02.05.1949
Efri deild: 92. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í C-deild Alþingistíðinda. (3414)

155. mál, réttindi kvenna

Frsm. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, n. klofnaði um þetta mál. Málið var rætt á tveimur fundum, en n. gat ekki orðið sammála. Meiri hl., hv. þm. N-M. (PZ), hv. þm. Barð. (GJ) og hv. þm. Seyðf. (LJóh), lögðu til, að málinu yrði vísað frá, og rökstuðningurinn fyrir því er sá, að það sé svo óvíst og óljóst og ekki nógu vel rannsakað, að hvaða leyti konur hafi takmarkaðri rétt en karlmenn. Af þessum ástæðum leggur meiri hl. til, að málinu sé vísað til stj., að stj. láti athuga og rannsaka það og flytji að því loknu frv. um það. Það stendur ekki „á næsta þingi“ í rökst. dagskránni, þó að hv. þm. N-M. segði það — og það gladdi mig —, heldur „eftir því sem þurfa þykir“. Það verður ekki sagt, að meiri hl. sé frv. andvígur, en hann vill drepa því á dreif, málsmeðferðin bendir til þess. Það munu fáir þm. vera betur sammála um það, en hv. þm. N-M. og hv. þm. Barð., að það er ekki líklegt til framgangs að vísa máli til stj. (GJ: Það hef ég aldrei sagt.) Oft og mörgum sinnum. Hv. þm. Barð. mundi ekki kjósa þá afgreiðslu á málum, sem hann ber fyrir brjósti. Hann mundi ekki telja það vinsemd til máls að leggja til, að það fengi þá meðferð. En sérstaklega gildir þetta um hv. þm. N-M. Hann hefur hvað eftir annað vikið að því, að versti dauðdagi, sem mál gæti fengið, væri að vísa því til stj. Hann vék einnig að þessu í ræðu sinni nú, en taldi, að málið mundi fá allgóða afgreiðslu af því, að Jónas Guðmundsson væri svo góður skrifstofustjóri. Það eru bara fáir dagar síðan hv. þm.. N-M. talaði hér um réttindi og skyldur embættismanna. Því máli var á sínum tíma vísað til stj. og ákveðnum manni falið að sjá um endurfæðingu þess, en hún er nú búin að taka þrjú eða fjögur ár. Ég er þess vegna hræddur um, að þeir, sem leggja til, að þessu máli verði vísað til stj., búi því þar gröf í næstu þrjú eða fjögur ár, þó að þeir telji sig vini málsins. Ég verð að segja það, að hefði málið fjallað um hlutafélög, þá hefði hv. þm. Barð. ekki talið það svo óvíst og óljóst, að vísa yrði því til stj. Og mér er nær að halda, að ef það hefði fjallað um skuldir og innheimtu, þá hefði lögfræðingurinn í n., hv. þm. Seyðf. (LJóh), þótzt kunna skil á því, og ef það hefði fjallað um kýr, hefði hv. þm. N-M. talið sig vita það mikið, að hann hefði ekki lagt til, að því væri vísað til stj. En þetta mál, sem fjallar um konur, er svo undarlegt, að jafnvel lögfræðingurinn stendur ráðþrota. Ég held, að þeir viti meira en þeir vilja vera láta, að minnsta kosti lögfræðingurinn.

Það er rétt, er hv. frsm. meiri hl. tók fram, að frv. fer ekki fram á annað en að konur fái jafnan þegnrétt við karlmenn. Réttur karlmannsins er viðmiðunin, svo að ef konur hafa meiri rétt á einhverjum sviðum, verður það lagfært, en þar, sem hann er skarður, verður hann bættur, svo að þær fái sama rétt. Ég get ekki ímyndað mér annað en að hver maður í nútímaþjóðfélagi eigi að njóta sömu aðstöðu og hafa sömu réttindi og skyldur. Þeir sjá ekki langt, sem gera sér ekki ljóst að, að þessu hlýtur að stefna í hverju siðuðu þjóðfélagi. Það er ekki farið fram á nein forréttindi, aðeins jafnrétti, og gegn því verður ekki staðið. 1. gr. er ekki annað en staðfesting á þjóðfélagsþróun, er þegar er orðin. Það er algengt, að í löggjöf séu teknar staðreyndir sem staðfesting á ástandi, sem þegar er komið. En í 2. gr. er strax leiðrétting á því ástandi, sem nú er. Þar er mælt fyrir um það, að konur skuli hafa sama rétt í atvinnumálum og fjármálum og karlar. Það er greinilegt, að þær hafa það ekki nú. Þær mega t. d. ekki stunda nám í vissum iðngreinum, og aðrar eru þeim lokaðar vegna þess, að viðkomandi aðilar vilja ekki taka þær til þess náms, sem þær vilja stunda. Ég kem að þessu síðar. Sums staðar þarf að brjóta niður rótgrónar venjur til þess að konan fái rétt til þess að njóta sín. Það er rótgróin venja víða, að margvísleg störf eru lokuð fyrir konum eða að þær hafi aðeins aðgang að aðstoðar- og aukastörfum, sem verst eru launuð, og vegna þess er það orðin nokkuð rótgróin venja að meta gildi starfs lægra, ef kona vinnur það, en nokkrum mundi detta í hug, ef karlmannshendur kæmu þar að.

