22.03.1949
Neðri deild: 85. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í C-deild Alþingistíðinda. (3379)

49. mál, dýrtíðarráðstafanir

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Það var aðeins aths., sem ég vildi gera til áréttingar því, sem ég sagði síðast þegar mál þetta var á dagskrá, og einkum út af því, sem komið hefur fram síðan. Ég þóttist þá gera grein fyrir því, hvernig þetta lagafyrirmæli, sem hér er lagt til að breyta, hefur haft áhrif á afkomu verkamanna, og lýsti eftir því hjá fylgismönnum þessara laga, sem nú gilda um þetta efni, hvað þau hefðu gert. Ég get ekki séð annað en að þau lög hafi aukið dýrtíðina og gert afkomu alls launafólks í landinu verri. — Það kom fram í umr. á dögunum, þegar um þetta var rætt og það hefur einnig komið fram í blöðum, að haldið hefur verið fram, að hv. 2. þm. Reykv. væri á móti verkföllum og kauphækkunum. Ég veit ekki, hvernig á þessum fullyrðingum stendur. — En ég undirstrika það, að í framtíðinni mun það vera Alþ., sem ber ábyrgð á því, þegar um deilur verður að ræða, sem hljóta að verða út af þessu ranglæti, sem sýnt er með því að halda dauðahaldi í þann lagastaf, sem við leggjum hér til, að verði breytt, vegna þess, að Alþ. hefur tekið þann hlut af verkamönnum með lögum, sem þeir voru búnir að vinna sér. Og hvort sem það á að vera hjálp við atvinnurekendur, sem þarna er gert, eða Alþ. álítur, að vinnandi fólk yfirleitt í landinu hafi of mikil laun — og ég get nú ekki ímyndað mér, að nokkur hv. þdm. áliti, að verkamaður, sem hefur 15–16 þús. og upp í 20 þús. kr. í laun yfir árið til þess að framfleyta sínu heimili, hafi of mikil laun — þá er það svo, að um leið og menn fella þetta frv. um að afnema þessi ranglátu lagaákvæði, þá verður, ekki hægt að skoða það öðruvísi en svo, að hv. þm., sem það gera, álíti, að menn hefðu of góð lífskjör, ef þetta frv. væri samþ. Og það er þetta eingöngu, sem ég vil undirstrika, að slíkt hlýtur að lenda um síðir á þeim mönnum, sem hér felldu nú þetta frv. Og ef hv. þm. halda áfram með þá ranglátu löggjöf, sem þetta frv. miðar að því að afnema, þá mega þeir vera vissir um, að þeir fá deilurnar út af því ranglæti, hvenær sem þær koma.