22.03.1949
Neðri deild: 85. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í C-deild Alþingistíðinda. (3380)

49. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson) :

Herra forseti. Það hefði í raun og veru verið ástæða til þess, að þessi fundur hefði staðið lengur en aðeins til kl. 2, vegna þess að maður hefði getað búizt við því, að hæstv. ríkisstj. mundi gefa einhverjar skýringar á sinni afstöðu til þessa máls, sem hér er verið að ræða, sérstaklega eftir upplýsingar, sem fram hafa komið frá hv. 4. þm. Reykv. sem einum af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj. Hefum, þeim ræðum, sem ég hef flutt um þetta mál, ekki verið mótmælt, heldur þvert á móti samsinnt af hálfu þeirra hv. stjórnarsinna, sem tekið hafa þátt í þessum umr. Í þessum umr. kemur fram, hvílíkt skipbrot hæstv. ríkisstj. hefur beðið í hagsmuna- og fjármálastefnu sinni fyrir landið. Þegar þetta mál var fyrr rætt, þegar þessi lög voru sett, hafði hæstv. forsrh. sagt, að ef fólkið lækkaði kaupið um 5–8%, mundi það þýða það, að þjóðin héldi áfram þeirri velmegun, sem hún hafði árið 1947, og þá væri atvinna tryggð handa öllum. Og ég las við þessar umr. upp tilvitnun úr þeirri ræðu hæstv. forsrh. í minni ræðu hér og skoraði á ríkisstj. og stuðningsmenn hennar að standa fyrir sinu máli. En hæstv. ríkisstj. hefur ekki treyst sér til þess að standa fyrir sínu máli í þessu máli fremur en öðrum. Sá hluti hennar, sem ekki flaug til Ameríku, hefur ekki tekið til máls í þessu máli, sem er í raun og veru aðalmálið, — þ. e. binding kaupgjaldsvísitölunnar, — sem hæstv. ríkisstj. hefur byggt á sínar framkvæmdir í hagsmuna- og fjármálum þjóðarinnar, og þetta eru einu till., sem ríkisstj. hefur, eftir því sem hún sjálf segir, komið með til þess að lækka dýrtíðina í landinu og framkvæma sitt prógramm. En hæstv. ríkisstj. og ráðherrar koma sér hjá að ræða þetta mál. Sá maður af hennar fylgismönnum, sem hins vegar hafði hjálpað henni til að undirbúa þetta mál, bindingu kaupgjaldsvísitölunnar, og hafði lýst því yfir, að vísitalan mundi, strax og þau lög hefðu verið um stund í gildi og verkað, lækka niður í 315 stig og síðan lækka meira, þessi maður vildi koma því á hæstv. forsrh. að svara fyrir ríkisstj. Og þessi sami hv. þm., sem er eini maðurinn af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj., sem staðið hefur upp til að tala í þessu máli hér, hv. 4. þm. Reykv. sem sjálfur hafði undirbúið þetta mál, sem hér er lagt til að breyta, og gefið yfirlýsingar um það eða samsinnt yfirlýsingum hæstv. forsrh. um það, þessi sami hv. þm, lýsir því nú yfir, að hann álíti grundvöllinn fyrir þessari lagasetningu brostinn, þann grundvöll, sem þessi lög hafi verið byggð á. Og þetta er sérfræðingur ríkisstj. í hagfræðilegum efnum, þetta er vísindamaðurinn, sem hún um hagfræðileg efni hefur vitnað til í sambandi við hvert einasta fjárhagsmunamál þjóðarinnar, sem hún kuklar við að framkvæma. Þessi hv. þm. og hagfræðingur lýsir því yfir, að hann álíti, að það, sem nú verði að gera, sé, að verkamenn fari út í það að berjast fyrir kauphækkunum, — og þá náttúrlega með því móti að segja upp samningum og þá, ef ekki verður gengið að kröfum verkamanna, að koma á verkföllum og öðru slíku. Og ég innti hann eftir því, hvort þetta væri stefna Alþfl., og hann lýsti yfir, að þetta væri stefna Alþfl. Og í hvert skipti, sem hv. 4. þm. Reykv. gefur slíkar yfirlýsingar, — sem auðsjáanlega eiga að vera undirbúningur fyrir kosningar, — þá stekkur hæstv. forsrh. út úr fundarsalnum til þess að komast hjá að láta binda sig við þessar yfirlýsingar. — Nú hefur hæstv. viðskmrh. verið utanlands og veit því ekki eins, hvað fram hefur farið í þessu, eins og ef hann hefði ekki flogið til Ameríku, og er hann hér því viðstaddur nú. Og ég vil þá segja honum, að ég kom inn á það í mínum ræðum, að það hefði verið hæstv. viðskmrh., sem hefði lýst því yfir fyrir ári síðan, að svo framarlega að verkamenn færu út í verkföll, þá liti hann á það sem glæp. (Samgmrh.: Þessi orð hef ég aldrei sagt. Þetta er rangtúlkað.) Hæstv. ráðh. er búinn að endurtaka þetta. Hann hafði þessi ummæli í útvarpinu. (Samgmrh.: Það er tilbúningur.) Hann sagði, að svo framarlega