18.03.1949
Neðri deild: 83. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í C-deild Alþingistíðinda. (3376)

49. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson) :

Herra forseti. Það var mjög merkileg yfirlýsing, sem hv. 4. þm. Reykv. gaf hér áðan, að því er mér skildist, þegar hann svaraði mínu frammíkalli fyrir hönd Alþfl. Það er leitt, að hv. frsm. fjhn., þm. V-Ísf., sem líka er alþýðuflokksmaður og talaði hér fyrir hönd meiri hl., skyldi ekki hafa gefið þessa yfirlýsingu. Það hefði verið fróðlegt að fá hana. Enn fremur vísaði hann til þess, að ríkisstj. mundi standa fyrir sínu máli, en hún hefur látið það undir höfuð leggjast. Það hefði verið æskilegt, að hæstv. forsrh., sem líka er alþýðuflokksmaður, hefði gefið þessa yfirlýsingu. En meðan hv. 4. þm. Reykv. stendur við, að það sé yfirlýsing frá Alþfl., þá legg ég það til grundvallar og mun halda mér við það í minni ræðu.

Ég ætla þá fyrst að minnast nokkrum orðum á það, sem hann sagði, að ég hefði gefið sér tilefni til að ræða.

Hv. þm. sagði, að ég hefði vitnað í það, sem ég hefði sagt áður um hans ræðu, þegar þessi l. voru samþ. Hann kvaðst ekki hafa fundið í þingtíðindunum þá tilvitnun í sína eigin ræðu, sem ég hefði byggt á. Ég veit ekki, hvort hann hefur þann sið að lesa yfir sínar eigin ræður. Ég geri það ekki, en ég skal lofa honum að heyra úr þeirri prentuðu ræðu á 164. bls., hvað ég hef sagt, vitnandi í ræðu, sem hann hafði haldið áður, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég skoraði á hæstv. forsrh. að gefa yfirlýsingu um það, að hæstv. stjórn mundi ekki misbeita því valdi, sem hún fær með þessu frv., til þess að hætta niðurgreiðslum á vísitölunni. Engin slík yfirlýsing hefur komið fram. Svo er hv. 4.. þm. Reykv. sendur út af örkinni eins og áður, þegar hæstv. stjórn er í vandræðum.

Hann er látinn lýsa því yfir með sínum óskeikulleik og leggja þar við sinn vísindaheiður og prófessorsheiður, að vísitalan muni lækka niður í 315 stig. Vill hæstv. stjórn þá setja ný l., sem tryggja, að vísitalan verði ekki yfir 315 stig? Það er gaman að heyra, hverju hún svarar því.

Hv. 4. þm. Reykv. ætti að athuga vel, hvað hann er að gera í þessu máli. Það er verið að láta hann nota heiður sinn sem vísindamanns og prófessors til að gefa yfirlýsingu fyrir pólitíska glæframenn til að hjálpa þeim að koma á l., sem verða til þess að stela 50 millj. af alþýðu þessa lands. Af því að þessi þm. er ungur hér á þingi og hefur skamman tíma haft afskipti af hæstv. forsrh., þá vil ég ráðleggja honum að vara sig á því, sem verið er að láta hann gera. Það verður vitnað í þessi ummæli, þegar stjórnin er búin að svíkja, þegar vísitalan er komin langt yfir 315 stig. Nú á að reyna að nota hans prófessorstitil, og þegar búið er að jaska honum nóg út, þá fær hann sín laun. Stefán Jóh. Stefánsson vill hann pólitískt feigan, vegna þess að hann varð til að reka hæstv. núverandi forsrh. úr efsta sæti alþýðuflokkslistans með 24 stunda úrslitakostum“.