Það er rétt að taka til nánari athugunar beina útilokun kvenna frá vissum störfum. Í prentiðnaðinum eru mörg störf, sem eru eins vel fallin fyrir konur og karla, og sömuleiðis í bókbandsiðnaðinum. Vélsetjarastarfið, sem er ný grein í prentiðnaðinum, er eins vel fallið fyrir kvenfólk og karlmenn, og það er eðlilegt, það er skylt vélritun, og viðurkennt er, að þar er kvenfólkið hæfara. En til skamms tíma hafa það verið lög prentarafélagsins, að kvenfólk megi ekki vinna í prentsmiðju „að öðru en ílagningu í vélar, götun, talnaprentun, strikun og því um líku, en alls ekki að neinum eiginlegum prentlistarstörfum.“ Þetta hefur til skamms tíma verið svo, en því hefur nú verið breytt á þann veg, að í staðinn fyrir „kvenfólk“ er talað um „aðstoðarkvenfólk“. Einn af greindustu forsvarsmönnum prentarastéttarinnar gerir í sambandi við þetta svofellda játningu: „Hitt er annað mál, að grein þessi hefur líklega átt þátt í því, að stúlkur hafa ekki ráðizt til prentnáms hér á landi í því nær hálfa öld, því að henni var meðfram ætlað að girða fyrir það, að prentsmiðjueigendur, sem hefðu augastað á að færa sér í nyt, að kvenfólk hefur fram á síðustu ár og raunar enn gefið kost á vinnuafli sínu fyrir lægra verð, en karlmenn, sæju sér þann leik á borði að taka aðstoðarstúlkurnar, þegar þær væru farnar að kynnast verkum prentaranna í prentsmiðjunum, til náms, í því skyni að koma sér upp ódýrara vinnufólki á síðan, og það hefur ávallt verið ætlunin, þegar stúlkur hafa verið ráðnar til prentnáms hér á landi.“ Þarna er það játað, að þessi ákvæði hafi orðið til þess, að í hálfa öld hafi engin kona ráðizt til prentnáms. Þeim er ekki heimilt að vinna annað en aðstoðarstörf, og launin eru eftir því. Þetta er náttúrlega sams konar hugsunarháttur og liggur til grundvallar fyrir þrælahaldi. Er þarna nokkuð, sem þarf að laga? Mundu menn sætta sig við það, ef þetta gilti um karlmenn? (PZ: Eru þetta landslög?) Hvað sem það heitir, verður þessu ekki hnekkt nema með lagasetningu frá Alþingi og spursmál, hvort það lagast samt til fulls. — En svo er önnur hlið á þessu. Kvenfólkinu er borið á brýn, að það gefi kost á sér til undirboðs undir þeim taxta, sem prentarafélögin hafa sett. Nú vil ég tryggja kvenfólki sömu launakjör og karlmönnum, og er þar í rauninni um að ræða útilokunarákvæði gagnvart kvenfólki sem niðurboðsaðila. Það er eðlileg krafa; það er full ástæða til þess fyrir alla, sem viðurkenna, að kvenfólk eigi að vera jafnrétthátt og karlmenn, að viðurkenna innihald 2. gr. frv. míns um jafnrétti kvenna í atvinnumálum, til þess að hnekkja rótgróinni venju og viðtekinni og áhrifamikilli á samninga voldugra stéttarfélaga. Þetta dæmi gerir öllum skiljanlegt, að ekki er ástæðulaust að veita konum aukinn rétt í atvinnumálum. Þetta misrétti karla og kvenna í atvinnumálum kemur þó vafalítið miklu víðar fram og á fleiri sviðum og í fleiri myndum, en ég skal láta það nægja, sem ég hef nú sagt.

