18.03.1949
Neðri deild: 83. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í C-deild Alþingistíðinda. (3377)

49. mál, dýrtíðarráðstafanir

Gylfi Þ. Gíslason:

Ég þakka hæstv. forseta fyrir, að hann gefur mér tækifæri til að svara örfáum orðum nú. Það er hv. 2. þm. Reykv., sem ég vil fyrst og fremst svara. Mér kom mjög á óvart, að hann skyldi leyfa sér að gruna mig um, að ég hefði strikað eitthvað út úr þeirri ræðu, sem ég flutti á þinginu 1947 og hann vitnaði í. Ég kallaði fram í hjá honum, að þetta væri ósvífin aðdróttun, og ég endurtek það. Það var ósvífið og ómaklegt. Það vill svo vel til, að ég get sannað, að þetta er rangt, því að ég hef fyrir framan mig handrit þingskrifarans af ræðu minni, eins og hann gekk frá henni. Ég vissi ekki, að búið var að prenta ræðuna, og hún er væntanlega prentuð nákvæmlega eins og þingskrifararnir hafa gengið frá henni, en þar sagði ég:

„Mér finnst fórnirnar, sem af almenningi er krafizt í þessu frv., vera miklu meiri hlutfallslega en fórnirnar, sem krafizt er af efnastéttunum. Og ef litið er á frv., stj. í þessu ljósi, virðast mér fórnir þær, sem frv. gerir ráð fyrir af hálfu launþeganna, vera þrjár fyrst og fremst:

1. Verðlagsuppbótakerfið afnumið. Þ. e., að ekki má framvegis hækka kaup í sama mæli og verðlag hækkar í landinu, en það fyrirkomulag hefur verið síðan 1939, að Alþfl. fékk þessu komið á. Þetta kerfi á að afnema.

2. Verðlagsuppbótin er lækkuð og þá um leið laun um 8½%. Verð á landbúnaðarvörum og innlendum framleiðsluvörum lækkar jafnframt tilsvarandi.

3. Söluskattur verður lagður á, svo að verð vöru, sem neytendur kaupa, mun hækka verulega, og hefur verið áætlað að raunveruleg kauplækkun muni vera 8–9%.

Fórn efnastéttanna er hins vegar aðeins ein, eignaraukaskatturinn, og skal ég nú leyfa mér að líta á hann.“

Þetta þarf ekki frekari skýringa við. Ég leiðrétti að vísu þessa ræðu í gær, en blöðin bera með sér, hvað þingskrifararnir hafa skrifað, svo að ég þykist hafa sannað fullkomlega, að þessi aðdróttun hv. 2. þm. Reykv., að ég breyti ræðum mínum, sé fullkomlega ómakleg, og furða ég mig á því, að hann skuli bera slíkt fram, því að vegur hans mun ekki vaxa við það, heldur minnka.

Að öðru leyti vil ég aðeins segja þetta: Hv. 2. þm. Reykv. heldur nú að vísu nokkuð svipaðar ræður um hvaða mál sem hann talar. Innihaldið er jafnan óhróður um Alþfl. og hæstv. ríkisstj. En þessi ræða hans var þó óvenjulega sérkennileg að því leyti, að ég gat ekki betur skilið en hann talaði á móti yfirlýstri stefnu Alþýðusambandsstjórnarinnar um það, að hún mundi, ef vissum kröfum yrði ekki fullnægt, beita sér fyrir grunnkaupshækkunum í landinu og náttúrlega verkföllum. Hv. þm. talaði beinlínis á móti þessari stefnu og fór að útlista rækilega, hvað verkföll væru alvarlegur hlutur, fór að vara við þeim, lýsa þeirri ringulreið og því tjóni; sem þau hefðu í för með sér, og kallaði þau óeirðir. Ég skrifaði þetta upp eftir honum og benti sessunaut mínum á það og sagði: Nú þykir mér vera nýr tónn í 2. þm. Reykv., hann kallar verkföll óeirðir, segir að þau séu glæfraleg. — E. t. v. hefur þessi hv. þm. alltaf litið þannig á, en bara verið svo varkár að tala ekki svona, þangað til nú, að meira skrapp úr honum, en hann ætlaðist til.

Ég vil svo að síðustu í örfáum orðum endurtaka það, sem ég sagði áðan. Ég sagði, að ég teldi sanngjarnt og réttlátt, að launþegum í landinu, þeim lægst launuðu, yrði bætt sú kjaraskerðing, sem orðið hefur við það, að vísitalan hefur hækkað úr 319 stigum í 329 stig. Mér þykir sanngjarnt, að launþegum sé bætt þessi kjararýrnun. Og ég sagði, að ég efaðist um, að sú leið, sem stungið er upp á í þessu frv., væri heppilegasta og bezta leiðin til þess að bæta úr þessari kjararýrnun. Ég nefndi aldrei grunnkaupshækkun í ræðu minni, en talaði um, að bæta yrði launþegum þá kjaraskerðingu, sem þeir hefðu orðið fyrir. Ég veit ekki betur, en að fyrsta krafa núverandi alþýðusambandsstjórnar sé sú, að kjaraskerðingin verði bætt á þann hátt að færa niður dýrtíðina, sem orsakar kjaraskerðinguna, þannig að hún verði ekki meiri en hún var, þegar dýrtíðarlögin voru sett. En það eru til fleiri leiðir til þess að bæta kjör launþega, aðrar ráðstafanir. Þó að dýrtíðin verði ekki enn þá færð niður í fullum mæli, hefur því verið lýst yfir af hálfu alþýðusambandsstjórnarinnar, — og styð ég þá till. hennar, — að ef ekki verði gert annaðhvort, að dýrtíðin verði færð niður í það, sem hún var, þegar dýrtíðarl. voru sett, eða gerðar aðrar ráðstafanir til þess að bæta launþegum þessa kjaraskerðingu, er óhjákvæmilegt að beita sér fyrir grunnkaupshækkunum til þess að vinna af sér kjaraskerðinguna.