18.12.1948
Efri deild: 42. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þegar fjárlagaræðan var flutt í haust, notaði ég tækifærið til að benda á, að dýrtíðargreiðslur ásamt fiskábyrgð hefðu verið nær 61 millj. kr. á árinu 1947. Sjálf fiskábyrgðin var hér um bil þriðjungur þessarar upphæðar, hitt voru niðurgreiðslur, mest megnis á landbúnaðarvörum, og uppbætur, og þó nokkuð á öðrum vörum, en ekki í stórum mæli. Ég gat þess og, að útlit væri á, að á yfirstandandi ári mundum við þurfa enn hærri upphæð, og líklegt væri, að ekki minna en 70 millj. kr. mundi fara til þessara greiðslna á árinu 1948, en fiskuppbæturnar verða hlutfallslega miklu minni 1948. Ég hef áætlað, að varla muni fara minna í þær en kringum 15 millj. kr.; en auðvitað er ekki hægt að segja fyrir um þetta með neinni vissu. Hitt fer svo í landbúnaðarafurðirnar, 41/2 millj. í útflutningsuppbætur á kjöt o.s.frv.

Það er ekki ný bóla, að við höfum orðið að grípa til þess að halda niðri afurðaverði með því að greiða fé úr ríkissjóði. Sú stefna var upp tekin fyrir nokkrum árum, þegar mönnum þótti dýtíðin vaxa um of, og var þó ekki þá eins langt komið og nú. Samtímis hafa örðugleikarnir á því að halda atvinnuveginum gangandi vaxið, og lífskjör fólksins eru þannig og erfiðleikarnir það miklir að halda uppi heimilum, að vafasamt er, hvort verulegar kauplækkanir eru sanngjarnar, þó að hægt væri að koma þeim í framkvæmd, sem líka er vafasamt. Hins vegar er svo sjávarútvegurinn, sem stendur undir allri gjaldeyrisöflun þjóðarinnar, og því er reynt að bæta erlenda markaðsverðið með greiðslum úr ríkissjóði, þar sem þetta erlenda markaðsverð er ekki nægilegt. En þrátt fyrir þessar uppbætur standa ýmis fyrirtæki höllum fæti, sérstaklega þó vélbátaflotinn, enda hafa líka komið þar til aðrar örlagaríkar orsakir, aflaleysið á síldarvertíðunum. En það virðist enn svo í okkar þjóðfélagi, að hugur manna sé þannig, að um verulegar niðurfærslur sé ekki að ræða, og er ekki heldur þess að vænta, að hægt sé að knýja niður kaupgjald. Það eru margir, sem segja, að uppbæturnar á fisk sé vitleysa, og það eru líka margir, sem segja, að það sé líka vitleysa að reyna að halda niðri verðinu á neyzluvörum með greiðslum úr ríkissjóði. Þeir, sem þetta segja, hafa sjálfsagt mikið til síns máls, en menn hafa ekki enn verið reiðubúnir að ganga inn á slíka niðurfellingu hins opinbera, af henni mundi vissulega leiða atvinnuleysi, og engan langar til að bjóða því ástandi heim. Stj. hefur áður farið sömu götu og nú varðandi niðurgreiðslur, og það sama gerði fyrrverandi ríkisstj. En róðurinn hefur ekki orðið léttari, hann hefur frekar þyngzt ,en létzt, vegna aflaleysis vélbátaflotans. Efnahagur útvegsmanna er og sýnu verri en áður, og þeir hafa minna þol til þess að standa undir opinberum gjöldum, vöxtum, afborgunum og vátryggingargjöldum og þess vegna tilhneigingu til þess að stefna hærra í kröfum sínum. Landbúnaðurinn stendur hins vegar svo að segja með pálmann í höndunum, þar sem hann hefur fengið lögfest verð á sínum vörum og verður að hlíta því, meðan annað er ekki í lög tekið. Eftir það geigvænlega aflaleysi, sem var í sumar, var það sýnt að reyna þurfti að innleysa lögveðskröfur og sjóveðskröfur með opinberri hjálp. Það var ef til vill neyðarúrræði, en þó úrræði, og nýlega hefur Alþ. samþ. l., sem ganga í þá átt. Ríkisstj. hefur enn fremur þótt nauðsyn bera til að freista þess enn að framlengja ábyrgð ríkisins á fiskverðinu á sama hátt og gert var á s.l. ári. Mörgum þykir það verð, sem unnt er að ábyrgjast, of lágt, og er það rökstutt með ýmsu móti, en geta ríkissjóðs verður að vera nokkurt takmark fyrir því, hve langt er gengið í því efni. Það hefur þess vegna ekki þótt kleift, eins og hag ríkissjóðs er komið, m.a. vegna óárana fyrri ára, að hækka ábyrgðarverðið. Það er nú vitað, enda þótt kröfur útvegsmanna séu ekki með öllu órökstuddar, að kröfur stéttanna í þessu landi eru mjög á baugi, og ekki ofmælt það, sem einn nafnkunnur gáfumaður sagði nýlega í erindi, er hann hélt 1. des., að um nokkurt skeið hafi raunar öll þjóðin verið í kröfugöngu. Erfiðleikar útvegsmanna eru raunar svo miklir, að ekki getur talizt undarlegt, þótt þeir stefni nokkuð hátt í kröfum sínum, en það er hins vegar ekki hægt að verða við þeim óskum til fulls:

