fyrir Alþ. um að samþ. þetta frv. Ég er hér með bunka af áskorunum frá launasamtökum í landinu um að afnema þetta fyrirkomulag, sem hér í frv. er lagt til, að breytt verði, og ég veit ekki til þess, að nokkrar áskoranir mæli með því, að það fyrirkomulag haldist, sem ríkisstj. tók upp í þessu efni. Og hér rétt við hliðina á alþingishúsinu hafa stéttarsamtök haldið fundi, þar sem þess er sérstaklega krafizt af fundarmönnum að fá stórkostlegar uppbætur á sín laun vegna vísitölubindingarinnar. Þjóðarvilji hefur því komið fram í þessu máli, og þjóðin stendur með þessu, sem farið er fram á í þessu frv. Spurningin er, hvort hv. þm. vilja fara eftir þessum vilja. Ég býst við, að það, sem hv. þm. muni leggja til grundvallar, muni vera það, hvort sú stefna, sem ríkisstj. lýsti, að hún ætlaði að fylgja, þegar hún fékk vísitölubindinguna samþ., hafi borið árangur og hvort ríkisstj. treysti sér til þess að standa við þá stefnu. Það, sem ríkisstj. setti fram við þessa hv. d. sem forsendu fyrir því að fá hana til að samþ. vísitölubindinguna, kom fram í því, sem hæstv. forsrh. sagði. Vísitalan var 328 stig, þegar vísitölubindingin var samþ., og hæstv. forsrh. sagði í sinni ræðu, að samþykkt bindingar vísitölunnar mundi þýða raunverulega 5% lækkun á kaupgjaldi manna og þessi 5% mundu þar að auki hverfa mjög fljótt og þó að menn fórnuðu 5% af kaupi sínu í nokkra mánuði, þá væri það bara til þess að kaupa sér tryggingu gegn atvinnuleysinu, en svo framarlega að þessar ráðstafanir væru ekki gerðar, að binda vísitöluna, mundi atvinnuleysi skella yfir. Og sú setning, sem hæstv. forsrh. sagði í sinni framsöguræðu í þessu máli í þinginu, er þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Það er að vísu ekki ánægjulegt að leggja fram frv. um það, að laun allra launamanna í landinu eigi að lækka um 5%, en þegar það er athugað, að ef ekkert er að gert og engar ráðstafanir gerðar, er víst og áreiðanlegt, að af því mundi leiða hrun og atvinnustöðvun. Slík atvinnustöðvun mundi fyrst og fremst lenda á launafólkinu í landinu, og álít ég því, að það megi skoða þessi 5% sem eins konar vátryggingarpremíu til þess að tryggja sér áframhaldandi örugga atvinnu í landinu. Ég tel, að þetta vátryggingariðgjald verði að greiða af höndum, ef áfram á að haldast örugg atvinna í landinu og fólk á ekki að þurfa að óttast atvinnuleysi.“ — Þetta voru orð hæstv. forsrh., þegar hann lagði frv. um vísitölubindinguna fyrir Alþ. Og nú væri ánægjulegt, ef hæstv. forsrh. væri hér í deildinni og gæti nú staðið við þessi orð sín. Við erum nú að ræða frv., sem liggur fyrir þinginu og hefur beðið í þrjá mánuði eftir því, að það komi til umr. — Og ef hæstv. forsrh., eftir þær umr., sem hér fóru fram áðan, er ekki floginn til Ameríku, væri æskilegt, að hann tæki þátt í umr. um þessi mál. — M. ö. o., hæstv. ríkisstj. lýsti yfir, að svo framarlega að hún fengi fram þessa 5% lækkun á launum almennings með vísitölubindingu við 300 stig, þá mundi verða komið í veg fyrir atvinnustöðvun og atvinnuleysi. Og það er ekki nóg með, að hæstv. forsrh. segði þetta. Hv. 4. þm. Reykv., sem er heldur ekki hér í salnum nú, þessi hagfræðingur og prófessor við háskólann, lýsti yfir því og lét sinn prófessorsvísdóm sem tryggingu fyrir