18.03.1949
Neðri deild: 83. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í C-deild Alþingistíðinda. (3374)

49. mál, dýrtíðarráðstafanir

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það eru nokkrir dagar síðan þetta mál var á dagskrá, og í langri ræðu sinni þá vék 2. þm. Reykv. nokkuð að mér og þeim umr., sem fóru fram í hittiðfyrra um dýrtíðarfrv. hæstv. ríkisstj. Hv. 2. þm. Reykv. sagði af því tilefni, að ég var ekki viðstaddur í hv. d., þegar hann flutti ræðu sína, að ég mundi hafa flúið d. til þess að þurfa ekki að mæta honum í umr. um þetta mál, og hafði eftir mér viss ummæli um dýrtíðarlöggjöfina og ráðstafanir hæstv. ríkisstj. frá því í hittiðfyrra. Hann taldi, að ég mundi mjög ógjarna vilja við þau ummæli kannast nú eða standa við þau. Nú skal það fúslega játað, að hv. 2. þm. Reykv. er mikill mælsku- og málafylgjumaður, þó að svo vilji til, að sá málstaður, sem hann tekur að sér að verja, sé venjulega þannig, að honum kemur ekki að gagni málsnilldin, eins og mundi vera, ef hann beitti henni í þágu betri málstaðar. En viðvíkjandi því, að ég þyrði ekki að mæta honum hér, en það kemur ekki mjög oft fyrir, að ég mæti ekki á fundum í d., — þá mætti ég ekki vegna þess, að ég var kvaddur til viðtals við utanbæjarmann, sem ég varð að sinna, og er það ástæðan til þess, að ég heyrði ekki ræðu hv. 2. þm. Reykv. Mér var sagt frá efni ræðunnar, og mun ég nú svara honum með fáeinum orðum.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að þegar vísitölubindingin var lögfest í árslok 1947, hafi orðið allmiklar umræður um, hvað vísitalan mundi lækka mikið við þessar dýrtíðarráðstafanir ríkisstj. og hvað vísitölubindingin fæli í sér mikla raunverulega kauplækkun hjá launþegum. Ég hef lesið yfir þá ræðu, sem ég flutti við það tækifæri, og í henni segi ég, að ég geri ráð fyrir, að raunveruleg kauplækkun launþega vegna þessara ráðstafana sé um 7–8%, og svipaða eða alveg sömu tölu tók hæstv. viðskmrh., þegar hann tók þátt í umr. um þetta mál í hv. Ed. Hins vegar hafði forsrh. í frumræðu sinni fyrir málinu tekið nokkru lægri tölu. Hann sagði, að hagstofan hefði áætlað, að raunveruleg kaupgjaldslækkun vegna vísitölubindingarinnar mundi vera um það bil 5%, eða að vísitalan mundi vegna þessara ráðstafana lækka í um það bil 315 stig. Þó að þingskrifararnir hafi ekki haft það eftir mér, að ég hafi talið, að vísitalan mundi lækka niður í 315 stig, má vel vera, að ég hafi í minni ræðu tilgreint lauslega einhverjar af þeim röksemdum, sem þá var almennt haldið á lofti fyrir því, að líklegt væri, að vísitalan mundi lækka niður í 315 stig, þó að ég hafi að sjálfsögðu hvorki haft vilja né getu til að taka neina ábyrgð á þeim útreikningi eða þeim tölum. Mér vitanlega fór engin nákvæm athugun fram á því um þetta leyti, hvað vísitalan mundi raunverulega lækka niður í vegna vísitölubindingarinnar. Ég átti fyrir ríkisstj. talsverðan þátt í hagfræðilegum útreikningi í sambandi við undirbúning löggjafarinnar, en ég tók engan þátt í neinum útreikningi í þá átt að leiða nákvæmlega í ljós, hvað vísitalan mundi lækka vegna þeirra dýrtíðarráðstafana, og mér vitanlega fóru engir útreikningar fram um það mál. Það, sem ég hef sagt um þetta atriði, hefur því verið byggt á lauslegum athugunum. En segjum nú, að ég hafi sagt eitthvað til stuðnings þeirri skoðun, sem var haldið fram, m. a. af hæstv. forsrh., að vísitalan mundi líklega lækka niður í 315 stig vegna dýrtíðarl., hver er þá raunveruleikinn og hvernig var þessi spádómur, miðað við þá spádóma, sem settir voru fram af hv. 2. þm. Reykv. og skoðanabræðrum hans hér á Alþ. Hv. 4. landsk. þm., sem hafði forustu í umræðum um þetta mál, fyrir sinn flokk í Ed., margstaðhæfði, að við setningu þessara l. mundi dýrtíðarvísitalan hækka upp í 350 stig, og má mikið vera, ef hv. 2. þm. Reykv. hefur ekki farið með í þessari hv. d. svipaða staðhæfingu, þó að ég muni það ekki. Hitt man ég glöggt, enda var ræða hv. 4. landsk. þm. prentuð í Þjóðviljanum. Hver varð svo reynslan? Fyrsta vísitala, sem reiknuð var út, eftir að l. voru sett, reyndist 319 stig. Úr 328 stigum lækkaði hún niður í 319 stig, en fór ekki upp í 350 stig, eins og forsvarsmenn Sósfl. spáðu, og er ekki orðin það enn. Hitt er svo allt annað mál, að með því móti að reikna, að vísitalan kynni að hækka eitthvað af öðrum orsökum en vegna dýrtíðarl., þá hefði það getað orðið um 10 stig. Hún mun nú vera 329 stig. Auðvitað hefði það ekki verið á mínu færi og væntanlega ekki annarra heldur að staðhæfa, að með setningu dýrtíðarl. væri skorið fyrir alla möguleika á því, að dýrtíðarvísitalan kynni að hækka nokkurn tíma úr því. Jafnvel þó að ég hafi látið mér eitthvað slíkt um munn fara því til rökstuðnings, að vísitalan mundi fara niður í 315 stig, þá er sú áætlun vissulega ekki fjarri því, sem raunverulega varð, og mjög miklu nær raunveruleikanum en það, sem forsvarsmenn Sósfl. spáðu, og hefur þetta orðið nær því, sem hv. 2. þm. Reykv. segir, að ég hafi fullyrt á þessu stigi málsins og meira að segja lagt minn fræðimennskuheiður við, eins og hann mun hafa komizt að orði hér um daginn. Þetta er ekki rétt haft eftir, svo sem hinar skrifuðu ræður þingskrifaranna bera gleggst vitni um. Þetta var tilefnið til þess, að ég stóð upp, til að blanda mér í þessar umr. Það er auðvitað algert vindhögg hjá hv. 2. þm. Reykv., þegar hann í sinni löngu hrókaræðu um þetta mál er að reyna að koma einhverri ábyrgð á mig af vísitölubindingunni, sem gerð var í árslok 1947. Eins og hann og aðrir þm. muna, sem tóku þátt í umr. um þetta mál, þá andmælti ég frv. og m. a. vísitölubindingunni. (EOl: Greiddi hv. þm. atkv. á móti því?) Ég taldi, að þær ráðstafanir, sem lagðar væru á herðar launþeganna og á efnaminni stéttirnar væru tiltölulega þyngri, en þær ráðstafanir, sem lagðar væru á ríku og efnameiri stéttirnar, og vegna þess treysti ég mér ekki til að fylgja frv., en hins vegar, þar sem hér var um að ræða eitthvert þýðingarmesta frv. þeirrar ríkisstj., sem ég studdi, beitti ég mér ekki gegn því, og þess vegna greiddi ég ekki atkv. um málið.

