05.04.1949
Neðri deild: 86. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (3386)

49. mál, dýrtíðarráðstafanir

Áki Jakobsson:

Ég ætla nú ekki að lengja þessar umræður, en aðeins mælast til þess, að hv. forsrh. gefi upplýsingar um eftirfarandi atriði: Annars vegar er alþýðuflokksforustan í Alþýðusambandinu að eggja verkalýðsfélögin til að leggja út í verkföll til að ná hækkun á grunnkaupi, svipaðri hækkun og nemur skerðingu kaupsins vegna vísitölubindingarinnar. Hins vegar koma svo fulltrúar Alþfl. hér á Alþ. og lýsa sig andvíga því, að vísitölubindingin sé afnumin. Ég vildi aðeins fá upplýst, hvaða leik hér er verið að leika. Það, sem þessir menn telja þjóðhættulegt hér á þinginu, það eru hinir sömu menn og flokkar þeirra að hvetja verkafólk til að gera utan þings, þ. e. a. s. berjast fyrir því að fá kauphækkun, sem nemur kaupskerðingu vegna vísitölubindingarinnar. Ég vil vekja sérstaka athygli á þessu. Ég býst við, að margir séu hissa á þessum augljósa tvískinnungi: Annars vegar að vera á móti afnámi vísitölubindingarinnar, hins vegar að æsa til verkfalla til að ná kauphækkun, sem henni nemur. Væri þá ekki langeinlægast að afnema þessa vísitölubindingu. Nei, það er auðséð að Alþ., sér ekki eftir verkafólki til að rýra tekjur sínar með því að standa í verkföllum, þó að önnur leið sé fær og sjálfsögð. Það er fróðlegt að heyra hvað hæstv. forsrh. segir við þessu.

Enn fremur er þessi furðulegi tvískinnungur alveg sérstakur fjandskapur við opinbera starfsmenn, af því að þeim er fyrirmunað að ná rétti sínum með verkföllum. Það virðist sérstakt keppikefli Alþfl. að ná sér niðri á opinberum starfsmönnum. Þau eru augljós heilindin hjá Alþfl. Verkamönnum er sigað út í verkföll til að bæta sér upp það kaup, sem af þeim er stolið, en opinberir starfsmenn eiga að vera bundnir með öllu, þar sem þeir geta ekki beitt þessu vopni, þó að þeir hafi kvartað um það og fært að því rök, að þeir geti ekki dregið fram lífið af því kaupi, sem þeim er skammtað.