því, að vísitalan mundi strax eftir 1. jan. 1948 fara niður í 315 stig og svo mundi hún brátt þar á eftir fara niður í 300 stig. Ég sagði þá, að vísitölubindingin mundi verða til þess eins að sýna, hvers virði prófessorsvísdómur hv. 4. þm. Reykv. yrði fyrir þing og þjóð. Það er þess vegna vissast fyrir hv. 4. þm. Reykv. að sýna sig ekki, þegar þessar umr. fara fram. Nú er það komið í ljós, meira en ári eftir að þessi vísitölubinding var gerð, hvernig komið er. Í fyrsta lagi er ríkisstj. ekki búin að eyða atvinnuleysi meðal þjóðarinnar, — þvert ofan í það, sem hæstv. forsrh. lofaði, þegar hann fékk þingið til þess að ganga inn á vísitölubindinguna. Í öðru lagi hefur sýnt sig, að hv. 4. þm. Reykv. og fleiri með honum hafa ekki haft hugmynd um, hvaða afleiðingar vísitölubindingin mundi hafa. Vísitalan komst aldrei niður í 315 stig: Hún var í 318 og 319 stigum, og fór svo hækkandi. Og nú síðustu mánuðina hefur ríkisstj. verið að rembast við, að vísitalan fari ekki yfir 328 stig, eins og hún var, þegar vísitölubindingin var samþ. Í síðasta mánuði var hún 328 stig, og í lok febrúarmánaðar var hún komin í 331 stig. Hvað gerði. þá ríkisstj., til þess að láta ekki koma í ljós, að vísitalan væri í marz 331 stig? Hún keypti niður verð á kartöflum og ákvað, að verðlag á þeim skyldi vera 80 aurar í staðinn fyrir ein kr. Og kartöflur voru það mikill hluti úr mat manna fyrir stríð, að vísitalan, sem þá var reiknuð út, var sérstaklega næm fyrir öllum breyt. á kartöfluverði. Þess vegna hefur ríkisstj. þá aðferð, þegar hún þarf að kaupa vísitöluna niður, að lækka verðið á þeim, þó að þær séu miklu minni hluti af fæðu manna nú heldur en fyrir stríð. Og þess vegna er ódýrast að taka þennan lið fyrir, þegar kaupa þarf niður vísitöluna. Ríkisstj. rembist eins og rjúpan við staurinn til þess að hafa vísitöluna 328 stig, eins og hún var, þegar vísitölubindingin var samþ. Og til þess leggur hún fram fé úr ríkissjóði, sem hún tekur af fólkinu á landinu.

Dýrtíðarráðstafanir ríkisstj. hafa farið út um þúfur. Hvert það loforð, sem gefið var, þegar vísitalan var bundin, hefur verið svikið. Og sjálf stendur ríkisstj. frammi fyrir því, að öll þessi pólitík hennar hefur beðið skipbrot. Þess vegna er ekki undarlegt, þó að ríkisstj. gangi illa að verja þessar aðgerðir sínar. Og er leitt, að sá hluti af ríkisstj., sem eftir er á landinu, skuli ekki geta flogið til Ameríku líka til þess að geta fengið leiðbeiningar um vísitölubindingu. — Hvernig hefur ríkisstj. staðið í stykkinu um það, sem hún lofaði, að yrði, að ef menn vildu taka á sig 5% launalækkun, þá mundi það tryggja atvinnu í landinu? Ríkisstj. hefur beinlínis gert ráðstafanir til þess að koma á atvinnuleysi, skipað fjárhagsráð, sem bannað hefur í stórum stíl byggingar í landinu, t. d. íbúðarhúsabyggingar, og komið í veg fyrir, að menn geti byggt yfir höfuðið á sér. Ríkisstj. hefur þess vegna stórlega dregið úr framkvæmdum í landinu, ekki aðeins byggingum, heldur og iðnaði, með því að flytja ekki nóg hráefni inn í landið, en látið heildsalana fá nóg til þess að flytja inn og græða. Á þessum tíma, síðan vísitölubindingin var samþ., hefur þess vegna farið fram stórkostleg lífskjaraskerðing beinlínis fyrir aðgerðir ríkisstj. Í fyrsta