Enn fremur vildi ég svo nota ræðu hv. 2. þm. Reykv. til að lýsa því yfir, að ég tel, að vegna þeirra 10 stiga hækkunar, sem orðið hefur á vísitölunni síðan dýrtíðarl. voru sett, vegna þess að hún hefur hækkað úr 319 stigum upp í 329 stig, þá sé grundvöllurinn fyrir þeirri lagasetningu að verulegu leyti brostinn, og ég tel þau launþegasamtök, sem sættu sig við þessa dýrtíðarvísitölu í trausti þess, að vísitalan mundi ekki hækka verulega frá því, sem hún lækkaði í, 319 stig, hafa fyllsta siðferðilegan rétt til að endurskoða afstöðu sína í kaupgjaldsmálum yfir höfuð að tala, eins og alþýðusambandsstjórnin er að gera nú og eins og stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja er að gera nú. Og ég vil í framhaldi af hinni miklu ræðu hv. 2. þm. Reykv. um þetta mál segja það, að ég fyrir mitt leyti er á sömu skoðun og stj. þessara tveggja stærstu launþegasamtaka, sem ég nefndi áðan, um það, að það sé ástæða til að taka til fyllstu athugunar að hækka kaupgjald í landinu til þess að mæta að einhverju eða öllu leyti þeirri hækkun á framfærslukostnaði, sem orðið hefur síðan dýrtíðarl. voru sett, því að þær fórnir, sem launastéttirnar tóku á sig með þeirri löggjöf, voru allmiklar, og launakjör hinna lægst launuðu eru vissulega ekki betri en svo, að takmörk eru fyrir því, hvað þeir geta tekið á sig til viðbótar í skertum launum. Þetta mun og vera stefna alþýðusambandsstjórnarinnar, sem nú er, og stefna stjórnar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, að mæta á einhvern hátt þeirri kjaraskerðingu, sem hefur orðið síðan dýrtíðarl. voru sett, með 10 stiga hækkun vísitölunnar, þó að það sé ekki víst, að þessi launþegasamtök muni aðhyllast þá leið til þess að bæta mönnum kjararýrnunina, sem farið er fram á í því frv., sem hér liggur fyrir til umr., sem er að taka upp gamla vísitölukerfið aftur. (EOl: Er þetta stefna Alþfl.?) Þetta er stefna Alþfl. Mér vitanlega er ekki ágreiningur um þessa stefnu innan alþýðusambandsstjórnarinnar. Það er engan veginn víst, og persónulega vil ég segja það fyrir mitt leyti, að ég efast mjög um, að það sé skynsamlegasta lausnin á því máli, sem hér er um að ræða, að taka upp gamla vísitölukerfið. Það er hægt að bæta úr þeirri kjararýrnun, sem orðið hefur á margan máta. Þetta, sem ég að síðustu hef sagt, er sagt til að andmæla því, sem fram kemur í hinni miklu ræðu hv. 2. þm. Reykv., að það sé enginn flokkur í landinu og engir aðilar í landinu aðrir en miðstj. og þm. Sósfl., sem hafi nokkurn hug á því að bæta kjör lægst launuðu manna þjóðarinnar, hug á að bæta upp þá kjaraskerðingu, sem hefur átt sér stað síðan dýrtíðarl. voru sett.