Þetta er lítill þáttur úr ræðu, sem ég hafði haldið að gefnu tilefni frá honum. En það lítur út fyrir, að hv. 4. þm. Reykv. hafi orðið í vandræðum út af þessum orðum sínum og þau séu dottin úr ræðunni. Það lítur út fyrir, að hann hafi viljað passa upp á, að þau fyndust ekki í handritinu. (GÞG: Þetta er ósvífin aðdróttun. Ræðan er eins og þingskrifarinn gekk frá henni. ) Svo talar hann um, að ég vilji koma sérstakri ábyrgð á sig. Það vildi ég ekki. Ég gerði það ekki, heldur beindi mínum orðum til hæstv. forsrh. Ég mundi alls ekki reyna að klína sérstakri ábyrgð á hv. 4. þm. Reykv. nema þeirri, sem fólst í ræðu minni. Hann sat hjá. Hann hefur sjálfsagt undirbúið frv. með hæstv. stj., en fengið að sitja hjá. En hann hefur lýst því sjálfur yfir, að hann teldi þann grundvöll brostinn. Hefði sú yfirlýsing komið frá stóli hæstv. forsrh., hefði maður skilið það svo, að nú væri hæstv. stj. að segja af sér. Þessi hv. þm. viðurkennir, að sá grundvöllur, sem fyrsta stj. Alþfl. hér á landi hefur lagt til að lækna dýrtíðina, sé brostinn. Það er þýðingarmikil viðurkenning. Síðan lýsir hann yfir, að tvö sambönd, sem hann þekkir vel, Alþýðusamband Íslands og bandalag starfsmanna ríkis og bæja, vilji beita sér fyrir grunnkaupshækkunum og hann sé því sammála. Þegar ég spurði hann, hvort þetta væri stefna Alþfl., þá skildist mér hann svara því játandi. Það er ánægjulegt út af fyrir sig, að Alþfl., sem fyrir einu ári síðan lýsti yfir, að ef menn ætluðu að gangast fyrir grunnkaupshækkunum hér á landi út af þrælalögum, sem þá voru sett, þá væri það glæpur, það var endurtekið hvað eftir annað af hæstv. viðskmrh., sem nú er í Ameríku, — það er ánægjulegt, að flokkurinn skuli nú hafa tekið þessa stefnubreyt. Nú er því lýst yfir, þegar búið er að praktisera þessi þrælalög með þeirri ægilegu lífskjaraskerðingu, sem þau hafa í för með sér, að allt, sem flokkurinn var að gera, sé glæpur og nú eigi að gera það, sem hann stimplaði sem glæp fyrir ári síðan. Hefði ekki verið nær að athuga fyrir ári síðan, hvað verið var þá að leggja út í?

Hvernig eru endurbæturnar, sem Alþfl. ætlar að gera á sínum eigin vitleysum? Hv. 4. þm. Reykv. hefur lýst yfir, að það sé stefna Alþfl.samþ. ekki þetta frv., sem tveir formenn stærstu verkamannafélaganna hafa lagt fram, um að veita verkamönnum aftur það frelsi, sem sem af þeim hefur verið tekið með þessum l., sem hér á að breyta. Nei, flokkurinn vill gangast fyrir grunnkaupshækkunum í landinu. Hvað þýða grunnkaupshækkanir nú? Þær þýða verkföll, óhjákvæmilega. Það mun sízt standa á okkur sósíalistum að berjast fyrir, að verkamenn hækki sitt kaup með verkföllum, ef ekki er nein önnur leið til. En finnst hv. 4. þm. Reykv. það svo glæsileg baráttuaðferð að grípa til þess gagnvart þjóðfélaginu að láta verkamenn standa í mánaða verkföllum með þeim kostnaði, sem það hefur í för með sér fyrir þá og þjóðfélagið, ef hægt er að veita þeim sama rétt með einfaldara móti? Er það meining Alþfl. að gangast fyrir verkföllum úti um allt land, þegar Alþ. hefur möguleika til að veita verkamönnum þær hækkanir, sem Alþfl. segist vilja veita þeim, með því að samþ. þetta frv.? Á það endilega að kosta verkamannastéttina mánaðalöng verkföll með þeirri kvöl, sem þau hafa að þýða fyrir verkamenn, og tjóni fyrir þjóðfélagið, þegar Alþ. hefur það í hendi sér að veita verkamönnum þetta sama án allra árekstra? Hver er meiningin með þessu? Það væri gaman að fá upplýsingar um, hvernig stendur á þessari breyttu pólitík. Því er lýst yfir, að ekki megi samþ. þetta frv. og viðurkenna þar með, að kaup skuli greitt samkvæmt vísitölu, heldur á endilega að fara út í verkföll. Það blasir nú við frammi fyrir þjóðinni, að búið er að henda 20 millj. króna í sjóinn vegna togarastöðvunarinnar. Það hefði eitthvað verið sagt, ef þetta hefði komið frá Sósfl. Þá hefði það verið kallað skemmdarstarfsemi og niðurrifspólitík. En það á að vera bjargráðastarfsemi, þegar það kemur frá Alþfl. Nú á að leggja út í verkföll til að vinna upp þessa 9 stiga hækkun, sem orðið hefur. Kannske þessir menn séu að ráðgera verkfall út af 9 stigum af því, að þeir treysti, að verkamenn leggi ekki út í verkfall fyrir svo lítið, af , því að þeim þyki ekki taka því, því að þeir vilja ekki leggja út í slíka baráttu fyrir lítið.