lagi með fölsun á vísitölunni. Í öðru lagi hefur skerðingin orðið þannig, að eftirvinna, sem var mikill þáttur í grundvellinum undir lífskjörum manna, hún hefur að mestu fallið burt við það, að sú atvinna, sem gaf eftirvinnu, hefur af völdum ríkisstjórnarinnar og hennar fjárhagsráðs minnkað svona mikið. Og við þetta hafa tekjur manna í landinu, þar sem slík atvinna var stunduð, sem gaf eftirvinnu, minnkað stórkostlega. Ríkisstj, hefur þess vegna gert ráðstafanir í sinni atvinnupólitík, sem hafa verið þveröfugar við það, sem hæstv. forsrh. lofaði þinginu, þegar hann fékk vísitölubindinguna samþ. Því var þá lofað af honum, að ef þjóðin tæki þessa fórn á sig, gæti hún verið örugg um áframhaldandi atvinnu. En rétt eftir að þessar ráðstafanir eru gerðar, þá eru gerðar ráðstafanir til þess að minnka atvinnuna. Ríkisstj. hefur því brugðizt sínu loforði, sem hún gaf, þegar þessi lög, sem hér er lagt til að breyta, voru samþ. — Samtímis því, sem ríkisstj. hefur dregið úr vinnu almennings í landinu, hefur hún aukið vinnuna í ríkisbákninu. Hún hefur bætt ofan á ríkisbáknið meiru en nokkur önnur ríkisstj. hefur gert á Íslandi. Hún hefur bætt ofan á ríkisbáknið til þess að reyna að hefta sem mest framkvæmdir manna. Allar þær stofnanir, sem ríkisstj. hefur komið á í viðbót við þær, sem fyrir voru, hafa bannað mönnum að gera þetta og hitt, byggja, flytja inn hráefni til iðnaðar og koma af stað vinnu í landinu. Það hafa allt verið höft, en ekkert til að hjálpa í þessum efnum. Ríkisstj, hefur aukið þannig útgjöld ríkissjóðs, þyngt byrðarnar á almenningi, einmitt þeim almenningi, sem hafði minna til þess að geta staðið undir þeim byrðum en áður. Og hún hefur því verið beinlínis að vinna á móti þeirri stefnu, sem hún lofaði að framfylgja, þegar hún fékk vísitölubindinguna samþ. — Og ekki nóg með þetta. Ríkisstj. hefur samtímis öllu þessu, eða bankarnir í samráði við hana, gert ráðstafanir til þess að draga úr atvinnu í landinu. Það hefur verið sköpuð af hálfu bankavaldsins lánsfjárkreppa í landinu. Bankavaldið hefur dregið að sér höndina um öll lán til þess að gera mönnum almennt erfiðara fyrir með að leggja í framkvæmdir, til þess aftur að draga úr atvinnulífinu. Og jafnvel hefur þessi lánsfjárkreppa orðið til þess að gera þeim, sem rétt voru bjargálna, erfiðara fyrir með að halda sínum smáatvinnutækjum, íbúðum eða öðrum eignum og gert það að verkum, að nú fjölgar óðum þeim fyrirbærum, að millistéttamenn neyðast til þess að selja þessar eignir, en ríkir menn kaupa þær. M. ö. o., það eru samræmdar skaðræðisaðgerðir, sem unnar eru af hæstv. ríkisstj. annars vegar og bankavaldinu hins vegar til þess að draga úr atvinnu í landinu, auka höft í atvinnulífinu og banna mönnum að kaupa inn í landið hráefni til iðnaðarins, og heildsalar og aðrir þeir ríku græða svo á þessu. Þetta eru efndirnar á því, sem ríkisstj. lofaði árið 1947, þegar hún fékk þessa löggjöf, sem hér er lagt til að breyta, samþykkta. Þá sagði hæstv. forsrh., að ef þjóðin tæki á sig launaskerðingu um 5%, mundi hún vera örugg með að hafa atvinnu. Nú sjá menn efndirnar. Það er skiljanlegt, að hæstv. ríkisstj., sem svona stendur við það, sem hún hefur lofað þingi og þjóð, vill koma sér hjá því að standa fyrir sínu máli.

