14.03.1949
Neðri deild: 80. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í C-deild Alþingistíðinda. (3370)

49. mál, dýrtíðarráðstafanir

Hermann Guðmundsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að halda langa ræðu, því að hv. 2. þm. Reykv. hefur sagt svo margt ágætt um þetta mál og margt af því, sem ég vildi segja. Ég vil einu sinni enn vekja athygli á því, sem ég sagði, ásamt hv. 8. þm. Reykv., þegar þessi l. voru samþ., að með því væri verið að vinna óskynsamlegt verk, sem mundi hefna sín í framtíðinni. Nú er meira en ár síðan l. voru sett, og hefur sannazt, að hér er ekki um einhlíta dýrtíðarráðstöfun að ræða, heldur einhliða árás á launþega. Það hefur líka sýnt sig, að á þessu tímabili hafa lífskjör verkamanna og annarra vinnandi manna versnað, og samkvæmt áliti sérfróðra manna er jafnvel vísitalan, sem verkamenn fengu laun sín greidd eftir áður, mjög röng og allt of lág, miðað við það, sem ætti að vera í samræmi við verðlagið. Tilgangurinn með því að flytja þetta frv. er sá, að gefa Alþ. tækifæri til þess að breyta óskynsamlegri afstöðu, sem það tók og laga þann skarða hlut, sem launþegar hafa orðið að þola. Ég vil benda á það, að það var eftir harða og langa baráttu, sem launþegum tókst að koma kaupgjaldi sínu í samræmi við verðlag á nauðsynjavöru með því að fá vísitöluuppbót greidda á laun sín, og það var talið af öllum ábyrgum mönnum, að slíkt væri eðlilegt og gæti verið blessunarríkt, því að það mundi hafa áhrif til að draga úr vinnudeilum, sem ella væru, þegar verkamenn segja upp samningum til hækkunar, vegna þess að dýrtíðin hefur vaxið, og afleiðingin af þessu hefur líka verið vinnufriður. En nú er svo komið, að stórkostlegt verkfall stendur yfir á togaraflotanum og alls staðar er verið að gera athuganir, sem ég býst við, að séu undanfari að samningauppsögnum, og meira að segja Alþýðusambandið er með viðræður við ríkisvaldið um lagfæringu á vísitölunni. Hvernig þetta gengur, vitum við ekki, en það er staðreynd að það kaupgjald, sem nú er greitt, nægir ekki til að framfleyta verkamönnum og þeirra fjölskyldum, og verkalýðsfélögin hafa því verið að segja upp samningum og ná samningum við atvinnurekendur.

Hv. frsm. meiri hl., hv. þm. V-Ísf., gat um það í upphafi máls síns, að ekki hefði verið hægt að búast við afgreiðslu þessa máls. Ég skil ekki vel, hvað hv. þm. á við með slíku orðalagi, vegna þess að ég álít, að ég og hv. 8. þm. Reykv. höfum fyllsta rétt til að flytja frv. á Alþ. og getum vænzt þess, að það fái þinglega meðferð. Að vísu hefur þetta mál fengið lengri afgreiðslufrest en flest önnur mál, en meiri hl. hefur lagt fram sitt álit, eftir að búið var að reka á eftir því. Ef ég vildi lesa í málið, þá mundi ég ætla, að það, sem hv. þm. meinti, væri, að það væri vitað fyrir fram, hvernig deildin er stemmd í þessu máli, — að það, sem fyrir ári var samþ., sem l., mundu þm. standa við nú. Nú hafði ég reiknað með því, að hv. þm. væru ekki svo fastir við skoðun, sem þeir sæju, að væri röng, að þeir fengjust ekki til að breyta henni, þegar það er skynsamlegt. Tíminn hefur leitt í ljós, að þessar ráðstafanir voru óskynsamlegar, og þess vegna er fullkomin ástæða til að ætla, að þm. séu nú á annarri skoðun, en þeir voru þá.

Hv. frsm. meiri hl. gat um það í sinni ræðu, að þetta ákvæði l. um að binda vísitöluna væri ráðstöfun gegn verðbólgunni. Þetta er aðeins fullyrðing og annað ekki, enda gerði hv. frsm. enga tilraun til að finna þeim orðum sínum stað. Hann kom að því, að það hefði ekki verið hægt að halda áfram á þeirri braut, sem gengin hefði verið, að kaupgjald og verðlag hækkaði til skiptis og togaði allt upp. Það er rétt, að þessu var haldið fram, þegar l. voru samþ., en reynslan hefur sýnt, að ríkisstj. og þau ráð, sem hún hefur sér til aðstoðar, hafa haldið áfram að hækka verðlag á afurðunum, þó að kaup launþega hafi ekki hækkað, svo að þessi staðhæfing stenzt ekki. Hv. þm. sagði að lokum, að ríkisstj. mundi halda áfram slíkri viðleitni sem hún hefði haft í þessum efnum. Við í stjórnarandstöðunni höfum haldið fram, að ríkisstj. hafi skoðað það sem meginatriði, sem hún þyrfti að gera, að halda niðri kjörum launþeganna. Þessu hefur verið borið á móti af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj. En ég get fullvissað hv. frsm. meiri hl. um, að það er ekki víst, að langlundargeð verkalýðsins endist öllu lengur til að þola þær mótgerðir, sem verkalýðnum hafa verið sýndar fram að þessu.