05.04.1949
Neðri deild: 86. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í C-deild Alþingistíðinda. (3385)

49. mál, dýrtíðarráðstafanir

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Aðeins nokkrar aths. út af ræðu hv. 2. þm. Reykv. Hann sagði, að stefna stj. með dýrtíðarl. frá 1947 hefði beðið skipbrot. Þessu neita ég fyrir mitt leyti eindregið. Jafnvel þó að beztu vonirnar kunni ekki að hafa rætzt að fullu, er ekki vafa bundið, að skapazt hefur traustari grundvöllur til að byggja á íslenzkt atvinnulíf inn á við. Og út á við hefur skapazt meira traust, sem stuðlar að því, að íslenzkt atvinnulíf getur fremur haldizt í horfinu. Ég gat gert mér vonir um, að vísitalan færi niður fyrir 319, en það varð þó ekki af ýmsum ástæðum, sem ég hef rakið.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að atvinnuleysi væri nú byrjað. Ég held, sem betur fer, að ekki séu mikil brögð að því. Má m. a. marka það af því, að meðan á togaraverkfallinu stóð, gátu flestir eða allir togarasjómenn fengið atvinnu. Sem betur fer er ekki byrjað atvinnuleysi, og vænti ég, að hægt verði að hindra það.

Það er nú svo, að aldrei er hægt að tryggja öruggan vinnufrið nema með allsherjarsamningum milli ríkisvaldsins og verkamanna. Og það hefur tekizt víða um lönd. En varðandi deilur þær, sem hér hafa risið á vinnumarkaðinum á undanförnum mánuðum, er það að segja, að þær eiga alls engar rætur að rekja til dýrtíðarlaganna frá 1947. Ég nefni t. d. togaradeiluna, hún var ekkert í sambandi við þau lög. Og kaup verkakvennafélagsins Framsóknar var hækkað af því, að þetta félag taldi sig vera orðið á eftir öðrum 20 verkakvennafélögum í landinu um kaupgjald. Ég held því, að vísitölubindingin hafi að mjög litlu leyti leitt til þessara vinnudeilna, en orðið verkalýðnum aftur á móti til góðs.