M. ö. o., sú vísitölubinding, sem í árslok 1947 var samþ. og var tilfinnanleg skerðing á launakjörum launþega í landinu, hefur orðið enn þá tilfinnanlegri síðan vegna þeirrar skerðingar á lífskjörum manna, sem hefur farið fram með því, að atvinnuleysi hefur komið til sögunnar. og með því, að eftirvinna hefur fallið burt og með því, að það er erfiðara og má telja ókleift nú orðið að komast að því að útvega sér aukavinnu, sem menn höfðu áður getað, sem voru á launum hjá ríkinu eða við atvinnurekstur einstaklinga eða hlutafélaga. Það er því vitanlegt, að það er fjarri því, að sú vísitölubinding og kjaraskerðing, sem með henni var gerð um áramótin 1947 og 1948, hafi orðið léttbærari vegna þess, að atvinna væri tryggð í landinu. eins og hæstv. ráðh. lofaði í sinni ræðu, heldur hefur þvert á móti þessi vísitöluskerðing orðið þungbærari fyrir þá atvinnurýrnun, sem átt hefur sér stað í landinu af völdum hæstv. ríkisstj. Það er þess vegna auðséð að allt, sem ríkisstj. hefur lofað þinginu og þjóðinni sem forsendu fyrir því að fá vísitölubindinguna samþ., hefur breytzt, það hefur ekki verið staðið við neitt af þessu. Ofan á þetta bætist svo það, að vísitalan er í þessi 2 ár síðan ríkisstj. tók við völdum fölsuð meira en nokkru sinni fyrr, þannig að raunveruleg vísitala nú er komin yfir 400, eins og sýnt er fram á í fylgiskjali, sem ég birti hér með mínu nál., sem er álit n., skipaðrar af Alþýðusambandi Íslands og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja til að rannsaka áhrif dýrtíðarl. á afkomu launþega. Í þeirri n. voru þeir Ólafur Björnsson próf. og Jónas Haralz, sem er einn af beztu starfsmönnum fjárhagsráðs. Þessir menn eru báðir hagfræðingar, sem lögðu fram vísindalega útreikninga um þessa hluti, sem ég birti hér í heild, og er mér ekki kunnugt um, að nokkur hagfræðingur eða stjórnmálamaður hafi leyft sér að fullyrða, að þeir útreikningar væru rangir, heldur þvert á móti viðurkennt þá sem rétta. Ofan á þetta, sem ég hef lýst, bætist svo, að ríkisstj. hefur nú í uppundir mánuð horft upp á það, að stórvirkustu atvinnutækin — atvinnutækin, sem nýsköpunarstjórnin lét kaupa inn í landið á sínum tíma — togararnir eru bundnir við hafnargarðinn, og sú stórkostlega atvinnustöðvun, sem hér er orðin á síðustu árum, hefur átt sér stað án þess, að vitað sé, að ríkisstj. hafi geri nokkrar ráðstafanir til þess að tryggja, að þessi atvinnutæki færu í gang, og án þess, að nokkur maður hafi haldið því fram, að ekki væri stórgróði á því að reka þessi atvinnufyrirtæki, ekki aðeins fyrir þjóðina, heldur líka fyrir þá, sem eiga þau. Það er þess vegna komið svo nú, að sú atvinnuleysispólitík, sem ríkisstj. hefur rekið frá upphafi, allar þær ráðstafanir, sem hún hefur gert til að draga úr atvinnu landsmanna, allar þær ráðstafanir, sem bankarnir hafa gert í samræmi við þessar hernaðaraðgerðir gegn almenningi, þær náðu hámarki nú með því, að togararnir hafa verið stöðvaðir og ríkisstj. hefur engar ráðstafanir gert til þess, að togararnir væru í fullum gangi. Þess vegna er auðséð, að allt það, sem ríkisstj. hefur gert í þessu máli, hefur verið byggt annaðhvort á alveg ótrúlegu þekkingarleysi á afstöðu almennings í landinu og því, sem hann lætur bjóða sér, eða þá hins vegar á fyrirfram ákveðnum vilja um að framkalla atvinnuleysi í landinu í trausti þess að geta í skjóli þess atvinnuleysis lækkað kaupið.