Í sömu gr. er það tekið fram, að konur skuli hafa jafnan rétt og karlar í fjármálum. Lög þau, er nú gilda um fjármál hjóna, eru frá því um aldamót, eða frá árinu 1900. Þar segir t. d. svo, með leyfi hæstv. forseta: „Maðurinn hefur einn umráð yfir félagsbúinu og rétt til að ráðstafa eignum þess“. Er nú þetta réttlæti? Nei, það er algert einræði karlmannsins. Ef það stæði nú t. d. svo: „Konan hefur ein umráð yfir félagsbúinu“ o. s. frv., — ætli karlmennirnir mundu ekki telja sig réttlausa samkvæmt þessum lagastaf? — Og enn fremur segir í lögunum: „Maðurinn má gefa allt að 5% sameignar án samþykkis konunnar“. Ef það stæði nú „konan“ í staðinn fyrir „maðurinn“ — ætli það þætti ekki skerðing á jafnrétti karlmannsins? Jafnréttisákvæði væri þetta, ef gr. væri t. d. orðuð svo: Hvort hjónanna sem er, — o. s. frv. En það er fjarri því, að svo sé. Það er um svo algert misrétti að ræða, að um alveldi mannsins er það talið til undantekninga, að eiginmaðurinn hafi ekki forræði fyrir sjálfsaflafé konunnar. Mikið var! Hann má sem sagt ekki „valta og skalta“ að eigin vild með þá aura, sem konan kynni að vinna sér inn af sjálfsdáðum.

Um þetta misrétti þarf ég ekki að fjölyrða meira, svo augljóst sem það er.

Hinn þátturinn í misrétti karla og kvenna í fjármálum er svo sá, að launakjörum konunnar er þannig háttað, að hún hefur ekki möguleika til að vera fjárhagslega sjálfstæð. Ef karlmönnum væri ætlað að búa við slíkt, væru þeir flestir á sveitinni. Að vísu má segja, að karlmönnum sé lögð sú skylda á herðar að sjá heimilunum farborða. En það eru ekki heldur svo fá hundruð mæðra og ekkna, sem sú skylda hvílir á. Hafa þær þá undanþágu? Nei, þær búa við hinn skarða hlut, sem konan ber frá borði. Jú, að vísu, ef konan er í æðstu stöðum þjóðfélagsins, er t. d. læknir eða lögfræðingur, þá gegnir öðru máli, en yfir hina breiðu heild þjóðfélagsins tekur þetta eigi að síður. Ekkjan, sem þarf að sjá fyrir börnum sínum með sínu kvenmannskaupi, er stórkostlega illa sett, svo að bitna hlýtur á börnum hennar og uppeldi þeirra og þó fyrst og fremst á henni sjálfri. Mér hefur verið tjáð, að sú hafi orðið niðurstaða nýafstaðinnar athugunar á skýrslum þar að lútandi, að 1/10 hluti af öllum skólabörnum á landinu sé á framfæri móður. Þau eru þannig ekki svo fá börnin, sem eiga uppeldi sitt undir hinum rýru tekjum móðurinnar Um þetta misrétti eru fjöldamörg dæmi, sem óþarft er að rekja, en þegar launamismunurinn er allra minnstur, er hann um 25% og allt upp í 50%. Í sambandi við þetta misrétti vil ég geta þess, að stórbreyting hefur orðið á þjóðfélaginu á þessari öld með aukinni tækni. Starf konunnar hefur flutzt út af heimilinu, í skrifstofuna, verzlunina, verksmiðjuna o. s. frv. Og eins og þessi þróun hefur orðið, þá efast ég um, að þjóðfélagið mætti við því, að konur hyrfu t. d. úr iðnaðinum, þar sem þær eru oft og tíðum eftirsóttari sökum hæfni en karlar. En úr því svo er, mælir og öll sanngirni með því, að þær beri ekki minna úr býtum.