Hv. 4. þm. Reykv. talaði um Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Er það meining hans, að það samband fari út í verkfall, þó að það hafi ekki verkfallsrétt? Eiga þeir að fara út í ólöglegt verkfall? Hvernig eiga þeir að ná rétti sínum? Eiga þeir að halda þing úti í listamannaskála og samþ. þar sínar kröfur, rjúfa síðan þingið og Alþfl. segi, að þeir séu með þeim, og svo ekki meira? Flokkurinn hefur ekki lagt fram frv. um, að starfsmenn ríkis og bæja hafi verkfallsrétt. Það á að veita þeim kauphækkun með því að samþ. þetta frv. og láta þá fá laun sín greidd samkvæmt opinberri vísitölu, sem er 329 stig í staðinn fyrir 300, og það er upp undir það eins mikil hækkun og þeir fara fram á. Hver er meiningin með þessu verkfallsskrafi fyrir hönd launþegasambands, sem hefur ekki rétt til verkfalls? Vill Alþfl. leiða þá út í ólöglegt verkfall, en neita þeim um þá uppbót, sem þeir eiga rétt á samkvæmt launalögum? Hver er meiningin með þessu? Nú fer ég satt að segja ekki að skilja. Mér kemur þetta grunsamlega fyrir sjónir, þegar Alþfl., sem er búinn að gerast kauplækkunarpostuli í þjónustu auðmannanna í þjóðfélaginu til að stela af verkamönnum í tvö ár kaupi, sem þeim ber, þegar hann fer að tala um að hækka kaupið og eingöngu með verkföllum, en ekki með því að afnema þrælalög. Hvaða blekkingar eru hér á ferðinni?

Ég vildi vekja athygli á því, ef það skyldi vera farið að fara út í verkföll nú með öllum þeim kostnaði, sem það hefur fyrir verkamenn og þjóðfélagið, þá þætti mér líklegt, að Alþfl. mundi um leið rjúfa þing og efna til nýrra kosninga og það yrði reynt að sjá um, að verkföllin yrðu um svipað leyti og kosningar færu fram, til þess að Alþfl. gæti reynt að nudda af sér eitthvað af smáninni, sem hann hefur fengið við þessa tveggja ára forustu fyrir kaupþrælkuninni, og skömminni af að níðast á verkamönnum og þeirra samningsrétti. En hvað mundi eiga að gera eftir kosningarnar, þegar Alþfl. skriði aftur saman með hinum flokkunum, sem báðir eru búnir að lýsa yfir fylgi sínu við gengislækkun? Þá mundi hann samþ. gengislækkun, sem hann væri búinn að berjast á móti í kosningunum, eins og hann skreið inn 1939 og samþ. gengislækkun, sem hann hafði barizt á móti, og leika sama leikinn aftur.

Hvað yrði unnið við að fella þetta frv.? Ég held, að ef þetta frv. er samþ., þá mundi gengislækkun eftir kosningar af sjálfu sér hækka kaup starfsmanna ríkis og bæja og verkamanna, en grunnkaupshækkun aftur á móti ekki. Sem sé, það mundi vera meiningin að hjálpa þjóðstjórnarflokkunum eftir slíkar kosningar til að koma á gengislækkun að vera nú með því að fella þetta frv. nú og hindra þar með uppbót vegna gengislækkunar. Afleiðingin yrði því ný kauplækkun í landinu. Ég er hræddur um, að það verði ekki svona auðvelt fyrir Alþfl. að þurrka af sér sín verk frá síðustu áramótum. Ég er hræddur um, að menn sjái gegnum þessa blekkingu. Þetta mál er prófsteinn á, hvort flokkurinn meinar eitthvað með því, þegar hann segist vilja bæta kjör verkamanna og starfsmanna í landinu. Það er ekki til neins að ætla að vinka því frá sér með því að segja: Nei, við viljum ekki þetta frv., við viljum fá verkamenn út í verkföll. Verkamenn fara út í baráttu til að sigra. Sú barátta er stundum tvísýn, alltaf fórnfrek. Hér er hægt að vinna sigur, án þess að verkamenn þurfi að fara út í baráttu vikum og mánuðum saman og þjóðfélagið að bíða stórtjón. Þennan sigur má vinna með því að samþ. þetta frv. Að svo miklu leyti sem þm. Alþfl. eru kosnir af verkamönnum, hafa þeir ætlazt til, að þeir berjist fyrir bættum kjörum þeirra og létti þeim baráttuna. Þeir hafa ekki ætlazt til, að réttlætismálum sé vísað út úr þingsalnum og sagt við þá: Þið fátækir verkamenn getið farið út í verkföll vikum og mánuðum saman, til þess að við þurfum ekki að rétta upp höndina á Alþ. til að bæta ykkar kjör. Þið getið barizt sjálfir. Heldur hv. þm. að verkamenn skilji hann, ef hann ætlast til þess? Nei, prófsteinninn er ekki, hvort þeir eru að þvæla um verkföll, heldur hitt, hvernig þeir snúast við þessu frv.