Einn af ráðh. ríkisstj., einn af þeim, sem nú eru flognir til Ameríku, hæstv. viðskmrh., lýsti því yfir, nokkru eftir að þessi l. voru samþ., sem hér er lagt til að breyta, að það væri glæpur, ef verkamenn færu fram á grunnkaupshækkun. Hvað hefur gerzt viðvíkjandi þessum l., sem hér er lagt til að breyta, og þessari umsögn og afstöðu hæstv. viðskmrh. og ríkisstj. um glæp? Það, sem hefur gerzt, er það, að verkamenn, allvíða á landinu, hafa knúið fram grunnkaupshækkanir. Þeir hafa bókstaflega svarað þessari árás ríkisstj. á þeirra launakjör með því að knýja fram hækkun á grunnkaupi, og meira að segja í samgmrn. hafa verið gerðir samningar um einhverjar með meiri grunnkaupshækkunum, sem fram hafa farið á þessu tímabili, þannig að hæstv. viðskmrh. sjálfur hefur orðið að viðurkenna það í reyndinni, að það var óhjákvæmilegt að drýgja þetta, sem hann kallaði glæp. Sem sé, hann hefur orðið að viðurkenna, að það er engin siðferðisleg forsenda fyrir því að ætla að þvinga þessum l. upp á þjóðina, og grundvöllurinn, sem hann sagði, að væri fyrir hendi, þegar dýrtíðarl. voru samþ., hefur hann orðið að viðurkenna, að ekki er lengur fyrir hendi. Svo langt hefur þetta gengið, að stjórnarflokkarnir, sem hafa verið að hæla sér af því að þeir hafi meiri hl. í stjórn Alþýðusambands Íslands, — að sú stjórn hefur orðið að láta svo mikið undan þrýstingi þjóðarinnar í þessum efnum, að hún hefur orðið að skora á verkamannafélögin að segja upp kaupsamningum til að knýja fram grunnkaupshækkun, og ekki nóg með það, að þeir, sem hafa verkfallsréttinn, vilji beita slíkum aðferðum, heldur hafa þar að auki starfsmenn ríkis og bæja haldið fund, þar sem fyrst og fremst komu fram menn úr stjórnarflokkunum og kröfðust einróma mjög mikillar launauppbótar, eða 36%, þannig að það liggur fyrir, að það er enginn maður, sem treystir sér lengur til að segja, að það sé til siðferðileg forsenda fyrir því, að þessi vísitölubinding sé látin standa áfram. Öll þau loforð, sem gefin voru, þegar dýrtíðarl. voru samþ. hér í d., hafa því verið svikin. Þann siðferðilega grundvöll, sem ríkisstj. ætlaði að leggja með því að segja, að það yrði engin hækkun, hefur hún neyðzt til að brjóta, vegna þess að þjóðin hefur þeytt burtu þessum grundvelli. Hér er því verið að reyna að laga lagaákvæði, sem sett var undir fölskum forsendum og enginn siðferðilegur kraftur fylgir. M. ö. o., það er auðséð, að Alþ., sem lét ríkisstj. hafa sig til þess að samþ. þessi l. fyrir rúmu ári í trausti þess, að það mætti trúa einhverju orði af því, sem hæstv. forsrh. sagði, — í trausti þess, að hann mundi reyna að sjá um að framkvæma það, sem ríkisstj. lofaði, að tryggja áframhaldandi atvinnu í landinu — það er auðséð, að það er tími til þess kominn fyrir þessa hv. d. að afnema þessi l. — það er kominn tími til þess að láta verkamenn fá fullkomna uppbót á sitt kaup, og ég vil leggja áherzlu á það, að hv. d. verður að gera sér ljóst, hvað það kostar, ef staðið er á móti því. Það þarf ekki annað en að líta hér niður á höfnina til þess að sjá, hvað það kostar að reikna skakkt í þessum efnum. Togaraeigendur hafa sagt upp samningum við sjómenn til þess að fá fram lækkun, m. a. á kjörum háseta. Það sýnir sig, þegar farið er að ræða þessa hluti, að það er auðvitað enginn grundvöllur fyrir neinni lækkun hjá hásetum á íslenzka togaraflotanum og að það er meiri þörf á kauphækkunum en kauplækkunum, að það eru menn, sem færa þjóðinni það mikinn auð, að þeir eiga kröfu á því að fá meira en hingað til, og að það eru menn, sem vinna þannig vinnu, að margir aðrir mundu ekki fara í fötin þeirra til þess að vinna þá vinnu, sem þeir gera fyrir þjóðina. En það sýnir sig, að auðmenn þessa lands ætla sér að knýja fram kauplækkun