05.04.1949
Neðri deild: 86. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í C-deild Alþingistíðinda. (3384)

49. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Út af orðum hæstv. forsrh. vildi ég þá gera stutta aths. Hann sagði, að stefna ríkisstj. með samþykkt dýrtíðarl. í árslok 1947 hafi verið sú, að tryggja fulla atvinnu og sem öruggasta, og enn fremur, að áframhaldandi gildi þessara l. mundi þýða að koma í veg fyrir atvinnuleysi. En nú er það staðreynd, að atvinnuleysið er byrjað. Þessi stefna ríkisstj. hefur því þegar beðið skipbrot og er þegar eftir umr. viðurkennt af stuðningsmönnum stj. Atvinnuleysið er komið. Þær fórnir, sem verkalýðurinn varð að færa vegna samþykktar dýrtíðarl., hafa ekki tryggt honum atvinnu. Þvert á móti hefur atvinnuleysið farið vaxandi nú. Og einmitt þessa dagana eru uppsagnir bæði í almennri verkamannavinnu og hjá öðru starfsfólki mjög tíðar.

Í öðru lagi hefur samþykkt þessara dýrtíðarl. 1947 ekki heldur tryggt verkamönnum og atvinnurekendum þann vinnufrið, sem stjórnin áleit, að hún væri að skapa. Nú sem stendur er þvert á móti — af eðlilegum ástæðum — vaxandi verkfallsalda hjá verkalýðnum. Sökum þess að Alþ. hefur bundið vísitöluna með þessum l., sem hér er lagt til að breyta, hefur verkalýðurinn orðið að berjast fyrir grunnkaupshækkun. Nú standa hér yfir slík verkföll, verkföll, sem eru dýr fyrir verkamenn og fyrir þjóðina, og stafa af því fyrst og fremst, að vísitalan er bundin með þessum l. Verkalýðssamtökin í landinu, alveg án tillits til þess, hvort forustan í hverju tilfelli er úr hópi stjórnarandstöðunnar eða ekki, eru komin í baráttu til að knýja fram grunnkaupshækkun. Og það, sem knýr verkalýðssamtökin, er þessi binding, sem Alþ. hefur framkvæmt. Nú sýnir sig, að atvinnurekendur koma til með að láta undan þessum kröfum, en til þess þurfa verkamenn að standa í löngum og harðvítugum verkföllum. Væri ódýrara fyrir þjóðfélagið og mundi sýna réttlætistilfinningu Alþ., ef það leysti fjöturinn, sem settur var 1947. Skrúfugangurinn kemur alveg jafnt til greina, hvort sem grunnkaupið er hækkað eða vísitölubindingin afnumin. Það eru bara tvær mismunandi aðferðir til þess að verða við réttmætum kröfum verkamanna. Þess vegna eru verkalýðssamtökin komin út í baráttu fyrir hækkun grunnkaups. Og það er Alþ., sem knýr þessa baráttu fram með þeim kostnaði og tjóni, sem af henni leiðir, með því að halda fast við vísitölubindinguna. Til þess að skapa vinnufrið er þess vegna rétt af Alþ. að verða við því að leysa vísitölubindinguna og leyfa vísitölunni að hækka og að kaup verði goldið samkv. vísitölunni.

Í þriðja lagi er það, áð þó að verkamenn geti notað sinn verkfallsrétt til að auka kaupið, þá geta starfsmenn hins opinbera ekki farið verkfallsleiðina, eru því sviptir þeim möguleika til að bæta sín laun. Með því að halda fast við vísitölubindinguna, væri Alþ. að beita óréttlæti. Er eðlilegt, að Alþ. veiti starfsmönnum ríkisins þá uppbót, sem þeim ber, sem verkamenn eru nú að knýja fram sér til handa? Það er vitað, að samtök starfsmanna ríkis og bæja hafa farið fram á allt að 36% hækkun á sínu kaupi og rökstutt þá kröfu. Afnám bindingar vísitölunnar mundi þýða, að það væri reiknað með vísitölunni 328 eða 329. En það mundi nema um 10% launahækkun handa starfsmönnum hins opinbera. Það er þess vegna raunverulega allt, sem mælir með því, að Alþ. samþ. þetta frv. Ég vildi aðeins hafa endurtekið rök mín, út af því, sem hæstv. forsrh. sagði. Annars er búið að ræða þetta mál svo mikið.