Frv. hefur nú gengið gegnum Nd. og þar hefur verið á það fallizt að hækka nokkuð þá fjárfúlgu, sem hugsuð er til aðstoðar útveginum, samkv. till. fjhn. deildarinnar og samtölum hennar við ríkisstj. Í fyrrgreindri fjárlagaræðu minni taldi ég nauðsyn á, að ríkissjóður sjálfur yrði losaður við að standa undir þessum ábyrgðargreiðslum. Samþykktir Landssambands íslenzkra útvegsmanna um leiðir hafa ekki fengið byr hjá sérfræðingum né meiri hluta ríkisstj. En hitt - að safna í sérstakan sjóð til þess að mæta niðurgreiðslunum — var farið inn á og ákveðið að stofna dýrtíðarsjóð svokallaðan, og honum á svo að afla tekna eins og segir í III. kafla frv. Það hirði ég ekki um að rekja; hv. þm. er það kunnugt af umræðunum í Nd., auk þess sem það liggur skjallega fyrir. Það er nú líklegt, og enda sýnilegt af þeim brtt., sem fram komu við frv. í Nd., að ekki muni allir á eitt sáttir um það, hvar taka skuli féð, en atkvgr. við endanlega afgreiðslu frv. sýndi þó, að yfirgnæfandi meiri hluti í þeirri deild féllst á að samþykkja fiskábyrgðina og fjáröflunarleiðirnar í öllum aðalatriðum. Það hefur verið reynt að stilla svo til um gjaldahækkanirnar, að þær kæmu ekki niður á almennum neyzluvörum að öðru leyti en því sem áhrærir söluskattinn, heldur hefur verið lagt á ýmis tæki og vörur, sem ekki eru að vísu óþörf, en teljast ekki til brýnna lífsnauðsynja manna. Hér er viðleitni til þess m.ö.o. að ráðast sem minnst á lífskjör almennings. Hitt er annað mál, hvort þetta verður nægilegt ti1 að standa undir þeim gjöldum, sem til hefur verið stofnað, því að það eitt er víst, að ef eftir verða 28 þús. tonn af hraðfrystum fiski og dýrtíðin helzt, verður það ekki minni upphæð árið 1949 en á árinu 1948, sem þarf að leggja fram í þessu skyni. Saltfiskframleiðslan er líka nokkuð þung á metunum um uppbótargreiðslur, því að þrátt fyrir það að í raun og veru sé hægara að selja saltfisk, er þó það verð, sem ábyrgzt hefur verið á þessu ári, langt fyrir ofan það, sem hægt er að selja fiskinn fyrir gegn greiðslu í frjálsum gjaldeyri. Hann hefur hins vegar verið seldur fyrir lírur fyrir sem næst venjulegt ábyrgðarverð, en líran er ekki frjáls gjaldeyrir. Með þessu frv. er þannig gerð tilraun til að forða stöðnun framleiðslunnar. Sumir segja, að það sé ekki nægileg aðstoð veitt útveginum, — það verði ekki farið út með þessu móti, eins og þeir komast að orði. Ég er nú ekki á því, að sá spádómur reynist réttur. Og hitt er víst, að útgjöldin til fiskábyrgðar og kjötuppbóta eru það há, að óhætt er að segja, að það er teflt á yztu nöf, hvað sem öðru líður.

Það getur skeð, að ég hafi ekki farið nóg í einstök atriði frv., en það mun þá gefast tækifæri til þess síðar í sambandi við fyrirspurnir, er fram kynnu að koma. En ég vil skýra frá því, að í viðbót við þær umbætur frá sjónarmiði útvegsmanna, sem gerðar voru á frv. í Nd., þá gaf ég fyrir hönd ríkisstj. þá yfirlýsingu, að bátaútvegsmenn skyldu á komandi ári njóta sömu fríðinda í sambandi við sölu hrogna og í ár og að athugað skyldi, að hve miklu leyti mætti fara frekar inn á þá leið, ef um væri að ræða vöru, sem ekki hefði selzt fyrr á erlendum markaði.

Ég vil svo að endingu mælast til, að frv.verði vísað til hv. fjhn. að lokinni umr.