hjá þessum mönnum. Hverju er svarað hjá togarahásetum? Þessu er svarað með því, að þeir verði að fá kauphækkun, vegna þess að alþýðan þarf á því að halda og vegna þess að yfirstéttin er nógu rík til að borga og vegna þess að íslenzka ríkisbáknið er nógu dýrt til þess að alþýðan geti sagt við núverandi ríkisstj., að það skuli spara á skriffinnskubákninu, áður en sparað er á þurftarlaunum almennings. Þess vegna er tími til þess kominn fyrir hv. d. að grípa inn í og afnema þessi l., því ef þessi l. eru afnumin, þá er fullnægt réttlætiskröfu frá öllum almenningi í landinu, en ef þau eru ekki afnumin, — ef þetta frv. er ekki samþ., þá er viðbúið, að afleiðingin af því yrði mjög harðvítugar vinnudeilur í landinu — vinnudeilur, sem öll verklýðsfélögin færu út í. Eru hv. alþm. ekki búnir að fá nóg af því, að togaraflotinn er búinn að vera bundinn í heilan mánuð, og í sambandi við það spanderað 20 millj. af útlendum gjaldeyri, eða vilja þeir meiri vinnustöðvanir í landinu? Mér finnst rétt að gera ráðstafanir til þess, að almenningi í landinu sé sýnt það réttlæti að láta þá samninga, sem almenningur hefur við einstaka atvinnurekendur, koma í gildi aftur, því að vitanlega mundu samningar verklýðsfélaga við atvinnurekendur koma í gildi aftur, um leið og Alþ. felldi niður vísitölubindinguna. Hér er því aðeins um það að ræða að gefa atvinnurekendum og verkalýðsfélögum tækifæri til þess að láta þá samninga gilda, sem fyrir hendi voru, að það skuli greiða kaup eftir vísitölu, sem útreiknuð sé, og ég álít óhjákvæmilegt, að það komi greinilega í ljós, hverjir það eru, sem vilja bera ábyrgð á því að halda vísitölubindingunni áfram, eftir að ríkisstj. er búin að sýna, hvernig hún framkvæmir l.

Hv. frsm. meiri hl. fjhn. minntist á það, að það mundi vegna ástandsins í dýrtíðarmálunum ekki vera fært að samþ. þetta frv., sem hér liggur fyrir, um að afnema vísitölubindinguna. Ég vil, án þess að fara lengra út í það mál, leggja áherzlu á það, að ríkisstj. hefur engar þær aðgerðir sýnt í verki í dýrtíðarmálunum, sem gefi til kynna, að hún ætli sér að gera nokkuð raunverulegt í þeim málum, og þessar ráðstafanir hjá henni, að gera dýrtíðina tilfinnanlegri fyrir launafólk, eru ekki ráðstafanir á móti dýrtíðinni, það eru ráðstafanir til að velta dýrtíðinni meira yfir á herðar hinna fátækari. Ríkisstj. hefur mér vitanlega engar ráðstafanir gert í 2 ár til að minnka dýrtíðina, en hún hefur gert margar ráðstafanir til að auka hana. Ég veit ekki betur en að það sé búið að leggja tugi milljóna útgjöld á þjóðina síðan þessi stjórn kom til valda. Svo framarlega sem ríkisstj. er að hugsa um að gera einhverjar ráðstafanir á móti dýrtíðinni, þá þarf hún að snúa sínum geiri annað. Þá þyrfti hún að létta byrðunum af þjóðinni, en ekki þyngja þær, hún þyrfti að létta skriffinnskubákninu af þjóðinni, hún þyrfti að létta verzlunarokinu af þjóðinni og öllu farginu, sem er í sambandi við heildsalastéttina, og hún þyrfti að létta vaxtabyrðunum af þjóðinni, sem alltaf er verið að þyngja. Það er þarna, sem ætti að byrja á þessum hlutum, það er þarna, sem byrðarnar fyrst og fremst ættu að vera mestar, en þangað dettur ríkisstj. aldrei í hug að snúa sínum geiri. Hún er sammála um að láta þessar byrðar haldast og þyngja þær. Það á þess vegna ekkert skylt við dýrtíðarmál eða baráttu á móti dýrtíðinni, þetta, sem við erum hér að ræða um, nema að einu leyti. Það, að samþ. þetta frv., sem tveir þm. hafa flutt, hv. 8. þm. Reykv. og hv. 11. landsk., og ég einn úr fjhn. er meðmæltur, það er ráðstöfun gegn dýrtíðinni, þetta að afnema vísitölubindinguna, það er að létta dýrtíðinni af launamönnum í landinu — það þýðir, að gefa þeim fleiri peninga til að geta staðið á móti dýrtíðinni. Þetta