Þá er eitt ákvæði í frv., þ. e. a. s. 3. gr., á þá lund, að konur skuli njóta jafnréttis við karla innan fjölskyldulífsins. Ekki ætti að þurfa að skýra hvað í þessu felst. Frv. um ríkisborgararétt hefur legið fyrir þessari deild í vetur, og mönnum ætti að vera kunnugt, að ýmis réttindi, eins og t. d. þegnrétturinn sjálfur, eru bundin við föðurinn einan. Ef kona giftist útlendingi og hverfur svo aftur heim, er staðið í stímabraki um það á Alþ., hvort hún eigi að fá þegnrétt aftur. Ef um karlmann er að ræða, þá er allt í lagi. (PZ: Lagar frv. þetta?) Ég hygg það; því að ríkisfang móður verður þá réttur barnanna engu siður en föður, og það, sem er afleiðing af hjúskap að lögum, ætti að falla undir þetta. En um þetta þýðir annars ekkert að spyrja lögfræðing n. Hann hefur sagt, að hann viti ekkert um þetta, og þetta þurfi allt að athugast.

Þá er tekið fram í 4. gr. frv., að konur skuli hafa sama rétt til náms og menntunar sem karlar. Lögin frá 1911 segja um þetta svo mikið sem það, að konur skuli hafa rétt til námsstyrkja, af því að þá þurfti að afnema bann, sem við því lá, og þau segja einnig, að konur megi stunda nám og ganga undir próf, af því að fram að 1911 var það bannað. Þessi ákvæði voru þó eingöngu miðuð við bóklega námið. Konur hafa verið og eru útilokaðar frá námi í ýmsum verklegum greinum og í öðrum styður venja að því, að þær hafi ekki réttinn, og þarf að brjóta hana niður með beinum lagafyrirmælum. Sem sagt, að með l. frá 1911 var konum veittur réttur til prófa og embætta, en í þessu frv. segir, að þær skuli hafa sama rétt og karlar „til allra embætta, sýslana og starfa“. Það er þannig um víðtækari réttindi að ræða en í hinum gömlu l., og er hugsun mín sú, að því misrétti, sem konur búa við að þessu leyti, þannig að þær eru settar hjá í öllum praksís við ýmiss konar opinber störf, verði ekki hnekkt öðruvísi en með lagafyrirmælum. — Misréttið í launamálunum hefur enginn reynt að véfengja, enda er það svo ótvírætt, að konurnar eiga þar við ótrúlegt ranglæti að búa. Ég mun því ekki orðlengja það frekar.

Það var skýrt tekið fram af frsm. meiri hl. n., að hann væri samþykkur því, að konur fengju jafnan þjóðfélagslegan rétt og karlar, en hann sagði, að þessu takmarki yrði aðeins náð með mörgum frv. og með því að breyta mörgum lögum. Sannleikurinn er nú sá, að lokaákvæðið í frv. mínu felur það í sér, að lögin frá 1911, sem og eldri lagaákvæði, sem stangast við þessi lög, falla niður við gildistöku þessa lagafrv. Ég þarf ekki að segja samþm. mínum frá því, að hér á Alþ. er afgreiddur fjöldi laga með þessu ákvæði, að eldri lög skuli með þessu eða hinu ákvæði úr gildi numin, og munu menn minnast slíks ákvæðis í frv., sem menn eins og t. d. Einar Arnórsson hafa staðið að, að semja. Það byggist því ekki á neinum rökum, að ekki sé hægt að ógilda mörg lög með einum lagafyrirmælum. Reglan er einmitt sú, að ný lagaákvæði ómerki eldri lög, sem fara í bága við þau, þótt ekkert sé fram tekið um það. Ef meiri hl. n. hefði því raunverulega viljað láta konur fá fullt jafnrétti við karla, þá hefði hann ekki vísað málinu frá með rökum eins og þessum. Í lögfræðipraxísnum kæmust lögfræðingarnir fljótlega að því, hvaða eldri ákvæði væru ómerkt með þessum lögum. Þegar lög eru ógilt með nýjum lögum, er sjaldgæft, að það hafi áður verið kannað til fulls, hvaða lagaparagröff þau fella úr gildi. Meiri hl. hv. n. virðist því ekki hafa haft einurð til að segja raunverulega skoðun sína á málinu. Þeir aftur á móti, sem hafa einurð til að segja, að þeir séu á móti því, að konur hafi jafnrétti við karla, verða að leiða rök að því, að það jafnrétti komi í bága við hagsmuni þjóðfélagsins. En erfitt mun verða fyrir þá að færa á það sönnur. Það eitt væri þó nægilega þungt á metunum til þess að helga andstöðuna gegn þessu frv. Ég vil því spyrja hv. samþm. mína í félmn.: Telja þeir, að þetta komi í bága við hagsmuni þjóðfélagsins, eða telja þeir það ekki?