að menn hvettu verkamenn til verkfalla, skoðaði hann slíkt sem glæp. (Samgmrh.: Já, það er annað:) Ef það er glæpur að hvetja til verkfalla, verður það þá ekki eitthvað svipað að fara út í verkfall? Og þetta var þá, sem fram kom í orðum hv. 4. þm. Reykv., að mér skilst, að hvetja til glæpa, ef hæstv. ráðh. vill heldur halda sig við þessa skilgreiningu, sem hann nú kom með. Ætla ég, að inntakið í því, sem hv. 4. þm. Reykv. lýsti yfir, að væri stefna stjórnar Alþýðusambandsins og stjórnar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, sé að berjast fyrir kauphækkunum. Og þegar ég innti hann eftir því, hvort það væri stefna Alþfl., þá játaði hann því, að það væri einnig stefna hans. Ég benti honum á, að þetta væri rétt að gera, en að það væri í mótsögn við yfirlýsingu Alþfl. og að hæstv. ráðh. hefði tekið svo djúpt í árinni í útvarpsræðu að kalla það glæp. — Og svo skulum við deila um það, hvort það er fremur glæpur að hvetja til verkfalla eða fullyrða, að rétt sé að fara út í baráttu fyrir kauphækkunum. Þetta, sem fram hefur komið og hv. 4. þm. Reykv. hefur samsinnt, þýðir, að stefnan, sem tekin var í desember 1947, hefur mislukkazt í framkvæmdinni, svo að hagfræðingur ríkisstj., hv. 4. þm. Reykv., neyðist til þess að viðurkenna, að grundvöllurinn fyrir þessari lagasetningu, sem þá var gerð til þess að binda kaupgjaldsvísitöluna við 300 stig, sé brostinn undan þeirri framkvæmd. Allan tímann síðan er Alþfl. búinn að prédika það, að það sé glæpur að hvetja til verkfalla. En nú lýsir einn Alþfl.-þm. yfir, að það sé stefna flokksins, að hann muni neyðast til þess að standa með því, að verkalýðurinn fái nokkra kauphækkun. Þessa gjaldþrotsyfirlýsingu neyðist Alþfl. til að gefa, eftir að hann er búinn að draslast í ríkisstj. í tvö ár, án þess að geta skapað annað í dýrtíðarmálum landsins en það, að grundvöllurinn hefur brostið undan framkvæmdum ríkisstj. í kaupgjaldsbindingarmálum hennar. Og þegar svo er komið, þá ætlar þessi flokkur að slá sér upp á því, þegar á að stofna til kosninga, að reyna að blekkja þjóðina á því, að hann muni berjast fyrir kauphækkunum. Hvar hefur hann tækifæri til þess að berjast fyrir kauphækkunum nema á Alþ., ef honum er alvara, með því að samþ. frv. það, sem fyrir liggur frá hv. 11. landsk. þm. og 8. þm. Reykv.? Alþfl. hefur tækifæri á Alþ. til þess að knýja fram kauphækkun hjá verkalýðnum, ef honum er alvara með það, með því á Alþ. að fylgja þeim málstað, sem með flutningi þessa frv., sem fyrir liggur, er barizt fyrir. Og ég spurði hv. 4. þm. Reykv., hvernig Alþfl. hugsaði sér að knýja fram þær kröfur, sem B. S. R. B. gerði, að fá 36% kauphækkanir. Hvernig ætlar bandalagið að fá þessar kröfur fram? Mér skilst, að Alþfl. eigi stjórnina í því bandalagi. Ætla þeir að láta starfsmenn ríkis og bæja fara út í ólögleg verkföll? Það bólar ekki á því. Ætla þeir að breyta launalögunum? Það bólar heldur ekki á því. Á hvern hátt ætla þeir að hækka kaup starfsmanna ríkis og bæja? Svo framarlega að frv. það, sem hér liggur fyrir, væri samþ., þá mundi það samsvara 10% hækkun á kaupi þessara manna, því að þá mundi kaupgjaldsvísitalan vera um 330 í stað 300. En sú hækkun mundi samt sem áður ekki vera nema þriðjungur af því, sem B. S. R. B. fer fram á. Nú lýsir einn hv. stuðningsmaður ríkisstj. úr Alþfl. því yfir, að þeir ætli að berjast fyrir því, að þetta nái fram að ganga. Samtímis lýsa Alþfl.-menn yfir, að þeir ætli að greiða atkv. á móti þessu frv. hér í þinginu. Hvað er meiningin með þessu? Þessir menn lýsa yfir, að þeir ætli að hjálpa starfsmönnum ríkis og bæja til þess að fá launahækkanir, en þeir ætla að greiða atkv. á móti þeirri einu aðferð, sem hægt væri að hafa til þess að fá fram kauphækkanir fyrir þetta fólk. Hvað er þetta? Þetta er sú argasta pólitísk hræsni, sem komið hefur fram í þinginu í mörg á . Að gefa svona yfirlýsingar og vilja svo ekki berjast með því frv., sem hér liggur, er pólitísk hræsni. Það þýðir, að það er verið að segja við starfsmenn ríkis og bæja: Þið skuluð berjast fyrir ykkar réttindamálum um að fá hækkað kaup ykkar. En það er svo verið að hugsa það um leið: Við skulum hindra þá í baráttunni, svo að þeir fái þetta ekki.