frv. miðar að því að gera dýrtíðina léttbærari fyrir alþýðuheimilin í landinu. Við höfum oft sagt það, fulltrúar Sósfl., að það mundi ekki standa á alþýðu manna að taka á sig fórnir, þegar það væri sýnt, að verið væri að gera ráðstafanir, sem væru til að minnka dýrtíðina í landinu, þegar það væri sýnt, að það væri byrjað á þeim sem breiðust hefðu bökin, — þeir væru fyrst látnir fórna og komið síðast að þeim fátækustu. En það er svo fjarri því, að um nokkuð slíkt hafi verið að ræða. Þess vegna er það, að þetta mál á kröfu á því, að Alþ. samþ. það, svo framarlega sem þm. þessarar hv. d. hafa trúað því, sem hæstv. forsrh. sagði, þegar þessi l. voru samþ. í desember 1947, að með þeim væri verið að tryggja þjóðina gegn atvinnuleysi, — svo framarlega sem þeir hafa samþ. þetta í þeirri trú, að þeir væru að leggja augnabliksfórn á almenning til að tryggja honum betri framtíð, þá eiga þeir nú að samþ. þetta frv., sem hér liggur fyrir, um að afnema vísitölubindinguna. Ég býst ekki við, að neinn þeirra treysti sér til að halda öðru fram en því, að allt hafi brugðizt, sem hæstv. forsrh. sagði í þeirri ræðu. En hafi hæstv. forsrh. vitað það þá, að það mundi bregðast, þá hefur hann verið að blekkja þm. og þá hafa þeir aðstöðu til þess nú að leiðrétta það og bæta fyrir það, sem þeir gerðu þá. Vilji þeir ekki leiðrétta nú það, sem þá var rangt gert, ekki aðeins siðferðilega, af því að það var óréttlátt gagnvart almenningi, heldur var það einnig pólitískt rangt, af því að það var vitlaus ráðstöfun, sem sýndi sig, að ekki var hægt að standa við. Ef hv. þm., hefur verið ljóst, að það var rangt, sem þeir gerðu, þá hafa þeir nú tækifæri til að leiðrétta það, en svo framarlega sem þeir gera það ekki, þá gerast þeir samábyrgir þeirri pólitík, sem þessi ríkisstj. hefur verið að reka þessi tvö ár, sem hefur leitt til atvinnuleysis í landinu, hefur leitt til þyngstu álaga, sem nokkurn tíma hafa verið lagðar á almenning, og leitt til þess, að almenningur hefur síður þrek til að standa undir þeim álögum en nokkurn tíma áður. Ég álit þess vegna, að hv. þm. eigi að samþ. þetta frv. Það liggja fyrir áskoranir frá flestum kjördæmum landsins, sem lesnar hafa verið upp af hæstv. forseta, um að samþykkja þetta frv. Það liggja fyrir samþykktir frá öllum helztu landssamböndum launafólks í landinu, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og afgreiðslumannadeild Verzlunarmannafélags Reykjavíkur, um að samþykkja þetta frv. Ég efast ekki um, að það sé í samræmi við vilja almennings í þessu landi, að vísitölubindingin sé afnumin, og það, sem liggur við, svo framarlega sem það er ekki gert, það er almenn barátta í landinu fyrir grunnkaupshækkunum, sem stjórnarflokkarnir treysta sér ekki til að taka siðferðilega afstöðu á móti, þannig að þeir þm., sem fella þetta frv., stofna til vinnudeilna í landinu og stofna til þess að, valda þjóðinni stórkostlegu tjóni, og með allan togaraflotann bundinn við hafnargarðinn og þann hluta ríkisstj., sem enn er á Íslandi, ófæran um að vinna nokkuð af viti í stjórnmálum þjóðarinnar væri það ábyrgðarhluti af hálfu þm. að vilja ekki taka þátt í því að afnema þessi l., sem aðeins hafa komið illu einu af stað og aðeins orðið til að auka óréttinn í landinu og munu nú stofna til illdeilna, svo framarlega sem þau eru látin haldast áfram. Ég vil þess vegna biðja hv. þm. um að athuga mjög alvarlega, hvað hér er í húfi. Við sögðum fyrir, þegar l. voru samþ. 1947, hverjar afleiðingarnar yrðu, og ekki veldur sá, er varar, og nú geta menn horfzt í augu við staðreyndirnar. En það er ekki nóg, menn verða að hafa kjark til að breyta þeim staðreyndum, sem þar eru fyrir. Það er hægt með því að samþ. þetta frv., eins og ég hef lagt til.