Ég vil geta þess, að ég hef fengið vitneskju um, að á Norðurlöndum hefur verið látin fara fram atkvgr. um það, hvort menn vildu, að konur hefðu sömu laun og karlar. Í Noregi varð niðurstaðan sú, að 88% svöruðu játandi, 9% voru á móti því, en 3% höfðu ekki myndað sér skoðun á málinu. Hér á landi eru það 3 af 5 nm. í heilbr.- og félmn. Ed. Alþ., sem ekki hafa myndað sér skoðun um þetta. Það voru því mjög ólík hlutföll, en þau mundu verða eitthvað svipuð, ef íslenzka þjóðin væri spurð eins og Norðmenn, enda væri þá gert ráð fyrir, að konur væru valdar til starfa þar, sem þær væru jafnokar karlmanna eða fremri þeim, og þau svið eru ekki svo fá. Í Svíþjóð fór líka fram atkvgr. um þetta á s.l. ári; 71% svöruðu játandi, 20% voru á móti, en 9% höfðu ekki myndað sér skoðun. Það er heldur hærri tala, en í Noregi, en 71% voru því sem sagt fylgjandi, að konur fengju sömu laun fyrir sömu vinnu og karlar.

Hér í okkar þjóðfélagi er ekkert samræmi í þessum efnum. Allar konur í kennarastétt, konur, sem gegna læknis- og lögfræðistörfum og stúlkurnar, sem sitja við hlið piltanna í þingskrifarasætunum, hafa t. d. sömu laun og karlar og eins í einstöku iðngreinum, þar sem þær hafa haft aðstöðu stéttarfélagslegs eðlis. En hinn breiði fjöldi, verkakonurnar, konur, sem vinna við opinberar stofnanir o. s. frv., búa við hið mesta misrétti í þessum efnum. Í þessu er ekkert samræmi. — Eina ástæðuna hef ég ekki minnzt á, en hún er sú, að með aukinni tækni hafa störfin orðið miklu léttari og útheimta eigi sömu karlmannsorku og fyrr, og hefur því kvenfólk sömu aðstöðu til ýmissa starfa og karlmenn. Þetta hefur eigi einvörðungu orðið vegna breyttra sjónarmiða, heldur hafa og þjóðfélagshættirnir breytzt frá hinu frumstæða þjóðfélagi. Þannig sést hið aukna jafnrétti frá hinum ólíkustu hliðum. Íslendingar eru ekki einir um að standa að auknu jafnrétti kynjanna. Að þessu er ákveðið unnið í Englandi. Á þingi verkamannaflokksins, þar sem um 12 þús. foringjar hans voru viðstaddir, var gerð samþykkt um að hafa leyst þessi mál fyrir árslok 1951 og eigi síðar. Það var sú tíð á Íslandi, að engri konu var trúað fyrir kosningarétti, hinu hættulega vopni, kjörseðlinum. Svo var byrjað á að veita konum, sem stóðu fyrir búi, atkvæðisrétt í sveitarstjórnarmálum, og urðu það þá einkanlega ekkjur. Þetta þótti ekki illa gefast. Næsta stigið var, að konur í Rvík og Hafnarfirði fengu kosningarétt 1907. Og árið 1909 er þetta endurskoðað og ákveðið, að konur fái kosningarrétt í sveitarstjórnarmálum. Næstar voru vinnukonurnar, og var rætt um það á Alþ., en þá sagði einn hv. þm., að honum virtist það byltingarkennt að fara að veita þeim kosningarrétt (LJóh: Höfðu vinnumenn hann?) En hið undarlega gerðist, einkum þegar í ljós kom að, að öðrum kosti vildu þær ekki vera vinnukonur, að þá létu þeir sig. Árið 1915 er konum svo almennt trúað fyrir kosningarrétti. Þetta þurfti því að taka í mörgum skrefum, en ég spyr: Hver mundi nú vilja svipta konur kosningarrétti? Árið 1911 fá konur heimild til að stunda nám í öllum skólum. Hver mundi nú vilja útiloka þær frá því? Þær fengu ekki að stunda nám í skólum fyrr en löngu eftir að þær fengu að ganga undir próf. Var deilt um, hvort konum skyldi leyft að stunda nám í lærða skólanum. Þennan rétt öðluðust þær m. ö. o. ekki