En hvernig er sú hlið þessa máls, sem snýr að verkamönnum? Alþfl. segist vera með því, að verkalýðurinn fái kauphækkanir. En hvers konar kauphækkanir eiga það að vera? Hverrar tegundar? Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að Alþfl. hefði aldrei ætlað að beita sér fyrir grunnkaupshækkunum. Þá lægi kannske fyrir að halda, að Alþfl. ætlaði að beita sér fyrir því, að tekið væri öðruvísi tillit til vísitölunnar en nú er gert, þannig að það væri reiknað með einhverjum ákveðnum stigafjölda yfir 300, þegar ákvarðanir væru teknar um kaupgreiðslur. Það mundi þýða lögbrot, að óbreyttum lögum. Hvað þýða þá yfirlýsingar Alþfl.? Er það bara meiningin að hressa upp á kjörfylgið með þessum yfirlýsingum fyrir næstu kosningar og láta þær aldrei fá neina samhljóðan í neinum framkvæmdum? Hvernig horfir málið við frá hálfu verkamanna? Þannig, að verkamenn vilja knýja fram kauphækkanir. Þeir vilja vinna sína sigra, helzt án þess að fórna mjög miklu fyrir það, án þess að grípa til langvarandi verkfalla, sem ekki aðeins gera þeim tjón, heldur þjóðfélaginu í heild. Verkamenn geta unnið slíkan sigur, að þeir fái 10% kauphækkun, með því að þetta frv. væri samþ. Þeir, sem vilja hjálpa verkamönnum til þess, án óþæginda fyrir þjóðfélagið, að fá sitt kaup hækkað, viðurkennandi þannig þeirra kröfur, eiga að greiða atkv. með þessu frv. Þeir, sem hins vegar greiða atkv. á móti þessu frv., eru að berjast á móti eðlilegustu kauphækkunum, sem verkamenn eiga rétt á að fá, því að þessi kauphækkun, ef gerð yrði, væri það, sem verkamenn eru búnir að semja um við atvinnurekendur í landinu, að fá kaup greitt samkvæmt framfærsluvísitölu. En Alþ. hefur gripið þar inn í með ofbeldi undir forustu Alþfl. til þess að ræna verkamenn frelsi þeirra, til þess að strika út ákvæði, sem tryggðu verkamenn gegn dýrtíðinni. Það er Alþfl., sem hefur svikið verkamennina í landinu og stendur gegn því, að þeir fái rétt sinn í þessu efni, sem þeir höfðu, en Alþfl. segir samtímis, að hann ætli að gangast fyrir launahækkunarbaráttu manna. Við vitum, hvernig Alþfl. stjórnar verkfallsbaráttu. Hefur nokkurn tíma nokkur flokkur stjórnað verkfallsbaráttu eins vitlaust eins og Alþfl.? Hefur nokkur flokkur orðið þjóðinni dýrari, þegar hann kemur nærri því að stjórna verkfallsbaráttu? Finnst þessari hæstv. ríkisstj., sem búin er að sitja meira en mánuð yfir togarstöðvun, finnst henni svo glæsilegt að leggja til verkfalla og betra, en að samþ. þetta frv., sem hér liggur fyrir. Það er annars undarleg pólitík, sem hér á sér stað, milljónatugir, sem þjóðin tapar á ranglætinu vegna verkfalls Alþfl. [Frh.]