18.03.1949
Neðri deild: 83. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í C-deild Alþingistíðinda. (3375)

49. mál, dýrtíðarráðstafanir

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Þetta mál hefur nú verið rætt dálítið við þessa umr. Málið var lengi í n. og virðist, eftir þeirri afgreiðslu, sem það fékk þar, hafa verið talið smámál, því að eftir allan þann tíma fylgja því úr hlaði nokkrar línur frá meiri hl. fjhn. um, „að meiri hl. fjhn. telur ekki fært að víkja frá þeirri stefnu ríkisstj.. að festa kaupvísitöluna, vegna hættunnar á sívaxandi verðbólgu“. Annað hefur ekki komið frá meiri hl. n. um málið og undirstrikun á þessum orðum frá hv. frsm. meiri hl. n. Það virðist þess vegna ekki vera ákaflega mikið í húfi fyrir hæstv. Alþ., þó að launþegar landsins séu með einum l. sviptir hluta af sínu kaupi, sem nemur eftir útreikningi þeirra manna, sem um þetta hafa fjallað, 50 millj. kr. Það virðist því vera álit hv. alþm. og hæstv. ríkisstj., að lægst launuðu stéttirnar í þjóðfélaginu geti fórnað þessu á altari dýrtíðarinnar til þess að vinna bug á henni. Hvað hefur þetta gert? Hefur það unnið bug á dýrtíðinni? Hefur það komið fram í reyndinni, að svo hafi verið sem haldið var fram af öllum, sem mæltu með þessum l., en launþegum var hótað gengislækkun og öðru fleiru, ef þeir ekki sættu sig við vísitölubindinguna? Nú finnst mér, að ekki væri óeðlilegt, að hlutur hæstv. ríkisstj. og meiri hl. Alþ. í þessu máli væri dálítið athugaður. Fyrir 2–3 árum var orðið þannig ástatt með launamenn ríkisins, að þeim var ekki borgað kaup eftir neinum l., heldur með alls konar uppbótum, svo að þeir gætu dregið fram lífið. Svo eru samþ. launal., sem er í raun og veru samræming á því, sem verið hefur, en um mjög litlar hækkanir að ræða. Meiri hl. hæstv. Alþ. áleit, að mennirnir þyrftu þessi laun, til þess að þeir gætu lifað á þeim. Hvað skeður svo næsta þing á eftir? Þá er það sama löggjafarvaldið, sem tekur þetta af. Þá er álitið, að launþegarnir geti fórnað þessu. Nokkurn veginn hið sama er að segja um verkamennina og aðra slíka. Þeir hafa árum saman staðið í harki við atvinnurekendurna í landinu um kaupsamninga og ýmis fríðindi eða réttindi, til þess að farið væri með þá eins og menn, en ekki þræla. Það hefur gengið svo langt, að skipuð hefur verið ríkisskipuð n. til að semja um sátt, og sú sátt hefur verið undirskrifuð af báðum aðilum. Hver er útkoman af því? Útkoman er sú, að sama valdið, Alþ., hefur svipt þessa launþega samningsrétti og tekið hluta af kaupi þeirra. Þetta hefur allt verið gert til að forðast dýrtíðina. Það var talið, að með þessum ráðstöfunum mundi vísitalan lækka mjög mikið. Ég mun ekki ræða um skoðun hv. 4. þm. Reykv., en mér þótti vænt um, að hann skyldi taka undir þetta mál eins og hann gerði, og ég vona, að hann haldi fast við þennan málstað. En það er svo komið, með þeim vísitölugrundvelli, sem gilt hefur, að ekki einn einasti maður hefur treyst sér til að vefengja, að dýrtíðarvísitalan muni vera um 75 stigum lægri, en hún ætti að vera. Undanfarin ár hafði grundvöllur vísitölunnar verið mikill hemill á dýrtíðinni. Verzlunarvaldið t. d. lagði mikla áherzlu á að fá að hækka sínar vörur, en hin lögfesta vísitala orsakaði það, að ríkisstj. leitaði heldur ýmissa annarra ráða. Það var eins og stífla hefði verið tekin úr hvað þetta snerti, þegar vísitölubindingin var lögfest. Og það, sem gerzt hefur, er þetta. Það má fullyrða, að það er ekki til einn einasti maður, sem er ekki sannfærður um, að dýrtíðin hefur aukizt langtum meir síðan vísitölubindingin var lögfest, en nokkurn tíma á árunum, þegar vísitalan var alltaf að hækka, vegna þess að hækkunin á öllum hlutum, sem ekki er tekið tillit til við vísitöluútreikninginn, er svo gífurlega miklu meiri, en hún áður var. Það er dálítið einkennilegt, að enginn af hv. þm. utan hv. 4. þm.. Reykv. hefur gert nokkra tilraun til þess að vefengja það, að þetta ástand sé gott. Það lítur út fyrir, að það sé um að gera að láta þetta mál fara með þögninni gegnum hæstv. Alþ.

Viðvíkjandi því, að verkalýðsfélögin sem slík hafi enn þá óbundnar hendur um að hækka sín grunnlaun, þá er það rétt. Og eftir þessar misheppnuðu tilraunir með vísitölubindinguna er það sýnilegt, að menn hafa verið á rangri leið. Maður hefði getað haldið, að þessar fórnir launþeganna hefðu átt að vera helzta ráðið til þess að halda niðri dýrtíðinni, en eftir þessi ár, sem liðin eru síðan vísitölubindingin var lögfest, sést, að við erum engu betur sett en við vorum áður en þetta var gert. En hvað skeður svo? Til þess að halda þessu ástandi við þarf nú að auka stórkostlega dýrtíðina, hækka tolla og auka tekjur ríkissjóðs. Þetta er nú komið svo langt, að enginn maður sér leið til þess að leggja meiri skatta á almenning til þess að halda þessu ástandi áfram, og þó standa menn á móti afnámi þessara l. Það hefur komið fyrir í Reykjavík, þegar maður hefur fengið sitt kaup, þá hefur hann fengið eftir vikuna 10 krónur. M. ö. o., þegar tekið er mánaðarlega af launum hans og hann hefur haft það hátt kaup árið á undan, að skatturinn er kringum 400 krónur. Það er ekkert um það spurt, hvort hann hafi nokkuð handa heimilinu. Það eru þessir menn, sem þessi l. ná til. Það eru þessir menn, sem menn hér á þingi hafa hjálpað til að koma í þessa aðstöðu. Og það hefur sýnt sig, að þetta hefur ekki batnað, heldur versnað. Það er þetta, sem verkamenn vilja fá leiðrétt. En hvað er sagt við þá? Þeir vilja gera uppreisn. Þeir vilja setja allt í strand. Þeir vilja leggja atvinnuvegina í rústir. Þetta er við þá sagt, og þó gera þeir ekkert annað en að berjast fyrir að hafa ofan í sig að borða. Mér finnst a. m. k., að við, sem höfum flutt þetta frv., ættum að fá greinileg rök fyrir, hvað hefur batnað. Við eigum heimtingu á því, sem erum hér fulltrúar frá launþegum, að fá að vita, hvað það er, sem hefur batnað, og hvernig þetta eigi að verða áfram. Ég vona, að sú skýring komi áður en þessari umr, lýkur.