fyrr en 1911. Hver vildi nú svipta konur rétti til embætta? Nú hafa þær haft hann í 38 ár. Rétt er, að við urðum fyrstir til þess að stíga þetta skref. Væri þá nokkur háski á ferðum og eigi vel til fallið, að við yrðum líka fyrstir til að stiga skrefið til fulls og veita konum full mannréttindi? Um aldaraðir var það þannig, að stúlkur áttu að taka hálfan arf á við pilta, og fram á miðja 19. öld bjuggu konur við hálfan rétt við karla að þessu leyti (GJ: Hann er bara aftur í fornöld. — Forseti: Þetta er ekki nútímalöggjöf.) Ja, ég skal nú segja ykkur, mínir elskanlegu, að tilskipuninni frá 1850, um nokkrar breytingar á erfðalögunum á Íslandi, er fyrst verið að breyta núna með frv. hv. þm. Dal. Dytti nokkrum manni í hug, að réttlæta mætti, að stúlkubörn, sem nú fæðast, fengju aðeins hálfan rétt á við pilta? Nei. En svona var þetta. 1882 eða 1883 segir merkur Íslendingur, að hann hafi það fyrir satt, að kaup karla í ársvist sé fimmfalt á við kaup kvenna. Mundi nokkrum detta í hug að hverfa að þessu aftur? Mundum við eigi telja með öllu óhugsandi, að karlmaður gæti tekið að sér verk fimm kvenna? — M. ö. o., ég hef tekið hér langa röð af dæmum um umdeildar réttarbætur í réttindabaráttu kvenna. En hver einasta hefur sýnt, að hún var sjálfsögð, og er ekkert álitamál lengur. Er þá búið að fullnægja öllu réttlæti nú? Ég held, að það yrðu ekki tilfinnanlegar breyt., sem til þess þyrfti að gera. Varðandi þróunina í þessum efnum segir hver maður eftir á, að þetta og þetta hafi verið sjálfsagður hlutur. Svo er háttað um öll réttlætismál. Réttarbætur þurfa eigi að vera lengi í gildi þar til allir segja, að þær hafi verið sjálfsagðar. Nú er spurningin þessi: Vilja menn halda þróuninni áfram, þar til fullu jafnrétti er náð? Það eitt felst í þessu frv. og ekkert annað. Að því er frsm. sagði, að konur hefðu sums staðar víðtækari rétt en karlar og naumari rétt á öðrum sviðum, þá er ætlunin með frv., að þetta jafnist og konur fái hvergi rífari rétt nema að því er varðar móðurhlutverk konunnar, t. d. þegar kona leggst á sæng, og er þar eigi um það að ræða, að hægt sé að segja henni upp stöðu sinni. En að því er varðar annað en móðurhlutverkið, sé jafnrétti kvenna á við karla tryggt. Ég þykist mega vænta, að maður, sem vill, að misréttið verði jafnað á næsta þ., geti alveg eins samþ. og ekkert haft á móti því, að málið verði leyst á þessu þingi. Þar getur ekkert gerzt til bóta, ef það er ekki réttlætanlegt á þessu þingi.

Ég skal eigi fjölyrða frekar um málið. Ég tel mig hafa sýnt, að það er enginn hugarburður, að konur búi við skarðari hlut en karlar, þó að hv. þm. hafi ekki komið auga á þann mun. Ég hef sýnt fram á, hvernig eldri lagaákvæði hafa vikið fyrir hinum yngri, með því að vitna til hinna nýjustu laga. Ég vil því vænta þess, að d. felli hina rökst. dagskrá og verði með því að samþ. frv. á þessu þingi. Og það yrði engin vansæmd fyrir íslenzka þjóðfélagið að stíga þetta spor á undan mörgum öðrum. Í grg. er bent á, að í sáttmála og mannréttindaskrá sameinuðu þjóðanna sé stutt að því, að komið sé í l. jafnrétti karla og kvenna. Íslendingar hafa tekið á sig skyldur með þátttöku sinni og eiga eigi að þverskallast við þeim. — Ég læt lokið máli mínu með ósk um, að d. samþ. frv. á þessu þ. og felli dagskrártill.