Þetta frv. hefur verið stutt af svo að segja öllum verkalýðsfélögum landsins. Þau hafa skorað á Alþ. samþ. þetta frv. Fjölda þeirra er stjórnað af mönnum, sem tilheyra núverandi ríkisstj. Það er því ekkert undanfæri undan, að ef þeir vilja fá í gegn kauphækkun fyrir verkamenn og starfsmenn þjóðfélagsins, þá eiga þeir að afnema vísitöluskerðinguna. Það er í samræmi við þá kröfu, sem þessir menn hafa gert. Hv. 4. þm. Reykv. þarf ekki að telja mér trú um, að breyt. á launal. fari viðstöðulítið í gegn nú. Hann veit, hvað það kostar að fá launal. í gegn. Hann ætti að vita, að Sjálfstfl. brást í Ed., þegar launal. voru sett, og þó var það samningsmál ríkisstj. Og að segja Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja að fara út í verkfall er vitleysa. Það hefur ekki verkfallsrétt og treystir sér ekki út í ólöglegt verkfall. Að samþ. ekki þetta frv., en stofna til verkfalla í þess stað er hræsni. Verkamenn eiga heimtingu á að fá það öryggi, sem í þessu frv. felst, ef gengisskerðing á að koma eftir kosningar. Þetta er réttlætismál gegn launþegum, réttlætismál, sem þeir eiga kröfu á að fá samþ., og hv. 4. þm. Reykv. viðurkennir, að þeir eigi að fá samþ., með því að segja, að grundvöllurinn sé brostinn undan þrælalögunum, sem verkamenn hafa orðið að búa undir á annað ár. Í öðru lagi er þetta ódýrasta aðferðin til að veita þetta réttlæti. Nú hefur stjórnarflokkur lýst yfir, að hann vilji beita sér fyrir verkföllum. Við vitum, hvað þau kosta. Við getum reiknað, hvað eitt slíkt verkfall eða verkbann kostar, togarastöðvunin í Reykjavík. Þeir þm., sem finnst til fyrirmyndar að fara út í þá baráttuaðferð, greiða atkv. móti þessu frv. En það kemur á þeirra bak að bera ábyrgðina af slíku verki. Verkamenn óska ekki eftir verkföllum. Þeir hafa samninga við atvinnurekendur, og samkvæmt þeim eiga þeir að fá fulla vísitöluuppbót á kaup sitt. Sú vísitala er nú 329 stig. En það er bannað að standa við þessa samninga og sagt, að aðeins skuli greiða 300. Þetta bann er hægt að afnema með því að samþ. þetta frv. Það kostar enga baráttu fyrir verkamenn og ekkert gjaldeyristap fyrir þjóðfélagið. Þess vegna er þessi aðferð, sem hér er lögð til af formönnum tveggja stærstu verkalýðsfélaganna í landinu, ódýrasta aðferðin, sem hægt er að fá til að tryggja þjóðfélagið upp á framtíðina gegn því, að gengislækkun yrði skellt á. En þeir, sem eru á móti þessu frv., eru að stofna til óeirða í landinu og tjóns fyrir þjóðfélagið. Þeir eru að varna því, að verkamenn og starfsmenn verði tryggðir gegn afleiðingum gengislækkunar, ef henni verður skellt á. Þetta vil ég segja, vegna þess að ég álít, að þinginu beri skylda til að reyna að leysa málið á friðsamlegan hátt, ekki sízt af því, að það sjálft skapaði þetta óréttlæti. En svo framarlega sem Alþ. fæst ekki til að leysa þetta mál á réttlátan og friðsamlegan hátt, þá verða verkamenn að grípa til þess að knýja málið í gegn með þeirri fórnfreku baráttu, sem verkföllin eru. Þess vegna fara verkamenn og fulltrúar þeirra fram á að leysa málið á réttlátan hátt með samkomulagi. Sé því neitað, þá er ekki um annað að gera en að berjast. Þingið tók rétt af verkamönnum, því ber að skila honum aftur. Geri það það ekki, þá er það þess meiri hl., sem fellir þetta frv., að bera ábyrgðina af því.